Hvernig í ósköpunum kemst ég í gegnum síuna?

Þú varst að byrja í sálfræði við Háskóla Íslands. Til hamingju með það! Þú ert svakalega spennt/ur að byrja en þú hefur heyrt um það að eftir fyrstu önnina sé sía. Þú veist ekkert hvernig þú átt eiginlega að komast í gegn um þessa blessuðu síu. Hér er ég með örfá ráð fyrir þig.

Námið

Til þess að komast í gegnum síuna er mikilvægt að taka námið föstum tökum frá upphafi. Ég veit að maður var að koma úr sumarfríi og það er jafnvel langt síðan maður sat síðast á skólabekk en því fyrr sem þú kemur þér í gírinn, því þakklátari/a verður þú sjálfu/m/ri þér í lok annar. Það er samt sem áður algjör óþarfi að gera þetta erfiðara en þetta þarf að vera.

Hér eru nokkur úrræði sem er hægt að nota til að auðvelda sér námið.

Notaðu Connect
Í Almennu sálfræðinni er hægt að nota síðu sem heitir Connect. Þar er hellingur af prófum úr öllum köflum bókarinnar sem hægt er að nota til að læra betur það sem farið var yfir í tíma. Ef þú æfir þig á þessum prófum og stendur þig vel í þeim eru góðar líkur á því að þú standir þig vel í lokaprófinu.

Office pakkinn frá Háskólanum
Það er hægt að fá Office pakkann (s.s. Word, Power Point, Excel) í gegn um Upplýsingatæknisvið Háskóla Íslands. Það er mjög mikið til af fríum forritum sem þú færð aðgang að með því að vera í Háskóla Íslands og ég mæli með því að kíkja uts.hi.is og sjá hvað hentar þér.

Fáðu hjálp í tölfræði
Sumir eru algjörir snillingar í tölfræði frá náttúrunnar hendi. Það er ekki ég. Ég komst samt í gegnum tölfræðina með fínustu einkunn með því að nýta mér aukahefti í tölfræði frá Rebekku. Sumir kjósa líka að nota aukatíma frá kennurum sem vinna ekki fyrir háskólann. Stóra málið er bara að meta fyrir sjálfa/n/t sig hvað maður þarf á að halda til að komast í gegn.

Ef þú átt erfitt með að lesa, ekki gera það!
Ég er ekki að segja að þú eigir að sleppa því að lesa bækurnar. Það mun ekki koma þér í gegnum fyrstu önnina. Hins vegar er hægt að nota tæknina til þess að auðvelda sér það að lesa. Persónulega fæ ég mér allar skólabækurnar á rafrænu formi og nota forrit til að lesa bækurnar upphátt fyrir mig. Þannig kemst ég í gegnum bækurnar án þess að fá höfuðverk og án þess að vera endalaust fjórum vikum á eftir áætlun. Einn galli við þetta er að það er oftast mjög tölvuleg rödd sem les bækurnar upp sem hentar ekki fyrir alla en þegar það hentar getur það algjörlega breytt því hvernig gengur í náminu.

Mundu eftir pásunum!
Eitt það versta sem maður getur gert er að vinna stanslaust til þess að komast í gegnum síuna og brenna út á annarri önninni. Mundu að lifa lífinu, hittu vini þína, farðu út úr húsi og kynnstu nýju fólki. Þannig færðu ekki algjörlega upp í kok af tölfræðinni og vilt kannski halda áfram í sálfræðinni eftir jól.

Búðu til rútínu
Mættu í tíma ef þú mögulega getur og notaðu tækifærið að mega vera í skólanum til þess að kynnast fólki. Það eru margir mjög góðir staðir þar sem þú getur lært á háskólasvæðinu þar sem þú getur líka verið með samnemendunum. Ég mæli sérstaklega með þriðju hæð í Odda þegar kemur að lærdómi. Mundu líka að fara að sofa á svipuðum tíma flesta daga og reyndu að ná það miklum svefni að þér líði ekki illa daginn eftir. Þá verður allt svo miklu auðveldara í framhaldinu.

Félagslífið

Sálfræði er fræðigrein sem snýst um fólk. Þess vegna er líklegt að fólk sem kýs að læra sálfræði hafi áhuga á að kynnast fólki. Þess vegna er frábært hvað það eru til margar leiðir til að kynnast fólki í sálfræðinni.

Nýnemadagurinn
Nýnemadagurinn verður haldinn 9. september klukkan 16:30. Það er ótrúlega gaman að taka þátt og þetta er frábær leið til að kynnast fólki. Þarna myndast leshópar og vinskapur sem á eftir að endast út námið. Nýnemadagurinn hentar líka fyrir alla aldurshópa, sama hvort þú hafir verið að koma beint úr menntaskóla eða sért að láta langþráðan draum rætast. Það verður líka frí pizza, frítt snakk og fríir drykkir fyrir alla sem skrá sig þannig að alls ekki slæmur díll fyrir fátæka námsmenn. Hægt er að skrá sig með því að finna viðburðinn í fyrsta árs grúbbunni og skrá sig. Einnig má hafa samband við stjórnarmeðlimi Animu og þau munu hjálpa þér að skrá þig.

Vísindaferðir
Vísindaferðir eða vísó eins og þau eru alltaf kölluð eru viðburðir sem fyrirtæki og stofnanir halda til þess að auglýsa sig fyrir mögulegum starfsmönnum framtíðarinnar. Oft eru þetta fyrirtæki sem tengjast sálfræðinni á einhvern hátt eins og auglýsingastofur eða sálfræðingafélagið sem og önnur félög sem tengjast háskólanum á einhvern hátt. Vísó eru fríir viðburðir og lang oftast bjóða fyrirtækin upp á veglegar veigar (a.k.a. bjór) og eitthvað snarl. Oftast byrja vísóin eftir almennan vinnutíma á föstudögum. Til þess að geta skráð sig á vísó þarf maður að vera í Animu.

Skráðu þig í Animu
Til þess að skrá sig í Animu þarf einfaldlega að finna linkinn efst í Facebook grúbbunni og skrá sig. Hægt er að borga 7000 krónur fyrir allt árið eða 4000 krónur fyrir eina önn. Meðlimir Animu, eða Animulingar, fá forgang og afslátt á viðburði eins og árshátíð sálfræðinema og í skíðaferðina, og einungis Animulingar fá aðgang að vísindaferðum. Einnig fá Animulingar fjöldann allan af afsláttum sem geta oft komið sér vel. Svo er ég með smá ráð: Vertu vinur Anima Pepp á Facebook og fylgdu Animu á Instagram; þá missir þú ekki af neinu sem Anima hefur upp á að bjóða.

Viltu hafa áhrif á félagslífið?
Í september verða haustkosningar Animu. Þar kemur þitt tækifæri til þess að hafa áhrif á félagslífið þitt og samnemenda þinna. Hægt er að sækja um í skemmtinefnd; myndbandsnefnd; ritnefnd; meðstjórn (bara fyrsta árs nemar mega sækja um í meðstjórn) eða sem ljósmyndari Animu. Það að vera í stjórn er frábært tækifæri til þess að kynnast eldri nemendum sem eru þá mögulega með góð ráð fyrir þig og svo erum við bara ansi skemmtileg þó ég segi sjálft frá!

Almennt

Þegar ég horfi til baka eru nokkrir hlutir sem ég hefði viljað heyra á fyrsta árinu.

Það eru eiginlega allir í sömu stöðu og þú
Við þykjumst alltaf vera með allt á hreinu en það er sjaldnast raunveruleikinn. Það er þess vegna engin skömm í því að vera pínu úti á þekju fyrstu vikurnar og spyrja spurninga sem þér finnst kannski frekar heimskulegar, það er nefnilega pottþétt einhver annar að pæla í því sama.

Þú getur ekki sinnt náminu ef þú sinnir þér ekki
Allt sem þú reynir að gera þarf að byggja á traustum grunni og sá grunnur ert þú. Fyrsta og lang mikilvægasta markmiðið í lífinu er að hugsa vel um sig. Mundu eftir þarfapýramída Maslows. Hugsaðu fyrst um þig og svo allt annað.

Ef þú keyrir á vegg, ekki gefa í
Stundum reynir maður að læra þegar maður hefði átt að hætta mörgum klukkustundum áður. Ef þér líður eins og þú sért ekki að ná að taka inn neinar upplýsingar þá borgar sig oftast að fara að gera eitthvað annað. Þetta á líka við í lokaprófunum þegar maður er að reyna að læra námsefni fyrir heilt misseri á þremur dögum. Mundu að hvíla þig og leyfðu þér að melta upplýsingarnar.

Hafðu gaman
Þetta er skemmtilegur tími í lífinu, reyndu að njóta þess að vera til. Eins og skáldið sagði: þetta reddast.