Möguleikar eftir grunnnám í sálfræði

Það er algengt að nemendur skrái sig í sálfræðinám án þess að hafa hugmynd um hvert þeir stefna eða hvað þeir vilja taka sér fyrir hendur í framhaldinu. Við vitum mæta vel að grunnnámið er ekki nóg til þess að verða sálfræðingur, en hvaða gagn gerir þá þetta grunnnám? Er það bara kynning á mögulegum starfsframa sem sálfræðingur eða býður það kannski upp á fleiri möguleika sem okkur órar ekki fyrir? Við hjá Sálu ákváðum að hafa uppi á nokkrum viðmælendum sem eiga það öll sameiginlegt að hafa lokið við grunnnám í sálfræði og heyra hvað þau fást við í dag og hvernig sálfræðin hefur nýst þeim. Hver veit nema nýjar hugmyndir kvikni hjá þér kæri lesandi við lestur þessara frásagna.


María Rut Kristinsdóttir

Hvað gerir þú í dag?

Ég heiti María Rut Kristinsdóttir og er 31 árs. Og starfa í dag sem aðstoðarmaður formanns Viðreisnar á Alþingi. 

Hvenær laukstu við BS í sálfræði? 

Ég útskrifaðist með BS í sálfræði í júní 2013. 

Fórstu í eitthvað frekara nám og þá hvað? 

Ég fór svo í MPA nám í Opinberri stjórnsýslu, sem ég á eftir að klára. 

Hvað var planið þegar þú hófst sálfræðinámið og hvernig áhrif hafði námið á þá leið sem þú fórst út á vinnumarkaðinn?

Upphaflega ætlaði ég mér að verða klínískur sálfræðingur en eftir að ég kynntist félagssálfræðinni í bland við þátttöku í Stúdentapólitíkinni var ekki aftur snúið. 

Hvernig gagnast sálfræðin þér í því sem þú hefur tekið þér fyrir hendur?

Sálfræðinámið hefur nýst mér mjög vel, hvort sem um er að ræða að lesa flókinn texta og greina meginatriði máls, lesa rannsóknir og gögn eða að skilja mannleg samskipti og hegðun. Ég hef starfað töluvert með ólíkum hópum einstaklinga og þar nýtist þekkingin oft vel úr náminu. Svo á ég tvö börn og einn hund og atferlisfræðin hefur aldeilis komið að gagni stöku sinnum. Sérstaklega í hundauppeldinu. Svo er ágætt að vita að það þegar maður starfar í stjórnmálum að það eru ekki allar kannanir sem gerðar eru endilega marktækar, sérstaklega svona þegar að maður er ekki ánægður með niðurstöðuna. Þannig að allt í allt þykir mér mjög vænt um námið mitt við sálfræðideildina. Þar lærði ég margt sem ég hef haft að leiðarljósi í lífinu og er handviss um að sálfræðin hafi verið rétt val fyrir mig.

María Rut hefur auk þess fengist við ýmislegt sem við mælum með að tékka á, sem dæmi má nefna fræðsluvettvanginn Hinseginleikann (https://hinseginleikinn.is/) og hlaðvörpin Pælum í pólitík og Raunveruleikinn.


Pálmar Ragnarsson 

Hvað gerir þú í dag?

Ég heiti Pálmar Ragnarsson og vinn við það að halda fyrirlestra um samskipti. Það geri ég á eigin vegum og held fyrirlestra á vinnustöðum, í skólum og íþróttafélögum sem óska eftir minni þjónustu. Einnig er ég körfuboltaþjálfari og skrifaði nýlega bókina Samskipti sem kom út rétt fyrir jól.

Hvenær laukstu við BS í sálfræði? 

Ég útskrifaðist með BS í sálfræði við Háskóla Íslands árið 2011. 

Fórstu í eitthvað frekara nám og þá hvað? 

Eftir það starfaði ég á BUGL sem ráðgjafi og hópstjóri í tvö ár og tók eitt ár í að undirbúa gerð sjónvarpsþáttar áður en ég skráði mig í MS nám í viðskiptafræði þar sem ég útskrifaðist með áherslu á samskipti á vinnustöðum.

Hvað var planið þegar þú hófst sálfræðinámið og afhverju valdirðu það?

Þegar ég hóf nám í sálfræðinni var ég svolítið týndur og vissi ekki hvað ég vildi gera við líf mitt. Ég hafði þrisvar áður byrjað í Háskólanum og gefist upp eftir stutt tímabil og var í mikilli óvissu. En þegar ég fór í sálfræðina fann ég fljótt að þetta var eitthvað sem ég hafði mikinn áhuga á og elskaði umhverfið og andrúmsloftið. Kynntist rosalega mikið af skemmtilegu fólki og endaði á því að bjóða mig fram sem formann Animu sem ég stýrði ásamt frábæru fólki á lokaári mínu. Ég held að áhuginn minn á fólki og samskiptum hafi verið stærsta ástæðan fyrir því að ég valdi námið, algerlega grunlaus um alla tölfræðina og aðferðafræðina sem fylgdi síðan með í bónus.

Hvernig áhrif hafði námið á þá leið sem þú fórst út á vinnumarkaðinn?

Það er engin spurning að BS gráðan í sálfræði hefur hjálpað mér mikið í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Án hennar hefði ég líklega ekki fengið starfið mitt sem ráðgjafi á BUGL sem var rosalega góður skóli. Þar nýttist margt sem ég hafði lært í náminu gríðarlega vel. Þegar ég þjálfa börn í körfubolta nýti ég reglulega það sem ég hef lært úr náminu og mun gera með mín eigin börn í framtíðinni. Þegar ég held fyrirlestra um samskipti gefur gráðan mér einnig ákveðinn styrkleika því fólk ber virðingu fyrir gráðunni og í kjölfarið tekur það líklega aðeins meira mark á því sem maður segir.

Hvernig gagnast sálfræðin þér í því sem þú hefur tekið þér fyrir hendur?

Ég mæli með því að fólk leggi sig eins mikið fram og það geti í náminu. Nýti þessi ár í að sjúga inn eins mikla þekkingu og hægt er því við vitum aldrei hvar og hvenær hún mun nýtast okkur. Einnig að nota háskólaárin til þess að kynnast eins mikið af skemmtilegu og öflugu fólki og þið getið. Það mun gera námið margfalt skemmtilegra og svo hjálpar það ykkur að hafa tengsl út um allan bæ þegar ykkur langar að láta vaða á skemmtileg verkefni tengd náminu eða öðru í framtíðinni.

Þess má geta að Pálmar átti stórleik í árshátíðarmyndbandi Animu árið 2010.


Anna Bára Unnarsdóttir 

Hvað gerir þú í dag?

Ég starfa sem rannsóknarmaður hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Þar hef ég verið í ýmsum verkefnum, meðal annars í aðstoðarkennslu og í rannsóknarvinnu þar sem ég skoða meðal annars algengi skertra svefngæða hjá íslenskum konum og tengsl við bakgrunnsbreytur, skammdegi og aðra áhættuþætti. Nýlega hóf ég svo störf sem verkefnisstjóri við alþjóðlegt rannsóknarverkefni þar sem skoðuð verða áhrif COVID-19 faraldursins á líðan og almannaheill.

Hvenær laukstu við BS í sálfræði? 

Ég lauk námi með BS-gráðu í sálfræði í júní 2018. Áhugi minn á sálfræði kviknaði í framhaldsskóla eftir að ég skráði mig í valáfanga í auglýsingasálfræði en mér þótti snjallt hvernig hægt væri að nýta aðferðir sálfræðinnar til að ná til fólks og hafa áhrif á hugarstarf þess og hegðun. Í BS-náminu í sálfræði öðlaðist ég góðan fræðilegan grunn og þjálfun í tilteknum aðferðum, t.d. í tölfræði og vísindalegum vinnubrögðum, sem hafa nýst mér vel á atvinnumarkaðnum.

Fórstu í eitthvað frekara nám og þá hvað? 

Eftir sálfræðina skráði ég mig í framhaldsnám í lýðheilsuvísindum þar sem ég hef mikinn áhuga á rannsóknum sem tengjast áhrifavöldum heilbrigðis, þá sérstaklega svefnrannsóknum og áhrifaþáttum svefns. Lýðheilsuvísindi eru þverfræðilegt framhaldsnám og því fékk ég að móta námið eftir mínu höfði og velja mér valáfanga af hinum ýmsu fræðasviðum. Ég tók til dæmis tvo valáfanga í hagnýtri sálfræði með nemendum af kjörsviðinu samfélag og umhverfi og fékk þar þjálfun í því hvernig hægt væri að nýta kenningar, aðferðir og niðurstöður rannsókna til að skilja og leysa raunveruleg samfélagsvandamál og bæta heilsu innan samfélagsins okkar.

Hvernig áhrif hafði námið á þá leið sem þú fórst út á vinnumarkaðinn?

Eftir að ég lauk námi í lýðheilsuvísindum vorið 2020 var mér boðið starf sem rannsóknarmaður hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. 

Hvernig gagnast sálfræðin þér í því sem þú hefur tekið þér fyrir hendur?

Heilt yfir hefur sú þekking sem ég öðlaðist í sálfræðináminu nýst mér gífurlega vel, bæði í lífi og starfi, og væri ég ekki á þeim stað sem ég er í dag, ef ekki væri fyrir þá þekkingu sem ég öðlaðist í gegnum sálfræðinámið.

 


Þóra Björg Sigurðardóttir 

Hvað gerir þú í dag? 

Ég er prestur á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit.

 

Hvenær laukstu við BS í sálfræði? 

Árið 2012.

 

Fórstu í eitthvað frekara nám og þá hvað? 

Ég fór svo beint í BA í guðfræði og Mag.theol í guðfræði.

 

Hvað var planið þegar þú hófst sálfræðinámið og afhverju valdirðu það? 

Ég var ekki með mikið plan þegar ég hóf nám í sálfræði. Ég var frekar týnd, en vildi prófa sálfræðina því mér þótti hún mjög áhugaverð. Ástæðan fyrir því að ég valdi sálfræði á endanum var einfaldlega sú að ég taldi að það nám myndi alltaf komast til með að nýtast mér, sama hvað ég myndi ákveða að starfa við.

 

Hvernig áhrif hafði námið á þá leið sem þú fórst út á vinnumarkaðinn? 

Frá unglingsaldri hef ég starfað mikið með börnum, bæði á leikskóla, grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Eftir námið er ég enn í þannig starfi að ég starfa mikið með börnum og námið í sálfræði hefur komið sér mjög vel fyrir mig. Það hefur bæði hjálpað mér mikið að þekkja til ýmissa sálfræðilegra greininga barna og einnig að hafa fengið innsýn í uppeldisfræði. Veit ekki hvort sálfræðin hafði beint áhrif á það nám sem ég valdi mér í framhaldinu, en ég var þó alveg viss um að ég vildi starfa með fólki.

 

Hvernig gagnast sálfræðin þér í því sem þú hefur tekið þér fyrir hendur? 

Hún gagnast mér mjög vel. Það að þekkja til sálfræðinnar hjálpar manni oft að skilja fólk og aðstæður betur. En ég vinn auðvitað alla daga við það að vera í samskiptum við annað fólk. Sálfræðin er eitthvað sem snertir okkur öll og það gefur því augaleið að námið mun alltaf koma til með að vera gott veganesti út í framtíðina.


Páll Jakob Líndal

Hvað gerir þú í dag?

Í dag starfa ég við fjölbreytta hluti sem allir tengjast sálfræði með einum eða öðrum hætti. Ég sumsé rek tvö fyrirtæki; 1) TGJ hönnun – ráðgjöf – rannsóknir sem er ráðgjafafyrirtæki á sviði umhverfissálfræði, hönnunar og skipulags, og; 2) ENVRALYS sem er rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtæki þar sem sálfræði og nýjasta tölvutækni er notuð til að skoða og rannsaka áhrif umhverfis á fólk. Svo kenni ég bæði við Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, auk þess að vera coach (markþjálfi) og fyrirlesari.

Tilgangurinn með öllu þessu er að auka rými fyrir sálfræðileg sjónarmið við hönnun, mótun og skipulag umhverfis og að ríkari áhersla sé lögð á samspil fólks og umhverfis.

Hvenær laukstu við BA í sálfræði?

Ég lauk BA í sálfræði frá HÍ 2003.

Fórstu í eitthvað frekara nám og þá hvað?

Ég er með doktorspróf í umhverfissálfræði frá Háskólanum í Sydney í Ástralíu. Ég hóf námið árið 2007 og lauk því árið 2013.

Hvað var planið þegar þú hófst sálfræðinámið og afhverju valdirðu það?

Ég hafði lokið BS-prófi í líffræði frá HÍ árið 1999. Meðfram náminu hafði ég unnið við líffræðirannsóknir og eftir námið hélt ég því áfram. Hins vegar fannst mér þessi vinna svo brjálæðislega leiðinleg og ég hugsaði „ég á bara eitt líf og ég get ekki eytt því í þetta“. Ég og konan mín (sem reyndar var kærasta mín þá) ræddum fram og aftur hvað ég ætti að gera, og hún var alveg hörð á því að ég ætti að fara í sálfræði. Ástæðan var einfaldlega sú að ég var kominn á bólakaf í sálfræðilegar pælingar og fannst þær mjög áhugaverðar. Pælingarnar snerust annars vegar um hvernig ég gæti sigrast á kvíða mínum og vanmati, og hins vegar hvernig ég gæti lifað því lífi sem mig langaði að lifa og hjálpað öðrum að lifa þeirra draumalífi. Ég skráði mig því í sálfræði haustið 2000 og hef ekki séð eftir því. 

Hvernig áhrif hafði námið á þá leið sem þú fórst út á vinnumarkaðinn?

Námið opnaði á margt ótrúlega áhugavert og ég var alveg ringlaður hvað ég vildi. Ég var samt klár á að ég vildi ekki fara í klíníska sálfræði, og horfði frekar til öldrunarsálfræði, sálfræðilegra rannsókna, kennslu o.fl. En svo datt ég niður á umhverfissálfræði haustið 2004/vorið 2005 og fannst það geggjað spennandi, ekki síst vegna þess að mamma mín var arkitekt og ég hef alla mína ævi meira og minna verið umkringdur umræðu um hönnun og skipulag umhverfis.

Hvernig gagnast sálfræðin þér í því sem þú hefur tekið þér fyrir hendur?

Í mínum huga er sálfræðin bara ALLT. Hún teygir anga sína inn í alla kima samfélagsins, alls staðar þar sem er fólk, þar er sálfræði. Að mínu mati er mikilvægi sálfræðinnar ekki nægjanlega viðurkennt, þó svo gríðarlega miklar jákvæðar breytingar hafi átt sér stað að þessu leytinu til á síðustu árum og áratugum. Sálfræðin hefur nýst mér meira og minna í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur, frá barnauppeldi yfir í business, frá sjálfsvinnu yfir í skipulag borga og bæja. 


Rannveig Tryggvadóttir

Hvað gerir þú í dag? 

Ég er framkvæmdastjóri í Kötlu, fyrirtækis í matvælaiðnaði sem flestir þekkja. Við framleiðum púðursykur, bökunardropa, rasp, Hrista og baka pönnukökur, vöfflur og allt mögulegt fyrir neytandamarkað. Við erum einnig með þrjú önnur svið sem eru bakaríissvið, kjötiðnaðarsvið og fiskiðnaðarsvið. Á fiskiðnaðarsviði er við mest í útflutningi svo starfið er ansi víðtækt.  

Hjá okkur starfa 25 manns og þrjú vélmenni 🙂

Ég vann lengi vel á auglýsingamarkaðnum, var markaðsstjóri Kringlunnar um tíma, framkvæmdastjóri Pipar Media auglýsingastofu. Í birtingadeildum á auglýsingastofum er mikill akkur í að ráða fólk með BS gráðu í sálfræði, framúrskarandi þekking á tölfræði og vinnusemi er þar helsta ástæðan.  

Hvenær laukstu við BS í sálfræði? 

Ég lauk BS í sálfræði árið 2002 frá Háskóla Íslands.  

Fórstu í eitthvað frekara nám og þá hvað?

Þar sem ég fór strax að vinna á auglýsingastofu og var þar í birtinga- og viðskiptahlutanum þar þá ákvað ég eftir fæðingarorlof með yngstu dóttur mína að fara í MS nám í viðskiptafræði. Ég útskrifaðist úr því árið 2011.

Hvað var planið þegar þú hófst sálfræðinámið og afhverju valdirðu það?

Ég ætlaði eins og margir að bjarga heiminum, valdi á milli þess að fara í sálfræði eða læknisfræði. Áhuginn lá meira á sálfræðisviðinu, enda hef ég brennandi áhuga á fólki, samskiptum og uppeldi. Stefnan var á klíníska taugasálfræði, en svo bara breyttust þau plön og ég er þar sem ég er í dag.

Hvernig áhrif hafði námið á þá leið sem þú fórst út á vinnumarkaðinn?

Sálfræðin er frábær grunnur fyrir vinnumarkaðinn að mínu mati. Í sálfræðinni lærir fólk öguð vinnubrögð, að vinna undir álagi og tölfræðikunnáttan er að mínu mati sérlega mikilvæg.  

Hvernig gagnast sálfræðin þér í því sem þú hefur tekið þér fyrir hendur?

Sú ákvörðun að fara í sálfræði hefur gagnast mér mikið í mínu lífi, fyrir það fyrsta gagnrýnin hugsun, vinnusemi, tengslanetið, vináttan, öguðu vinnubrögðin. Það sem vafðist hins vegar fyrir mér í mörg ár eftir sálfræðinámið var að læra að skrifa aftur skemmtilegri texta sem var ekki bara uppfullur af staðreyndum 🙂 Frábært nám sem ég mæli með fyrir alla sem hafa áhuga á góðu og gagnlegu grunnnámi.


Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir

Hvað gerir þú í dag?

Ég er eftirlaunamanneskja í fullu starfi, en stunda jafnframt félagsstörf, bæði launuð og ólaunuð. Starfsævinni varði ég mest í verkefni, sem tengdust fræðslu fullorðinna á vinnumarkaði, síðast sem framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, en áður m.a. hjá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu og Mími Símenntun.

Hvenær laukstu við BA í sálfræði? 

Ég lauk BA prófi í sálfræði og hliðstæðum greinum árið 1978. Sálfræðin var mjög ný grein í Háskóla Íslands þegar ég hóf þar nám. Ekki var nægilegt framboð af kúrsum til að hægt væri að ljúka BA námi eingöngu í sálfræði og því var val um greinar til að taka með m.a. heimspeki, félagsfræði og fleiri greinar, þess vegna var talað um hliðstæðar greinar. 

Fórstu í eitthvað frekara nám og þá hvað?

Ekki var hægt að halda áfram námi á Íslandi eftir BA próf og ég hafði ekki aðstæður til að fara erlendis í nám á þessum tímapunkti. Ég ákvað því að sækja mér kennsluréttindi. Þar með lá leiðin í uppeldisfræðina í HÍ. Það kom mér á óvart hvað námið var skemmtilegt og áhugavert, þannig að í framhaldinu lá leiðin til Harvard háskóla í Bandaríkjunum til náms í kennslufræðum og þar tók ég „Master of Education“ gráðu.

Hvað var planið þegar þú hófst sálfræðinámið og afhverju valdirðu það?

Sálfræðin heillaði mig, því ég hef alltaf haft gaman af að velta manneskjunni fyrir mér, forsendum hennar við ýmsar aðstæður, atferli, tilfinningum og hafði ríka löngun til að hjálpa þeim sem eiga erfitt. 

Hvernig áhrif hafði námið á þá leið sem þú fórst út á vinnumarkaðinn?

Eftir heimkomu úr náminu í Bandaríkjunum, þá nýtti ég mér sálfræðina og kennsluréttindin til að kenna fullorðnum sjálfsstyrkingu, samskipti á vinnustað og ræðumennsku, svo eitthvað sé nefnt. Ég komst að því að mér fannst í rauninni mjög skemmtilegt að vinna með fullorðnu fólki og sjá það gleðjast yfir því að fá nýjan skilning á sjálfu sér og samskiptum í víðu samhengi m.a. á vinnustaðnum. Sálfræðinámið veitti mér styrk til að glíma við ýmsar uppákomur í hópum og róa fólk sem var í uppnámi t.d. vegna atvinnumissis. „Grúppudýnamikin“ eins og hún var kölluð í náminu í HÍ kom sér sem sagt vel.  

Ég starfaði sem framkvæmdastjóri síðustu 18 árin á vinnumarkaði og stýrði stórum þróunarverkefnum bæði innlendum og erlendum oft í flóknu samstarfi. Hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var þróuð aðferðafræði við raunfærnimat, þar sem metin var starfsreynsla í ákveðnum greinum sem sambærileg tilteknum áföngum í framhaldsskóla. Þeir sem fóru í matið voru starfsmenn í viðkomandi greinum, sem ekki höfðu lokið námi frá framhaldsskóla. Það var ómetanlegt að sjá hvernig sjálfstraustið óx hjá þessu fólki og áhugahvötin vaknaði. Samtalið um reynsluna og matið til eininga var valdeflandi fyrir fólkið og margir voru tilbúnir til að leggja mikið á sig til að halda áfram og ljúka námi. Rannsókn sem gerð var á raunfærnimatinu studdi þetta.

Hvernig gagnast sálfræðin þér í því sem þú hefur tekið þér fyrir hendur?

Ég hef í störfum mínum unnið með ýmsum samtökum; stéttarfélögum, samtökum atvinnurekenda og ráðuneytum. Í erlendum verkefnum voru oft fulltrúar margra þjóða og ýmissa skólastiga. Oft þurfti að leysa úr deilum vegna mismunandi hagsmuna og ýmissa ágreiningsmála, sem að öllu jöfnu tókst prýðilega. Ég held að sálfræðinámið og eilífur áhugi á faginu hafi stuðlað að velgengni minni í þessum verkefnum. Mannaforráð eru líka þess eðlis að innsýn í sálfræði skaðar sannarlega ekki. Þó starfsferill minn hafi breyst miðað við upphaflegt markmið, þá reyndist hann farsæll og hentaði mér vel. Ekki er alltaf hægt að benda nákvæmlega á hvaðan ákveðin færni er sprottin, er hún manneskjunni eðlislæg eða lærð? Er hún lærð í námi eða í starfi? Þessu er ekki auðvelt að svara, en ég er viss um að sálfræðinámið var góður grunnur til að byggja á, hefur mótað sýn mína á mörg viðfangsefni gegnum árin og stuðlað að árangri í störfum mínum.


Sigvaldi Sigurðarson

Hvað gerir þú í dag? 

Ég starfa sem verkefnastjóri sambands íslenskra framhaldsskóla (SÍF) ásamt því að læra verkefnastjórnun í HR. Síðan er ég líka aðstoðarkennari í félagslegu sálfræðinni hér í HÍ.

Hvenær laukstu við BS í sálfræði? 

2016

Fórstu í eitthvað frekara nám og þá hvað?

Ég fór í meistaranám í hagnýtri félagssálfræði á sviði samfélags og heilsu í HÍ og er núna að bæta við mig meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) í HR.

Hvað var planið þegar þú hófst sálfræðinámið og afhverju valdirðu það?

Í grunnskóla setti ég mér það lífsmarkmið að ég ætlaði að gera heiminn að betri stað til að lifa á. Eins klisjulega og það hljómar þá hefur það fylgt mér út í gegnum líf mitt og er ég í raun ennþá mjög upptekinn af því. Mér fannst sálfræðin góð leið að því markmiði.

Þó ég vissi lítið sem ekkert um sálfræði þegar ég skráði mig í námið hafði ég bara einhverja góða tilfinningu fyrir faginu. Þetta var svo allt annað en ég hafði búist við, mun meira aðferðafræðilegt og ég kom mér bara inn í það.

Mér fannst allt nokkuð spennandi en var farinn að hafa áhyggjur að ekkert eitt höfðaði meira til mín en annað eftir því sem leið á námið. Það var síðan ekki fyrr en á þriðja árinu mínu þegar ég fór í félagssálfræðina sem ég fann loksins þá átt sem mig langaði að fara í. Þar áttum við að tækla eitthvað samfélagslegt vandamál með tækjum sálfræðinnar og það gjörsamlega náði mér. Það má segja að þetta sé fullkomin ástarsaga því í dag kenni ég þennan hluta kúrsins.

Hvernig áhrif hafði námið á þá leið sem þú fórst út á vinnumarkaðinn?

Sálfræðin hefur hjálpar mér bæði í starfi og utan þess. Sálfræðin hjálpaði mér mikið við gerð Réttinda-Ronju sem er upplýsingavefsíða fyrir nemendur með fatlanir og/eða sértæka námsörðugleika í háskólum landsins. Verkefnið byrjaði þegar ég var í BS náminu í sálfræði og hefur fylgt mér til dagsins í dag og er í raun enn að þróast og stækka.

Hvernig gagnast sálfræðin þér í því sem þú hefur tekið þér fyrir hendur?

Gerð spurnigalista hefur reynst mér mjög verðmætt tól þar sem ég hef búið til og lagt fyrir kannanir í næstum öllum störfum sem ég hef haft síðan ég fór á vinnumarkaðinn.

Samkenndin og skilningurinn á því að fólk er að ganga í gegnum allskonar og hagar sér því allskonar hefur gagnast mér vel í lífinu. Gagnrýna hugsunin er síðan auðvitað eitt það verðmætasta en maður verður hinsvegar automatískt aðeins leiðinlegri í partíum fyrir vikið. 


Við þökkum viðmælendum okkar kærlega fyrir að gefa okkur innsýn í þeirra sögur. Það er ljóst að möguleikarnir eru gífurlega fjölbreyttir eftir grunnnám í sálfræði og við hvetjum þig kæri samnemandi til að leyfa þér að dreyma, halda áfram að víkka sjóndeildarhringinn og nýta þau tækifæri sem námið getur veitt þér. Ef þú ert að gæla við þá hugmynd að hefja nám í sálfræði ættirðu hiklaust að slá til, kynnast hinum ýmsu krókum og kimum fagsins og sjá hvert það leiðir þig í framhaldinu. 

Þessi grein er unnin í tilefni af Atvinnudögum HÍ og Framadögum 2021.  Auk þess vekjum við athygli á Háskóladeginum sem haldinn verður á netinu laugardaginn 27. febrúar.