“Ekki bíða eftir að tækifærin komi til þín.” Viðtal við Unni Andreu meistaranema við UCL

Unnur Andrea Ásgeirsdóttir er 25 ára og útskrifaðist úr Háskóla Íslands síðastliðið vor með BS gráðu í sálfræði. Hún lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík og prófaði svo þrjú fög í háskóla áður en hún ákvað loksins að fara út í sálfræði/hugræn taugavísindi. Núna stundar hún nám við UCL í London og fengum við að heyra meðal annars hvernig það var að sækja um og hefja framhaldsnám erlendis, hvernig tekið er á móti nýjum nemum við UCL, hvað hún hugsar sér að gera eftir námið og hvaða ráð hún hefur fyrir okkur hin.

Af hverju valdirðu þetta framhaldsnám og af hverju UCL?

Ég ákvað í rauninni að fara í þetta framhaldsnám áður en ég byrjaði í sálfræðinni við HÍ. Mig langaði að taka bachelorgráðu í hugfræði eða hugrænum taugavísindum en á Íslandi er það ekki hægt. Sálfræðin er skyld þessum fögum svo ég ákvað að bachelorgráða í sálfræði væri rökrétt fyrsta skref. Ég hafði UCL í huga allt námið (en var auðvitað opin fyrir öðrum skólum líka) þar sem UCL er mjög framarlega á sviði taugavísinda, í öðru sæti í heiminum og fyrsta sæti í Evrópu samkvæmt Thomson ISI Essential Science Indicators stuðlinum. Ég hef því alltaf haft augun á þessu námi við UCL. Það eru tvö prógröm í hugrænum taugavísindum á meistarastigi við UCL sem eru kennd saman (MSc og MRes) og ég ætlaði upphaflega að sækja um í MSc prógrammið. Eftir grunnnámið var ég samt komin með frekar góðan grunn hvað varðar rannsóknarstörf svo ég lét slag standa og sótti um í MRes prógramið þar sem aðaláherslan er á rannsóknir.

Hvernig var umsóknarferlið? 

Umsóknarferlið var fremur einfalt. Ég þurfti að skrifa kynningarbréf, senda inn einkunnir og CV ásamt því að fá tvö meðmælabréf. Það er mikil samkeppni um inngöngu í prógrammið en það voru einungis um 13% umsækjanda sem komust inn (36 af 280) svo það er mikilvægt að vanda umsóknina vel.

Hvernig var að finna íbúð og koma sér fyrir í London? 

Erfitt. Markaðurinn hérna hreyfist mjög hratt og leigan er mjög dýr. Ég byrjaði á því að leita á síðum eins og Spareroom en það gekk mjög illa. Oft eru herbergi að fara á þó nokkrum pundum yfir auglýst verð, og fólk býðst of til þess að borga hátt í sex mánuði fyrirfram til þess að tryggja sér húsnæði. Ég gafst á endanum upp og ákvað að búa á stúdentagörðum UCL. Ég bý í stúdíóíbúð og greiði aðeins lægri leigu fyrir stúdíó en gengur og gerist í London.

Hvað tók svo við? 

Fyrsta vikan í skólanum kallast induction week þar sem við fengum frekari kynningu á fyrirkomulagi námsins. Við fengum einnig lista yfir möguleg verkefni og leiðbeinendur. Þar sem ég er að taka rannsóknargráðu var mikilvægt fyrir mig að tryggja mér leiðbeinendur og verkefni sem fyrst svo ég hófst strax handa við að hafa samband. Ég hef verið að fylgjast með nokkrum rannsakendum við UCL og hafði því samband við einn þeirra og doktorsnemann hans. Þeir tóku síðan viðtal við mig þar sem þeir spurðu mig til að mynda út í það sem ég hef verið að gera í grunnnáminu, eins og BS verkefnið mitt og önnur rannsóknartengd verkefni. Viðtalið gekk bara nokkuð vel og þeir buðu mér verkefnið strax eftir viðtalið. Verkefnið snýr að því að kanna hlutverk drekans (e. hippocampus), í því að mynda og nýta spátengsl (e. associative predictions) í skynjun með því að nota fMRI og multivariate decoding aðferðir. Hugtakið spátengsl vísar til þess þegar fyrri reynsla hefur áhrif á það sem við búumst við að skynja. Verkefnið brúar þannig bilið á milli viðfangsefna sem eru oft rannsökuð í sitthvoru lagi, þ.e. skynjunar, minnis og náms. Ég mun vinna að verkefninu undir handleiðslu Oliver Warrington og Dr Peter Kok, en Kok er aðalrannsakandi Visual Perception team hjá Wellcome Center for Human Neuroimaging við UCL. Rannsóknir hans snúa aðallega að því hvernig heilinn samþættir fyrri reynslu og skynjun.

Hvaða mun finnurðu á skólaumhverfinu? Er eitthvað sem hefur verið sérstaklega erfitt að aðlagast fyrstu mánuðina?

Ég finn mjög mikinn mun. Þetta nám er á allt öðru caliberi en maður er vanur. Það sem ég tek helst eftir er fjölbreytni hvað varðar rannsóknastörf, ég gat til að mynda valið úr verkefnum sem tengjast sjónskynjun, tali og heyrn, minni, geðheilsu, taugasálfræði, metacognition og fleiru.

Það er ótrúlega vel haldið utan um allt hérna. Við erum 36 í náminu (26 í MSc og 10 í MRes) og við erum með 4 fulltrúa sem funda reglulega með deildinni og koma ábendingum nemenda til skila. Deildin reynir svo sitt besta til að bregðast við þeim. Þau eru mjög opin fyrir allri gagnrýni og vilja gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að bæta námið og upplifun nemenda. Að auki við skylduáfánga fáum við að sækja bæði MATLAB námskeið og Academic and career support seminar.

Það var í raun furðu létt að aðlagast öllu hérna. Ég hélt að þetta umhverfi yrði meira cut-throat en það er. Það var passað vel upp á að koma okkur inn í námið og við erum öll með personal tutor sem er rannsakandi við UCL. Þau eru okkur innan handar og svara spurningum varðandi framtíðarstörf og starfsferla, hvort sem það er innan akademíu eða ekki. Það var vel tekið á móti okkur og það kom á óvart hvað rannsakendur við UCL eru áhugasamir um okkur. Það er hvetjandi að finna fyrir því hvað það er mikill áhugi fyrir því að vinna með okkur.

Hvernig er félagslífið úti?

Eitt af því frábæra við UCL er að félagslífið er mjög virkt. Það eru óteljandi societies svo allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Svo er auðvitað mikilvægt að koma sér inn í menningu landsins sem maður býr í og mikilvægur liður í því er að kíkja á pöbbinn með krökkunum úr prógraminu eftir próf. Cheers!

Hvað sérðu fyrir þér að gera eftir námið? Langar þig að koma heim eða vera áfram úti? Vinna áfram í rannsóknum eða bæta meira námi við?

Ég brenn fyrir rannsóknarstörfum og er mjög forvitin að eðlisfari. Ég stefni því á feril innan akademíu og því er nauðsynlegt að fara í doktorsnám. Ég er enn að ákveða hvort ég eigi að halda beint áfram í doktorsnám eftir masterinn eða vinna við að aðstoða í rannsóknum í eitt ár. Ég væri til í að vera áfram úti, hvort sem það er í Bretlandi eða einhversstaðar annarsstaðar. Það að koma hingað út hefur víkkað sjóndeildarhringinn og mig langar að kanna frekar hvað er í boði hérna. Verð samt að viðurkenna að það er erfitt að vera í burtu frá fólkinu mínu á Íslandi. Markmiðið er að koma á endanum heim með nýja þekkingu, en það þarf alltaf einhver að fara út í víking til að afla nýrrar þekkingar, innleiða hana á Íslandi og efla rannsóknarstarf heima fyrir.

Ertu með einhver tips fyrir þau sem vilja fara út í framhaldsnám en hafa ekki enn sótt um? 

Já, ég er með nokkur:

–        Ég myndi byrja að hugsa snemma um það hvert stefnt er. Það þýðir lítið að sækja um í rannsóknartengt framhaldsnám án þess að vera með reynslu af því að stunda rannsóknir. Svo ef það er markmiðið þá er mikilvægt að afla sér þessarar reynslu sem fyrst.

–       Það er mikilvægt að átta sig á því að það er í góðu lagi að spyrjast fyrir um tækifæri og verða sér út um þau sjálfur. Ekki bíða eftir því að tækifærin komi til þín. Er einhver innan deildarinnar sem vinnur að rannsóknum sem þú hefur mikinn áhuga á? Um að gera að senda viðkomandi línu og spyrja hvort að þú getir aðstoðað við einhver verkefni.

–        Annað sem er mikilvægt að hafa í huga: Einkunnir eru ekki allt. Meðmælabréf og reynsla skipta miklu máli þegar umsóknir inn í framhaldsnám eru metnar. Það er dýrmætt að hafa einhvern sem hefur unnið náið með þér og getur vouch-að fyrir þig.

–        Ekki hætta við að sækja um vegna hræðslu við höfnun. Maður á eftir að upplifa höfnun oft í lífinu, sérstaklega ef maður kýs feril innan akademíu. Ef maður sækir ekki um þá er svarið hvort sem er nei! Be your own biggest advocate!

Við vonum að frásögn Unnar hafi veitt ykkur innblástur og hvatningu til að sækja nám utan landsteinanna, eða allavega gefið ykkur skemmtilega innsýn í ferlið. Þökkum Unni fyrir frábær svör og óskum henni alls hins besta úti í London!