Poppsálin: Poppmenningarlegt hlaðvarp með sálfræðilegu ívafi

Sála fékk að heyra í Elvu Björk Ágústsdóttur stjórnanda Poppsálarinnar en svona er hlaðvarpinu lýst á Spotify:

“Poppsálin er poppmenningarlegt hlaðvarp með sálfræðilegu ívafi. Fjallað er um ýmis sálfræðileg málefni sem tengjast poppmenningu sem og áhugaverðar rannsóknir og pælingar innan sálfræðinnar.”

Elva Björk segir frá upphafi hlaðvarpsins í viðtali á DV, en hún hefur alltaf verið mikill aðdáandi söngkonunnar Britney Spears og náði sá áhugi mögulega hámarki í nóvember 2020 þegar hún fékk hálfgerða þráhyggju fyrir Britney í kjölfar ákæru hennar á hendur föður síns. Elva lýsir því hvernig hún sökkti sér ofan í málefni Britney og sat á endanum uppi með 20 blaðsíður af glósum um málið. Þá datt henni í hug að gera úr þessu hlaðvarpsþátt. Hún ákvað svo að láta slag standa og gera fleiri slíka þætti og úr varð þáttaröð sem sameinar tvær helstu ástríður Elvu, poppmenningu og sálfræði. Poppsálina má nálgast á Spotify sem og öðrum streymisveitum. Poppsálin er einnig á Instagram og Facebook.

Hér á eftir segir Elva okkur meira frá sér, popp- og sálfræðiáhuganum, hlaðvarpinu, náminu, kennslunni og fleiru sem hún fæst við í dag. Hún er dæmi um drífandi konu sem virkilega brennur fyrir því að deila áhuga sínum með öðrum. Við getum sagt að frásögn Elvu veiti hvatningu til að taka lífinu ekkert allt of alvarlega og njóta þess sem við tökum okkur fyrir hendur.

Geturðu sagt okkur aðeins frá þér? (aldur, nám, starf, áhugamál)

Ég er 41 árs!!!!!! Jesús trúi því varla sjálf. En ok. Ég er með BS og MS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands. Ég lagði áherslu á félagssálfræði í MS náminu mínu og er því ekki með Cand.psych gráðuna og löggildingu sem sálfræðingur. Ég vissi allan tímann að ég ætlaði ekki að starfa við meðferð, vildi frekar sinna fræðslu, kennslu og rannsóknum og valdi því MS nám í stað Cand.psych námið. Ég er síðan með kennsluréttindi ofan á þetta og kenni sálfræði í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en starfa líka við rannsóknir á framhaldsskólanemendum, hjá HÍ. Ég hef mikinn áhuga á öllu því sem viðkemur fólki og blanda því saman svona poppmenningu og sálfræði. Einnig finnst mér mjög gaman að horfa á þætti sem slökkva á heilastarfseminni, eins og Love Island og Bachelor. Segist samt alltaf horfa á þessa þætti í sálfræðilegum tilgangi.

Afhverju ákvaðstu að fara í sálfræðinám á sínum tíma?

Áhuginn á sálfræði kviknaði í menntaskóla þegar ég fann að þetta voru einu áfangarnir sem mér fannst gaman að mæta í. Ég dýrka að velta fyrir mér hegðun fólks og því tilvalið að læra meira í sálfræði. Ég var samt eiginlega allan tímann viss um að ég myndi enda á því að kenna sálfræði en ekki starfa klínískt og vissi því allan tímann að ég ætlaði að taka kennsluréttindin með.

Hvað hefur helst mótað áhuga þinn á sálfræði? Var það námið sjálft, vinnan, áhugamálin eða eitthvað annað?

Hummmm góð spurning. Kennarar í sálfræðinni höfðu áhrif hér líka. Friðrik heitinn Jónsson sem kenndi t.d. félagslega sálfræði hafði mikil áhrif á mig. En hann kenndi sálfræðina svo skemmtilega. Það hafði áhrif á bæði mína leið í MS náminu og starfsval mitt. Svo finnst mér svo margt innan sálfræðinnar skemmtilegt t.d. geðheilsuvinkillinn, félagslegi vinkillinn, sagan, tölfræðin, gagnrýnin hugsun og fleira og besta leiðin til að fá að grúska í því alla daga er að kenna sálfræði 😉 held ég allavega.

Hvað er það við poppmenningu sem heillar þig mest?

Sko ég hef alltaf haft áhuga á því sem fræga fólkið er að gera. Mér finnst hegðun þeirra vera oft svona ýktari útgáfa af okkur hinum og þess vegna svo áhugaverð. En áhuginn minn á poppmenningu byrjaði samt án gríns með Britney Spears. Við erum á svipuðum aldri og mér finnst svo áhugavert hvernig hennar líf hefur þróast. Sálfræðin blandast inn í þetta þar sem mér finnst mjög sérstaktakt hvernig hennar nánustu hafa tæklað hennar andlegu mál. Þannig að já. Þekkingin á sálfræðinni hefur í raun síðan ýtt enn frekra undir áhuga á poppmenningu og atriðum eins og af hverju höfum við áhuga á frægu fólki? Af hverju getur frægt fólk nánast selt okkur hvað sem er? Af hverju líkar sumu fólki vel við Trump?  Hvernig verður fólk allt í einu meðlimir sértrúarsafnaðar? Og svo framvegis. Þannig að ég skoða poppmenninguna út frá sálfræðilegum vinklum.

Grunaði þig í sálfræðináminu að þú gætir samtvinnað sálfræðina og popp-áhugmálið á einhvern hátt einn daginn?

Nei aldrei! Haha. Og raun fór ég ekki að spá í þessari tengingu fyrr en nýlega. Aðallega þegar ég fór að skoða málið hennar Britney og svipuð mál eins og Amanda Bynes. Einnig fór ég að velta fyrir mér af hverju konur með andleg vandamál er teknar svona föstum tökum eins og að missa sjálfræðið meðan frægir karlmenn, með svipuð vandamál, fá að gera alls konar sbr. Kanye West og fleiri. Mér fannst þetta svo áhugavert og ákvað að skoða þetta nánar og endaði á því að deila mínum pælingum með öðrum með hlaðvarpinu Poppsálin.

Þú lýsir upphafi hlaðvarpsins sem mjög spontant ferli, heldurðu að hlaðvarpið hefði orðið að veruleika ef þú hefðir ekki bara kýlt á að gera þennan fyrsta þátt?

Geggjuð spurning! Sko ég er MJÖG hvatvís og byrja á mörgum verkefnum í einhverju hvatvísis dópamíns-þarfa-kasti. Þannig að ég kem mörgu í verk og geri margt en klára ekki allt. Poppsálin var akkúrat dæmi um slíkt. Mér leiddist í Covid og langaði að fá útrás fyrir hvatvísina og úthverfuna. Ef ég hefði beðið eitthvað með þetta t.d. eftir að við fengum að byrja að mæta aftur til vinnu og svona þá er ég ekki viss um að ég hefði kýlt á þetta.

Ertu hvatvís að eðlisfari eða tekur þú venjulega tíma til að melta hlutina áður en þú hrindir einhverju í framkvæmd?

Ég er almennt mjög hvatvís og tek flestar ákvarðanir mjög hratt eins og svona hliðar verkefni. En… þegar kemur að öðrum hlutum eins og sambandsmálum og tilfinningum þá gæti ég ekki verið lengra frá hvatvísinni. Þá “rúminera” ég alla hluti í MAAARGA mánuði áður en ég tek ákvörðun.

Í viðtalinu á DV nefnir þú eins konar þráhyggju þína fyrir Britney Spears, ertu gjörn á að fá slíkar “þráhyggjur”? Eru einhverjar aðrar þráhyggjur sem þú vilt deila með okkur?

Haha já! Fæ alveg svona “þráhyggjur” en ég held að þetta gæti frekar flokkast sem einhvers konar hyper focus líkt og margir með  kannast við. Ég fæ áhuga á einhverju í smá tíma, gef allan minn tíma í það, sekk þvílíkt djúpt ofan í það og næ að gera heilmikið en fæ síðan leið eftir einhvern tímann og leita þá í eitthvað nýtt.

Hvaðan færðu helst innblástur að umfjöllunarefni? 

Ég styðst við alls konar. Það eru nokkrir áhugaverðir sálfræðingar sem ég fylgi á t.d. Youtube sem skoða fræga einstaklinga eins og dr. Todd Grande. Einnig hangi ég mikið á alls konar samfélagsmiðlum eins og Instagram og Tik Tok og fæ hugmyndir þaðan. Reyni síðan líka að grípa það sem er í gangi hverju sinni og fjalla um það.

Hvaða þátt hefur tekið þig lengstan tíma að undirbúa? 

Úfff Vísindakirkjan og Tom Crusie. Það tók heilt sumar. En annars er Britney búin að vera í huga mínum í 20 ár, þannig að ég hef eflaust verið mest undirbúin undir þá þætti.

Hefurðu einhvern tímann þurft að neyða þig til að klára undirbúningsvinnuna, breyta um umfjöllunarefni eða hætta við?

Já oft! Til dæmis held ég stundum að ég viti mjög mikið um eitthvað efni og þetta verði ekkert mál. Síðan sekk ég ofan í heimildavinnu langt fram á nótt og sé þá hve raunverulega lítið ég veit. Stundum held ég að eitthvað sé mjög áhugavert sem kemur svo í ljós að er bara dead boring og þá hætti ég við. Svo hef ég alveg stundum tekið upp þætti sem eftir á eru hálfgert flopp en leyfi þeim bara samt að streyma. Hef í raun bara ekki tíma til að sleppa því og byrja upp á nýtt. Þannig að mér persónulega finnst sumir þættir verri en aðrir en ég veit ekki hvort allir séu sammála mér í því.

Hvað hefur komið þér mest á óvart eftir að þú byrjaðir með hlaðvarpið?

Tíminn sem fer í undirbúningsvinnuna en líka hve gaman þetta er og hve æðislegt það er að heyra hvað fólki finnst gaman að hlusta. Að fylgjast með hlustunar tölunum er slæmur ávani þó.

Hvernig áhrif vonastu til að þættirnir hafi á hlustendur?

Sko ef ég á að vera hreinskilin þá byrjaði þetta allt bara á léttum nótum, ég var ekkert endilega að spá í neitt annað en að leyfa fólki að hafa eitthvað léttmeti til að hlusta á. En svo fór ég að birta þætti um t.d. OCD, kvíða og jaðarpersónuleikaröskun og hlustendur fóru að hafa samband og þakka fyrir umfjöllunina. Það gaf mér ákveðið búst. Að heyra hvað hjálplegt eitthvað spjall um jaðarpersónuleikaröskun eða áráttu og þráhyggju er fyrir hlustendur er yndislegt að heyra. Þannig að með tímanum fór ég að sjá fyrir mér að Poppsálin gæti mögulega opnað á umræður um ýmis andleg málefni, aukið þekkingu og fræðslu og þannig minnkað tabúið sem er í gangi.

Hvernig áhrif heldurðu að þeir hafi haft nú þegar, bæði á hlustendur og þig sjálfa?

Já aðallega þetta sem ég nefndi hér að framan. Fólk hefur talað um að hafa lært eitthvað nýtt t.d. um sjálft sig eða aðra. Ein hafði samband um daginn sem hafði látið makann sinn hlusta á þáttinn um OCD svo makinn gæti fengið skýrari mynd af því og lært af því. Mér þótt mjög vænt um að heyra það. Áhrifin á mig… Ég sjálf læri heilmikið þegar ég er að kynna mér efnið. Nýti margt af þessu svo í eigin kennslu til að gera hana áhugaverðari. Einnig er gott að finna úthverfri hegðun minni góðan farveg.

Hvernig sérðu fyrir þér að Poppsálin verði eftir nokkur ár?

Ég hreinlega veit það ekki. Ef ég þekki mig þá verð ég mögulega komin með nýja þráhyggju og byrjuð á einhverju öðru. Haha en þetta virðist vera að ganga vel og margir eru að hlusta, það heldur mér við efnið.

Tekurðu hlaðvarpið á einhvern hátt með inn í kennsluna? 

Já ég geri það oft. Nota t.d dæmi úr Poppsálinni í kennslu t.d ef við erum að ræða um kvíða þá get ég vitnað í dæmi úr þáttunum. Síðan skipa ég líka öllum nemendum að hlusta á Poppsálina ef þau vilja fá góða einkunn í áfanganum. 😊

Áhrif þín á MH-inga eru umtöluð, en við getum nokkuð örugglega fullyrt að á hverju ári byrji einhver hluti nýnema í sálfræði vegna áhuga sem þér tókst að kveikja. Hvað telurðu að búi þar að baki?

OMG!!! Í alvöru!!! Æji snúllurnar mínar. Elsku “börnin” mín. Yndislegt að heyra. Ég veit ekki. Sko ég hef sjálf svo óstjórnlegan mikinn áhuga á þessu og það kannski bara skín í gegn. Annað sem mér finnst mikilvægt sem kennari er að sýna nemendum virðingu og hafa áhuga á líðan þeirra og gengi. Ég reyni mitt besta að tengjast þeim, skilja nemendur mína og vil vita  hvað er að gerast í lífi þeirra, utan skólans. Ég reyni það allavega, en það gengur misvel eftir önnum og fjölda nemenda í bekknum.

Er eitthvað sem þú vilt segja við núverandi grunnnema í sálfræði?

Ahhh já nokkrir hlutir. Ég fékk 3,8 á fyrsta prófinu mínu í Almennunni en endaði á að ljúka MS náminu með tæpa 9 í einkunn. Þannig að gefðu þér tíma til að læra að vera háskólanemi. Það tekur oft tíma að læra hvernig maður á að læra í háskóla og hvernig svara eigi prófum.

Annað sem ég verð að segja líka er að það er í lagi að vera 80%. Þú þarft EKKI að gera öll verkefni upp á 10 eða sinna öllu 100%. Það fer oft gríðarlega mikill tími í þessi auka 20% sem eru á milli 8 og 10. Leyfðu þér bara fá örlítið lægri einkunn og nýttu tímann í að njóta námsins og félagsskapsins.

Ég er oft spurð hvernig ég nái að gera svona mikið, vera í rúmlega 100% starfi, eiga 3 börn og vera með hlaðvarp. Málið er að ég er alveg sátt við mín 80%. Ég VEL að gera hlutina ekki alveg fullkomlega. Ég VEL að gera fleiri hluti en örlítið ófullkomlega.

Að lokum. Það er alveg eðlilegt að vera stressaður þegar maður er að taka þetta stóra skref að byrja í háskóla. Þetta er allt svo nýtt. Það er í lagi að huga að andlegri heilsu og minnka álagið aðeins á meðan.

Við þökkum Elvu fyrir viðtalið og hvetjum ykkur lesendur eindregið til að hlusta á þættina, hafið þið ekki gert það nú þegar. Svo minnum við á að hægt er að styrkja hlaðvarpið með því að kaupa kaffibolla á https://www.buymeacoffee.com/.