Hvernig er að vera foreldri í sálfræðinámi?

Þegar mörg hugsa um nemendur í sálfræði ímynda þau sér barnlaust fólk, nýskriðið yfir tvítugt, sem býr á stúdentagörðum eða í foreldrahúsum og djamma hverja helgi. En við megum ekki gleyma að stúdentaflóran er fjölbreyttari og fólk á öllum aldri, af öllum kynjum og úr mismunandi aðstæðum stundar námið. Við spjölluðum við 4 nemendur sem eiga það sameiginlegt að vera foreldrar og spurðum þau út í hvernig námið samræmist foreldrahlutverkinu. Viðtölin fóru fram á haustönn 2022.

Eydís Ögn Guðmundsdóttir

Eydís er 23. ára og á einn 2. ára strák. Hún er á 2. ári og í fullu námi.

1. Af hverju ákvaðst þú að fara í sálfræði? Hvernig hafði það að eiga barn áhrif á ákvörðunina og hvað þurftir þú að hafa í huga? 

Ég hafði alltaf mjög mikinn áhuga á sálfræðiáföngum í framhaldsskóla og valdi þá sem valáfanga samhliða náminu mínu og útskrifaðist af félagsfræði- og náttúrufræðibraut. Ég ákvað að fara út í sálfræði af því mér fannst hún mjög áhugaverð og hafði gengið vel í henni. Að eiga barn hafði þannig séð ekki mikil áhrif á ákvörðunina að fara í skóla, nema kannski bara spark í rassinn til að fá menntun og góða vinnu. En annars hugsaði ég bara að ég ætlaði að gera þetta, því maður getur þetta alveg þó maður sé með barn.

2. Hvernig finnst þér námið samræmast foreldrahlutverkinu? Finnst þér skólinn koma til móts við mismunandi aðstæður nemenda? Finnst þér vera sýndur skilningur, til dæmis varðandi mætingu í tíma eða veikindadaga?

Það er búið að samræmast vel núna því þegar ég byrjaði var covid og þá voru allir tímar teknir upp og ekki skyldumæting. Það hjálpaði mjög mikið að þurfa ekki að mæta og geta verið heima ef hann var til dæmis veikur. Þannig mér finnst það þurfi alltaf að taka upp alla tíma þótt það sé ekki covid. 

3. Hvernig fannst þér viðmótið þegar covid var í gangi?

Mjög þægilegt í rauninni af því það var ákveðið að taka upp tímana. Þá ef hann var veikur eða ég var veik þá gat ég horft á þetta heima. Það hefði verið svolítið leiðinlegt að geta ekki fylgst með hvað var að gerast í tímunum út af veikindum eða ef ég þyrfti að sækja í leikskólann o.fl. 

4. Finnst þér að það sé gert ráð fyrir þér og þínum aðstæðum, bæði í náminu og félagslífinu? Hverju myndir þú vilja breyta?

Ég myndi bara vilja breyta að tímar væru alltaf teknir upp, en fyrst það er einmitt enn þá verið að því núna þá verður kannski haldið áfram með það, en mér finnst það mjög mikilvægt. En annars finnst mér allt bara mjög þægilegt. Ég kemst alveg út í félagslífið, á vísó og allt svoleiðis, af því ég er líka með aðila heima til að vera með hann.

5. Hvernig ferðu að því að halda rútínu með barn og skóla?

Bara skipuleggja sig rosalega mikið. Ég var til dæmis að greinast með ADHD núna og það hjálpar mér mjög mikið að skrifa niður allt sem ég þarf að gera fyrir vikuna og jafnvel eitthvað fyrir næstu viku líka. Þá kannski ef ég hef tíma les ég líka kaflann sem ég á að lesa fyrir næstu viku til að ef eitthvað kemur upp á þá þarf ég ekki að stressa mig á að geta ekki lært. 

6. Hvernig finnst þér námið hafa áhrif á fjárhag þinn, finnst þér vera veittur nægur stuðningur til nemenda sem eiga börn (eða nemenda yfirhöfuð), þarftu að vinna með skóla eða vera á námslánum?

Ég er í vinnu aðra hvora helgi og það dugir fyrir alla reikninga hjá mér og svo er kærastinn minn líka í vinnu. Ég er samt á námslánum og fæ þau bara inn á lokaða bók sem er ætluð til að safna fyrir íbúð en líka til að taka út af ef eitthvað kemur upp á, eins og ef þarf að laga bílinn. En auðvitað er mikil skerðing á pening að vera í námi og getur alveg verið stressandi.

7. Ertu með einhver ráð til annarra foreldra í náminu eða foreldra sem eru að hugsa um að byrja í háskólanámi?

Bara að fara í skóla því það er alveg hægt og skipuleggja sig einmitt rosalega vel, plana hvenær og hvað þú ætlar að læra. Að vera með barn er líka svolítið spark í rassinn af því oft þarf ég bara að læra núna, ég get ekki beðið með það þangað til á eftir. Þannig bara skipuleggja sig mjög vel og gera það sem mann langar að gera. 

Gísli Guðnason

Gísli á 2 stráka, Adam Inga sem er 7 ára og Baltasar Inga sem er nýorðinn 6 mánaða. Hann er á þriðja ári í sálfræðinni og í fullu námi.

1. Af hverju ákvaðst þú að fara í sálfræði? Hvernig hafði það að eiga barn áhrif á ákvörðunina, hvað þurftir þú að hafa í huga? Hvernig var að eignast barn í miðju námi og hvað þurftir þú að hafa í huga í framhaldi af því?

Sálfræði er eitthvað sem hefur alltaf heillað mig, það var eitthvað sem gat hjálpað mér að skilja mína eigin andlegu heilsu og vonandi í framtíðinni get ég aðstoðað aðra með það sama. Ég var nýorðinn stjúppabbi rétt áður en ég hóf námið en ég hafði ákveðið að fara í þetta nám fyrir það. Ég eignaðist Baltasar sirka viku eftir lokaprófin á 4. önn, þannig við Halla höfðum alveg sumarið til þess að aðlagast nýja heimilismanninum áður en við héldum áfram í skólanum. (Halla er á seinna árinu í félagsráðgjafa meistaranáminu).

2. Hvernig finnst þér námið samræmast foreldrahlutverkinu? Finnst þér skólinn koma til móts við mismunandi aðstæður nemenda? Finnst þér vera sýndur skilningur, til dæmis varðandi mætingu í tíma eða veikindadaga?

Bara vel, það sem skiptir mest máli finnst mér vera skipulagning á tímanum mínum. Ég hef einu sinni endað á því að taka Baltasar með mér í tíma og það var minnsta mál, hann svaf bara meiri hlutann af tímanum. Ég hef ekki þurft að taka neina veikinda daga út af strákunum. Tímarnir hjá mér og Höllu stangast ekkert á þannig það nær alltaf eitt foreldri að vera heima með strákana og einnig þá eiga strákarnir mjög góðar ömmur sem eru alltaf til í að koma og dekra aðeins við þá.

3. Hvernig fannst þér viðmótið þegar covid var í gangi?

Það er svolítið sérstakt að vera á 5. skóla önninni og vera fyrst núna að kynnast venjulegu skólalífi. Fyrstu takmarkanirnar fóru í gang sirka þegar fyrsta önnin mín var að byrja. Mér fannst skólinn koma mjög vel til móts við okkur. Það var öllu skellt á netið, það voru smá hikstar í byrjun en mér fannst allir kennarar vera fljótir að aðlaga sig.

4. Finnst þér að það sé gert ráð fyrir þér og þínum aðstæðum, bæði í náminu og félagslífinu? Hverju myndir þú vilja breyta?

Ég hef allavega ekki lent í neinu veseni með heimilislífið í náminu. Það snýst bara allt um að vera með gott skipulag. Ég læri mest þegar strákarnir eru sofandi eða í skólanum. Ég get nú ekki sagt að ég hafi mikið félagslíf þessa dagana, ef ég er ekki að læra þá er ég að sinna leigubílnum sem ég rek eða á bakvakt hjá Píeta samtökunum. Ef ég gæti breytt einhverju þá væri ég til í að gefa sjálfum mér örlítinn tíma í að heyra í félögum mínum.

5. Hvernig ferðu að því að halda rútínu með barn, skóla og vinnu?

Ég ræð svolítið sjálfur hvenær ég er að vinna, þannig ég skipulegg rútínuna í kringum það. Satt að segja þá er það að hafa barn sem þarf að vakna kl. 7 á morgnana til að gera tilbúið í skólann að hjálpa mér alveg gríðarlega á morgnana að koma sjálfum mér af stað. Síðan snýst þetta um góða samvinnu með frúnni.

6. Hvernig finnst þér námið hafa áhrif á fjárhag þinn, finnst þér vera veittur nægur stuðningur til nemenda sem eiga börn (eða nemenda yfirhöfuð), þarftu að vinna með skóla eða vera á námslánum?

Ég held að mín aðstaða sé aðeins öðruvísi en hjá flestum, ég er verktaki þannig ég get unnið þegar mér hentar. Ég þarf auðvitað að skipuleggja vinnutímann út frá því hvenær það er eitthvað að gera, eins og t.d. nætur um helgar. Ég hef ekki tekið nein námslán og hef verið að koma bara vel út.

7. Ertu með einhver ráð til annarra foreldra í náminu eða foreldra sem eru að hugsa um að byrja í háskólanámi?

Að nýta þann stuðning sem þú hefur í kring um þig, hvort sem það er frá maka, ástvinum eða skólanum.

Eva Rós Gústavsdóttir

Eva á tvö börn sem eru 15 og 9 ára. Hún er á 2. ári í fullu námi. 

1. Af hverju ákvaðst þú að fara í sálfræði? Hvernig hafði það að eiga barn áhrif á ákvörðunina, hvað þurftir þú að hafa í huga? Hvernig var að eignast barn í miðju námi og hvað þurftir þú að hafa í huga í framhaldi af því?

Ég var búin að vera að spá í að fara í þetta síðan í menntaskóla, fór í annað nám fyrst og var svo á vinnumarkaði. Það að eiga barn hafði engin sérstök áhrif á ákvörðunina frekar en að fara í eitthvað annað nám og svo sem ekkert sem ég þurfti að hafa í huga þannig séð. Ég var í lífefna- og sameindalíffræði áður og eignaðist barn þegar ég var í því, en það í rauninni leiddi til þess að ég hætti, það var bara of mikið.

2. Hvernig finnst þér námið samræmast foreldrahlutverkinu? Finnst þér skólinn koma til móts við mismunandi aðstæður nemenda? Finnst þér vera sýndur skilningur, til dæmis varðandi mætingu í tíma eða veikindadaga?

Mér finnst ég aldrei hafa þurft að biðja um frest eða eitthvað álíka, ég hef þurft áður fyrr að taka börnin með mér í skólann en það hefur aldrei verið neitt mál. En svo er tölfræðin eini áfanginn sem er ekki tekinn upp og ef maður kemst ekki þá bara kemst maður ekki, til dæmis ef maður er með veikt barn eða frídagar hjá þeim þá fær maður ekkert senda neina upptöku eða neitt svoleiðis.

 

3. Hvernig fannst þér viðmótið þegar covid var í gangi?

Bara fínt, ég allavega fann aldrei fyrir neinum vandamálum.

4. Finnst þér að það sé gert ráð fyrir þér og þínum aðstæðum, bæði í náminu og félagslífinu? Hverju myndir þú vilja breyta?

Í náminu hefur mér alltaf fundist vera rými ef ég hef þurft á því að halda og ef ég hef sent á kennara og beðið um að fá frest eða eitthvað svoleiðis er yfirleitt alltaf sýndur skilningur. Það er samt mismunandi eftir áföngum hversu mikið svigrúm er veitt, í sumum er ekki neitt. En ég held það sé líka málið í háskóla að ef þú kemst ekki þá verður þú bara að finna út úr því. Varðandi félagslífið er sama og ekki neitt fyrir nemendur sem eru kannski eldri en 30 ára. Sérstaklega eins og þegar maður er með börn þá er maður ekkert að fara á vísó af því þetta er aðallega bara svona fyllirísferðir og þetta er svo mikið yngra fólk. Þannig maður býr félagslífið í raun svolítið til sjálfur.

5. Hvernig ferðu að því að halda rútínu með barn og skóla?

Maður þarf bara að skipuleggja sig langt fram í tímann og geta reitt sig á að fá aðstoð frá fjölskyldumeðlimum eða vera með barnapíu eða eitthvað svoleiðis. Það er mjög erfitt að vera með tvö börn og vera í fullu námi,  að sinna því, sinna foreldrahlutverki og svo líka vinna. Þetta er í rauninni þrjú full störf og þetta er rosalega mikið. Og eins og á fyrstu önninni þá er eiginlega bara það sem er fókusinn og það kemst rosalega lítið annað fyrir. Að halda rútínu er helst þrjóska og líka sveigjanleiki sem þarf að tileinka sér og að geta verið með gott stuðningsnet í kringum sig. 

6. Hvernig finnst þér námið hafa áhrif á fjárhag þinn, finnst þér vera veittur nægur stuðningur til nemenda sem eiga börn (eða nemenda yfirhöfuð), þarftu að vinna með skóla eða vera á námslánum?

Ég get náttúrulega unnið minna, en persónulega er ég fjárhagslega nógu vel stödd þannig ég þarf ekki að hafa einhverjar rosa áhyggjur af þessu. Ég held að námslánin coveri ekkert sérlega mikið hjá þeim sem þurfa þau og það er líka dregið af fólki ef það vinnur of mikið með. Þannig að hjá menntasjóði er ekkert sérlega mikið verið að gera gagnvart þessu. En nei ég þarf svo sem ekki að vinna með skólanum.

7. Ertu með einhver ráð til annarra foreldra í náminu eða foreldra sem eru að hugsa um að byrja í háskólanámi?

Bara passa að setja ekki alltof miklar kröfur á þig, það er munur á því að vera 20 ára og búa heima hjá mömmu og pabba og vera að vinna aðra hvora helgi og svo að vera foreldri og þurfa að sinna heimili, borga af húsnæðislánum og allt sem því fylgir. Gera sér grein fyrir að þú ert að bæta við þig rúmlega 100% starfi og lækka kröfurnar. Ég myndi kannski ekki segja neinum að lækka á sig kröfurnar sem foreldri nema það þarf ekki alltaf allt að vera spikk og span heima hjá þér og börnin þurfa ekki að vera í pressuðum fötum og borða lífrænt. Það er líka ekkert sérlega raunhæft að þú fáir 10 ef þig langar líka að vera til staðar fyrir börnin þín og það er það sem skiptir öllu máli. Þú þarft líka að hafa það að leiðarljósi ef þú ert að mennta þig að þú sért með öruggar tekjur og sért í námi sem tryggir vinnu eftir útskrift. Börnin eru forgangsatriðið og þú ert í námi líka til þess að geta veitt börnunum þínum fjárhagslegt stuðningsnet. En svo er líka svolítið ólíkt að vera með 2. ára barn og svo að vera með 9 eða 15 ára, það er ekki alveg eins. Mér finnst mikið auðveldara núna heldur en þegar ég var í háskólanum áður og börnin mín voru mikið yngri. 

Elín Anna Guðmundsdóttir

Elín á 2 börn, 8 ára og 3. ára. Hún er á 3. ári í sálfræði í fullu námi.

1. Af hverju ákvaðst þú að fara í sálfræði? Hvernig hafði það að eiga barn áhrif á ákvörðunina, hvað þurftir þú að hafa í huga?

Ég hafði alltaf áhuga á sálfræði og langaði að fara í nám en beið með það þegar elsta barnið mitt fæddist. Þegar ég komst að því að ég væri ólétt (nýútskrifuð btw) þá vildi ég frekar fara að vinna fyrst og bíða með háskólann. Ég lét svo verða af því að fara í nám eftir nokkrar tilraunir á öðrum brautum, þá fann ég að mig langaði að læra sálfræði miklu meira en annað nám. Þá var yngsta barnið mitt nýfætt en af því ég hafði meiri stuðning á þeim tíma heldur en með fyrsta barnið mitt að þá var ekki annað í umræðunni en að byrja í sálfræðinámi.

2. Hvernig finnst þér námið samræmast foreldrahlutverkinu? Finnst þér skólinn koma til móts við mismunandi aðstæður nemenda? Finnst þér vera sýndur skilningur, til dæmis varðandi mætingu í tíma eða veikindadaga?

Mér finnst það ágætt, það er oft gefinn skilningur á því ef barn er veikt, en svo er líka oft sem kennarar setja inn skilyrði að það séu engin endurtekningarpróf í hlutaprófum til dæmis og skiladagar vegna verkefna eru oftast ekki sveigjanlegt. En þegar maður á börn að þá verður að fórna sumu og ég reyni að skipuleggja mig sem best til að missa ekki af einhverjum prófum eða verkefnum.

3. Hvernig fannst þér viðmótið þegar covid var í gangi?

Það var skilningur á þeim tíma, sérstaklega ef börnin voru með covid eða ég sjálf.

4. Finnst þér að það sé gert ráð fyrir þér og þínum aðstæðum, bæði í náminu og félagslífinu? Hverju myndir þú vilja breyta?

Mér finnst námið alveg ágætlega gera ráð fyrir mínum aðstæðum og félagslífið líka. Ég væri til í að kynnast fleirum sem eiga börn og eru í þessu námi.

5. Hvernig ferðu að því að halda rútínu með barn, skóla og vinnu?

Það þarf að skipuleggja sig vel, venjulega fer ég í vinnu á morgnana og eftir hana hef ég nokkra klukkutíma til að læra áður en ég næ í börnin mín. Svo nota ég helgar til að catch-up á einhverjum verkefnum eða lestri.

6. Hvernig finnst þér námið hafa áhrif á fjárhag þinn, finnst þér vera veittur nægur stuðningur til nemenda sem eiga börn (eða nemenda yfirhöfuð), þarftu að vinna með skóla eða vera á námslánum?

Ég er á námsláni, sem er ekkert til að hrópa húrra fyrir (jafnvel þótt það séu einhverjar bætur í því fyrst ég á börn), þess vegna ákvað ég að fara að vinna líka. Það mætti alveg gera betur í þessum málum.

7. Ertu með einhver ráð til annarra foreldra í náminu eða foreldra sem eru að hugsa um að byrja í háskólanámi?

Já, bara haltu áfram, gefðu sjálfum/sjálfri/sjálfu þér séns og ef þú ert að hugsa um nám bara go for it, ekki bíða of lengi.