Vilt þú leggja land undir fót? Það sem þú þarft að vita um framhaldsnám erlendis!

Alþjóðadagar Háskóla Íslands eru nú á netinu dagana 4.-6. nóvember. Þó mesta ferðalagið sem maður leggur í þessa dagana sé bara út í Bónus, þá mun þetta ástand ekki vara að eilífu. Það gæti jafnvel satt mestu ævintýraþrána að velta fyrir sér námi erlendis og því stóra ferðalagi sem það er. Þess vegna tókum við hjá Sálu viðtal við Jónínu Ólafsdóttur Kárdal, náms- og starfsráðgjafa hjá Náms- og starfsráðgjöf HÍ þess efnis. Í þessari grein munum við fara yfir þá ákvörðun að hefja framhaldsnám, hvernig skal ákveða hvað skal læra og að lokum hvert maður vill fara!

Þegar maður byrjar í háskólanámi opnast hafsjór (eða ormagryfja) af endalausum möguleikum. Fræðigreinin er mun fjölbreyttari og stærri en þig hefði getað grunað í menntaskóla. Í grunnámi tileinkar maður sér fyrirliggjandi þekkingu á fræðasviðinu og færni í rannsóknaraðferðum. Fyrir marga nægir þetta til að svala lærdómsþörfinni en fyrir aðra er sterk þörf að tileinka sér meiri þekkingu og jafnvel skapa nýja þekkingu. Ef það á við um þig, þá gæti verið gott að byrja að pæla í framhaldsnámi.

Þegar það kemur að sálfræðinni eru að minnsta kosti tvær leiðir í boði þegar kemur að framhaldsnámi. Ef sóst er eftir starfsréttindum þarf að halda áfram námi á meistarastigi þar lærir maður að tileinka sér viðeigandi þekkingu fyrir störf sem klínískur sálfræðingur. Á hinn bóginn er hægt að fara í rannsóknartengt framhaldsnám. Þar er hægt að vinna við fyrirliggjandi rannsóknir og bætt við þær eða unnið undir handleiðslu prófessora við þeirra rannsóknir. Síðan er það í doktorsnámi þegar fókusinn fer algjörlega á það að skapa nýja þekkingu.

Sú ákvörðun að hefja framhaldsnám er alveg jafn stór og sú ákvörðun að hefja háskólanám. Í fyrsta lagi hafa ekki allir áhuga á rannsóknarþætti akademísks framhaldsnáms og í öðru lagi eru margir þættir sem þarf að huga að í slíkri ákvörðun.

„Það sem liggur til grundvallar þeirri ákvörðun að hefja framhaldsnám er þörfin til að tileinka sér nýja þekkingu en áskorunin felst svo í því að hagnýta þessa þekkingu.“


Þegar þú ert með forsendurnar þínar á hreinu, þá getur þú hafið leitina af rétta náminu. Þegar það kemur að umsóknarferlinu og að velja skóla, þá skiptir máli að vera upplýsingalæs. Það getur reynst flókið að byrja á þessu ferli og að finna réttar upplýsingar, þannig að hér koma nokkur góð ráð og úrræði sem Jónína benti okkur á, sem getur hjálpað til með að hefja ferlið!

1. Talaðu við fólk og pældu í samfélaginu. 

Það getur hjálpað manni í ferlinu að tala við fólk sem maður þekkir sem hefur sjálft gengið í gegnum ferlið að sækja nám erlendis. Það getur verið að þú þekkir einhvern nú þegar, ef ekki getur þú getur spurst um og jafnvel talað við kennarana þína sem hafa margir hverjir stundað nám erlendis. Þegar það kemur að því að velja sérstöðu í framhaldsnámi getur verið gott að „lesa markaðinn“ til að sjá hvaða undirgreinar fræðisviðsins eru í miklum vexti núna eða hvernig hægt er að skapa tækifæri fyrir hagnýtingu þekkingarinnar í samfélaginu.

2. Á ég að fara bara?

Undirbúningur fyrir framhaldsnám skiptir miklu máli og Farabara.is er yfirgripsmikil upplýsingasíða um nám erlendis, sem leiðir þig í gegnum allt ferlið frá a til ö. Á heimasíðunni er meðal annars heimskort þar sem þú getur ýtt á land sem þú hefur áhuga á að fara til og síðan veitir þér margvíslegar gagnlegar og nauðsynlegar upplýsingar um hverju þarf að huga að áður en farið er í nám í þessu landi. Einnig eru upplýsingar þar um styrki sem þú getur sótt um, þar sem fjármögnun framhaldsnám er stór þáttur í ákvörðuninni. Hafðu einnig í huga að margir skólar eru sjálfir með styrki sem er gott að skoða.

3. Kynntu þér rannsakendur.

Það eru alltaf ákveðnir háskólar sem eru SkólarnirTM  sama í hvaða fræðigrein maður er. Ef þú ert eins og ég þá dettur þér í hug Harvard, Yale, Oxford, Princeton o.sfrv… sem sagt þeir skólar sem aðalpersónur Hollywood bíómynda sækja. Þeir skólar búa við þann lúxus að geta valið og hafnað nemendum, vegna mikillar aðsóknar. Þessi tilhugsun getur dregið úr manni dampinn. En til að víkka bæði sjóndeildarhringinn og finna fleiri valkosti þá er hægt að fylgjast með rannsakendum sem eru að skrifa um þitt áhugasvið og finna við hvaða háskóla þeir starfa. Sá háskóli gæti hentað þér og tilvalið að  skoða hann sem valkost! Það er nefnilega þannig að góðir akademískir kennarar eru út um allt.

4. Menntasjóður.

Á vefsíðu menntasjóðs námsmanna er hlekkur þar sem hægt er að komast að því hvaða skólar (og hvaða námsleiðir innan viðkomandi skóla) eru viðurkenndir fyrir veitingu námslána frá menntasjóði. Gott er að kíkja á síðuna til að skoða í hvaða löndum þessar námsleiðir eru og fjölbreytni þeirra.  Með þessu ertu að komast að nýjum upplýsingum sem gæti hjálpað þér við ákvörðunartöku um framhaldsnám.  

5. Alþjóðasamstarf í gegnum Háskóla Íslands.

Hægt er að fara í framhaldsnám á eigin vegum, en það gæti einnig verið þess virði að skoða það stóra alþjóðlega tengslanet sem Háskóli Íslands hefur upp á að bjóða. Jónína nefnir að hægt er að leita til Skrifstofu alþjóðasamskipta til að fá nánari upplýsingar um fyrirliggjandi samstarfsnet og hvaða möguleikar eru fyrir hendi að stofna til nýs samstarfs við erlendan háskóla.  

Margt fleira mætti nefna á þessum lista, því þetta er stórt og mikið ferli og ótal þættir sem hafa þarf í huga. Yfirleitt er talað um að það sé um það bil ársferli að sækja um meistaranám erlendis. Hjá sumum skólum er þetta allt að árs ferli, aðrir gera e.t.v  kröfu um stöðupróf tungumála eða bara langt og ítarlegt umsóknarferli, þannig gefið ykkur nægan tíma í þetta. Þessi grein hefur þó aðallega þann tilgang að gefa ykkur innsýn í ferlið og benda ykkur á þau úrræði sem standa ykkur til boða. Þó mælum við með að heyra í Skrifstofu alþjóðasamskipta eða Náms- og starfsráðgjöf HÍ hafið þið frekari spurningar.

Að lokum kom Jónína inn á að hægt er að læra af reynslu og sögum annarra en fyrst og fremst verður maður að  að búa til sína eigin sögu og hefja ferðalagið á eigin forsendum.

Talandi um reynslu kennara hafði Sála samband við nokkra kennara sem starfa hjá sálfræðideild og hafa sjálfir farið erlendis í nám. Ein af okkar allra bestu, Heiða María Sigurðardóttir hafði þessi ráð að gefa nemendum sem eru að íhuga framhaldsnám erlendis:

Vísindavefurinn: Hvað hefur vísindamaðurinn Heiða María Sigurðardóttir  rannsakað?

,,Ráðið mitt er: Ekki fara í framhaldsnám. Djók.

Ekki fara í framhaldsnám (hér er átt við Ph.D.) nema þið hafið brennandi áhuga á rannsóknum og að þið skiljið að það er erfitt að fá vinnu við nákvæmlega það sem þið sérhæfið ykkur í. Einnig: Ekki velja skóla, veljið leiðbeinanda. Þið vinnið náið með þessari manneskju svo árum skiptir og þá er eins gott að hún sé ekki hálfviti/egóisti/pati. Lesið greinar eftir tilvonandi leiðbeinanda og hafið samband við hann fyrirfram áður en þið svo mikið sem sækið um og látið hann vita að a) þið hafið sérstakan áhuga á að vinna með viðkomandi og að b) þið séuð inni í rannsóknum viðkomandi og finnist þær sérlega merkilegar.

P.S. Svo er ráð að lesa allt Ph.D. Comics.

Andri Steinþór Björnsson, þekktur og dáður úr námskeiðinu Skýringar á Hegðun, hafði þetta að segja:

Vísindavefurinn: Hvað hefur vísindamaðurinn Andri Steinþór Björnsson  rannsakað?

,,Ef ég myndi vilja gefa sjálfum mér ráð þegar ég var í BS náminu, þá væri það að hugsa fyrst um það hvernig lífi ég vilji lifa, og hvernig námið geti stuðlað að því. Að hugsa ekki bara um góða skóla, heldur hvar ég vilji búa, og hvernig það muni auðga líf mitt og fjölskyldu minnar, með öðrum orðum að hugsa líka um lífsgæði meðan á náminu stendur. Og svo að finna alla sem hafa stundað nám í þeim löndum og í þeim greinum sem ég hefði áhuga á, og læra af þeirra reynslu..”


Það er að sjálfsögðu mikilvægt að týna sér ekki í smáatriðum varðandi það að finna bara besta skólann og besta prógrammið, stígum líka til baka og horfum á stóru myndina, munum til hvers við erum að þessu yfir höfuð. Lífið gerist líka á meðan við erum í námi, þó það gleymist stundum.

 

Gleðilega alþjóðadaga kæru samnemendur, hugsum til bjartari tíma!