„Þau vilja ekki hafa okkur hér“ – upplifun erlendra nema við Sálfræðideild HÍ

Heimur minnkandi fer og við erum sífellt tengdari öðrum þjóðum og menningarheimum, sem eru sömuleiðis tengdari Íslandi, ef við setjum Kófið aðeins til hliðar í þessu samhengi þ.e.a.s.. Háskóli Íslands hefur stæðilegt tengslanet við erlenda háskóla og hefur það verið áhersla skólans að verða alþjóðlegri, til að keppa við þessa stóru og komast eins framarlega og auðið er á lista yfir bestu háskóla heims. Háskóli Íslands státar sig gjarnan af þeim alþjóðlegu nemendum sem sækja hingað nám en hver er þeirra staða innan háskólans?

Í tilefni Jafnréttisdaga Háskóla Íslands settum við okkur í samband við nokkra erlenda nemendur sem ýmist stunda eða hafa stundað nám við sálfræðideild Háskóla Íslands til að fá innsýn inn í þeirra reynsluheim. Það sem kom fram vakti okkur til umhugsunar um það umhverfi sem skapast hefur innan sálfræðideildarinnar og hvað sé hægt að gera til að bæta stöðu erlendra nemenda.

Fráhrindandi byrjun

Þeir nemendur sem við ræddum við lýstu því flestir hve mikið þeim hafi brugðið fyrstu önnina. Sumir höfðu áður stundað nám við aðra háskóla og það kom þeim á óvart hve lítill sveigjanleiki væri við Háskóla Íslands. Aðrir höfðu stundað nám innan annarra deilda við HÍ og upplifðu stífara viðmót frá sálfræðideild samanborið við aðrar deildir.

„Það var eins og að hlaupa á vegg“

Haustið 2019 áttu erlendir nemar á fyrsta ári ekki von á góðu. Í kennsluáætlun flestra áfanga þetta haustið stóð að erlendir nemendur ættu rétt á auka tíma og notkun orðabóka í prófi. Í einum áfanga stóð það ekki í kennsluáætlun, en kennari námskeiðsins hafði greint frá að sama fyrirkomulag væri í námskeiðinu,  í fyrsta tímanum. Erlendir nemar gerðu ekki ráð fyrir öðru en að slíkt yrði fyrirkomulagið í prófum. Þegar fyrsta hlutapróf annarinnar gekk í garð, í umræddum áfanga, kom annað í ljós, en þá hafði þessi auka tími verið tekinn af erlendum nemendum án þess að þau væru látin vita fyrirfram. Þá voru nemendur sem upplifðu prófkvíða og hefðu sótt um sérúrræði hjá Náms- og Starfsráðgjöf um auka tíma vegna þessa, en slepptu því vegna þeirrar vissu um að þau fengu þennan tíma, sem erlendir nemar. Raunin varð önnur.

 Þau vilja okkur ekki hérna

Eftir samræður við sálfræðideild, kennara, hagsmunafulltrúa og Stúdentaráð Háskóla Íslands, fór það að lokum þannig að sálfræðideildin leyfði erlendum nemendum einungis að fá auka tíma í þeim áföngum þar sem það stóð í kennsluáætlun. Kennarar umrædds námskeiðs neituðu því að hafa sagt það í fyrsta tíma annarinnar, þó svo að á spjallþræði nemenda voru a.m.k. 40 nemendur sem sögðust hafa heyrt það, höfundur þessarar greinar meðtalinn.

Almennt séð virðast erlendir nemar hafa brennt sig á samskiptum við deildina, burt séð frá því hvort þeir hafi verið við skólann haustið 2019 eða ekki, og hefja þá að forðast slík samskipti. Tilfinningin var sú að sálfræðideildin vildi ekki hafa erlenda nemendur, hefði ekki trú á þeim og væri í raun bara að reyna að fella þau.

„Þú verður ekki hér á næstu önn“

 

„Þú verður bara að skilja að við erum á Íslandi og við tölum íslensku hérna“

 

Þetta er brot af því sem sumir erlendir nemendur fengu að heyra þegar þau leituðu eftir aðstoð hjá deildinni. Margir upplifðu líka að þeim væri ekki tekið alvarlega, eins og gert væri ráð fyrir því að þau myndu ekki geta staðið sig vel í náminu. Þá höfðu nokkrir tekið á það ráð að biðja íslenska samnemendur eða kunningja að eiga í samskiptum við deildina fyrir þeirra hönd og þá komu yfirleitt mun jákvæðari svör en þegar þau reyndu það upp á eigin spýtur.

Völdin liggja hjá Íslendingum

Allt til haustmisseris 2020 áttu erlendir nemendur við sálfræðideild einungis að fá að nota orðabækur í prófum fyrstu önnina. Þegar reynt var að ræða áframhaldandi notkun þeirra hlustaði deildin ekki. Erlendir nemar fengu að heyra að ef þau kæmust ekki áfram án orðabóka gætu þau ekki haldið áfram hvort sem er, eða að deildin vildi ekki gefa erlendum nemendum neitt forskot á íslenska nemendur með notkun orðabóka, eða þá að það væri ekki „fötlun“ að tala ekki íslensku og þ.a.l. ekki réttlætanlegt að veita þeim auka aðstoð. Allar dyr læstar, ekkert hægt að gera.

Þó er það þannig að kennarar hafa seinasta orðið þegar það kemur að því að ákveða hvort nemendur í þeirra áföngum fái að skrifa á ensku, nota orðabækur í prófum o.s.fr.v. Sálfræðideildin lét nemendur ekki vita af þeirri staðreynd, heldur gaf til kynna eins og það væri stranglega bannað að nota orðabækur áfram. Nemendur áttuðu sig á þessu sjálfir þar sem margir voru hættir samskiptum við deildina og ræddu frekar beint við kennara. Þá segjast nemendur upplifa mun jákvæðara, hjálpsamlegra og liðlegra viðmót.

Þrátt fyrir eilítið bætta stöðu nefna margir að byrjun hverrar annar sé mikill kvíðavaldur í þeirra lífi, því það fari allt eftir því hvort kennararnir sem þau eru með þessa önnina séu liðlegir í þeirra garð eða ekki. Á seinustu önn höfðu erlendir nemar samband við einn kennara til að spyrja út í orðabókanotkun í prófum í þeim áfanga sem hann kenndi þá önnina. Þá benti kennarinn þeim á að tala við sálfræðideildina, sem vakti ekki upp mikla spennu hjá nemendum vegna fyrri reynslu. Þá sagðist kennarinn ætla að tala við deildina fyrir þeirra hönd. Þá var allt í einu ekkert mál að koma því í gegn að erlendir nemendur við sálfræðideild sem nota annað tungumál en íslensku fái að nota orðabækur í öllum hluta- og lokaprófum. Sálfræðideildin auglýsti aftur á móti ekki þessar breytingar, heldur féll það í hlut nemenda að láta SHÍ vita, sem auglýstu þetta á sinni Facebook síðu.

Það er merkilegt hvernig barátta erlendra stúdenta um bætta stöðu innan deildarinnar hefur ekkert upp á sig, en þegar kennari leggur til breytinga er allt í einu ekkert mál að hlusta.

Þetta sýnir okkur hvar völdin liggja, innan deildarinnar, innan Háskóla Íslands og á Íslandi. Völdin við háskólann liggja hjá kennurum og fræðasviðum og enn fremur liggja völd á Íslandi hjá þeim sem eru hvítir og tala reiprennandi íslensku.

Staðan seinna meir

Flestir töluðu um að þegar þau ræði við staka kennara taki þeir mjög vel á móti enskumælandi nemendum og leggi sig sumir mikið fram til að koma til móts við þá. Erlendir nemar töluðu alla jafna mjög fallega um sína kennara og voru á marga vegu afar ánægð í sínu námi.

Einnig nefndu þau að samnemendur hafi verið þeim ómetanlegur stuðningur í gegnum námið og hafi virkilega látið þeim líða eins og þau væru velkomin í náminu.

Það var ánægjulegt að heyra að flestum leið mun betur þegar lengra leið á námið. Þau nefndu einnig að ritverið við HÍ hafi verið þeim hjálplegt, ásamt stuðningshópum fyrir erlenda nema sem Alþjóðaskrifstofa heldur utan um. Þau nefna almennt betra viðmót og að staðan sé töluvert betri en hún var en að mikil vinna liggi að baki þeim breytingunum, sem hefur heldur betur tekið á.

 

Hvað nú?

Staðan virðist vera aðeins betri núna en þeir nemendur sem enn stunda nám við HÍ upplifa mikla streitu, þar sem aldrei er að vita hvað tekur við á nýrri önn. Einnig hefur ýmislegt jákvætt gerst í kjölfar COVID í þágu erlendra nema sem gæti verið tekið til baka hvenær sem er. Ekki vildu allir ræða við okkur hjá Sálu um sína upplifun og þau sem við okkur ræddu vildu ekki koma fram undir nafni vegna hræðslu við yfirvöld skólans og þá sérstaklega sálfræðideildina.

Hvað er hægt að gera?

Samskiptavandi sem þessi sprettur ekki upp af ástæðulausu. Sálfræðideild Háskóla Íslands þarf að líta í eigin barm og finna út úr því hvernig megi bæta úr samskiptum við nemendur, sérstaklega gagnvart þeim sem eru af erlendu bergi brotnir. Ef það er einhver deild sem ætti að vera meðvituð um þá staðreynd að öll höfum við fordóma sem við erum ekki meðvituð um, þá væri það okkar deild.

Allir geta verið sammála um það að mikilvægt sé að vernda íslenska tungu, en það gerum við með því að styðja við menningarsköpun á íslensku, talsetja barnaefni, styðja við íslenskunotkun innflytjenda á hvetjandi og jákvæðan hátt. Þessi útilokunarstefna sem gefur fólki þau skilaboð að tali þau ekki fullkomna íslensku eigi þau ekki skilið að taka þátt, er ekki vænleg til árangurs. Þetta fælir fólk frá því að vilja læra íslensku og minnkar sjálfstraust fólks til þess að prófa sig áfram, sem getur haft afar einangrandi áhrif á líf fólks. Vilji fólk skilja þennan reynsluheim nánar mæli ég með þessari grein eftir Johanna Van Schalwyk, þar sem hún lýsir reynslu þeirra sem tala ekki fullkomna íslensku (hvað sem það nú er) og hvernig Íslendingar geta ýtt undir jákvæðara umhverfi fyrir þá sem eru að læra íslensku.
Vandamálið við að vernda íslenska tungu kemur ekki vegna útlendinga sem eru ekki nógu fljótir að læra tungumálið okkar, eitthvað sem íslenskufasismi bætir ekki úr nota bene, heldur fremur sú staðreynd að unga kynslóðin er að missa tengslin við sitt móðurmál.

Ég verð einnig að mæla með grein eftir Lenyu Rún Anwar Faraj, nemanda við HÍ um sína reynslu sem íslendingur með erlendan uppruna og þessari grein eftir Ármann Garðar Teitsson, Derek T. Allen og Jonathan Wood um reynsluheim erlendra nema við HÍ og þá viðkvæmu stöðu sem þeir eru í.

Það er ekki alltaf auðvelt eða gaman að tala um jafnrétti, en það er nauðsynlegt. Það er mikilvægt að við séum öll vakandi og styðjum við bakið á okkar samnemendum, sérstaklega erlendum samnemendum. Nýtum okkur þau forréttindi sem við höfum sem íslenskir nemendur og töku upp hanskann fyrir þá sem gjarnan er ekki hlustað á. Einnig er mikilvægt að kennarar taki upp hanskann fyrir nemendur sína, það skiptir máli og hefur áhrif, eins og við sáum með árangurinn með orðabókanotkun.

Öll viljum við stuðla að fjölbreyttu og opnu háskólasamfélagi, en það er mikilvægt að það sé ekki gert í nafni tókenisma. Við eigum að taka nemendum frá öðrum menningarheimum fagnandi og koma til móts við þá. Eins og Ármann, Derek og Jonathan segja í sinni grein: ,,[…]Skortur á breytingum mun hugsanlega verða til þess að nemendur og verðandi meðlimir samfélagsins leita annað en í háskóla á Íslandi, á stöðum þar sem þeim finnst þeir velkomnir og borin er fyrir þeim virðing.

Hefur þú reynslu sem þú vilt deila eða vilt þú benda á eitthvað sem mætti betur fara? Láttu heyra í þér á Instagram eða Facebook.

Þessi grein er hluti af Jafnréttisdögum Sálu, tímarits Sálfræðinema. Jafnréttisdagar Háskóla Íslands hafa verið haldnir árlega síðan 2009. Hugmyndin með Jafnréttisdögum er að þeir hjálpi til við að skapa umræðu um jafnréttismál og að gera þau sýnileg innan skólans sem utan.