Handanheimar: Hrekkjavaka og andatrú

Hrekkjavakan hefur ekki alltaf verið sú klisjukennda barnahátíð sem við þekkjum í dag. Í raun á hún sér mun áhugaverðri sögu en flestir gera ráð fyrir og ef til vill lifir þessi saga enn í dag, þó ekki meðal trylltra búningakaupa og graskersskreytinga…

 

Saga Hrekkjavökunnar byrjar með Keltum, en þeir héldu upp á nýtt ár 1. Nóvember þegar vetur tekur við af sumrinu, eins og Íslendingar sem héldu hátíðina veturnætur á sama tíma til að hefja nýja árið. Bæði keltar og Íslendingar trúðu því að kvöldið fyrir nýtt ár væru skilin milli heima hinna lifandi og dauðu óskýrari en venjulega. Þá kæmu andar hinna látnu aftur til jarðarinnar. Úr varð hátíð sem keltar kölluðu Samhain. Fólk fórnaði mat og dýrum til að geðjast öndunum, lagði aukalega á borð fyrir þá, setti upp grímur svo andarnir myndu ekki þekkja það á leið sinni um bæinn og kveiktu á kertum svo þeir myndu rata aftur í heim hinna liðnu. Árið 43 tók Rómaveldi yfir þann hluta Bretlandseyja sem kallaður var Brittanía, þá sameinaðist Samhain tveimur hátíðum Rómverja, Feralia sem var hátíð til að minnast hinna látnu, og svo heiðurshátíð tileinkaðri rómversku ávaxta- og trjágyðjunni Pomonu. Um árið 1000 gerði kirkjan í Brittaníu 2. nóvember að All Souls’ Day og 1. nóvember að All Saints’ Day eða Allraheilagramessu til að heiðra hina látnu, en líklega í þeim tilgangi að skipta hátíð kelta út fyrir aðra kristna hátíð. Hátíðin var algjör eftirlíking hinnar keltnesku hátíðar Samhain, með varðeldum, búningum og öllu tilheyrandi. Þá gengu fátækir borgarar einnig milli húsa og báðu um “soul cakes” í skiptum fyrir að biðja fyrir látnum fjölskyldumeðlimum viðkomandi, þetta var bakkelsi sem kirkjan hvatti fólk til að gefa fátækum í sama tilgangi og að fórna mat fyrir anda hinna látnu. Börn tóku síðar upp siðinn og gengu á milli til að fá öl, mat eða pening. All Saints’ Day var líka kallaður All-hallows en kvöldið áður kallað All-hallows Eve, og loks varð það að Halloween.

Ameríska hrekkjavakan sem við þekkjum varð í raun ekki til fyrr en á seinni hluta 19. aldar þegar Írar flúðu undan kartöflukreppunni til Ameríku. Fólk fór að ganga hús úr húsi í búningum og biðja um mat eða pening. Seint á 19. öld varð svo átak sem snéri að því að gera hrekkjavökuna að meiri nágrannahátíð og samkomu frekar en hátíð tileinkaðri draugum, göldrum og nornum. Foreldrar áttu að fjarlægja allt sem þótti of hræðilegt og þar með missti hrekkjavakan allt trúarlegt og hjátrúarfullt yfirbragð í byrjun 20. aldar. Með fjölgun barna á miðri 20. öld færðist hátíðin úr bæjarkjörnum yfir á heimili og skólastofur, en þá hafði fólk tekið aftur upp þá hefð að labba á milli húsa og biðja um nammi, sem gerði hátíðina ódýrari fyrir samfélagið. Þá áttu fjölskyldur að geta komið i veg fyrir að sér væri gerður grikkur ef þær gáfu nágrannabörnunum eitthvað gott. Hefðin óx gríðarlega og er í dag önnur dýrasta hátíð sem haldin er í Ameríku á eftir jólunum.

Nú kvikna vangaveltur… Var samband fólks við anda hinna látnu bara ímyndun eftir allt saman? Bara hjátrú sem smátt og smátt breyttist í búningahátíð? Eða var þetta samband eitthvað raunverulegt sem rofnaði í sundur með tímanum? Höfum við lokað endanlega á anda okkar látnu ættingja eða leynast ennþá einstaka þræðir milli heimanna beggja (ef þeir voru þá einhvern tímann til staðar)?


Það voru ekki bara keltar eða Rómverjar sem trúðu á einhvers konar samband milli heims þeirra lifandi og heims hinna liðnu. Þessi tilhneiging mannsins hefur sést í ýmsu formi í gegnum tíðina. Þá eru trúarbrögð augljósasta dæmið, svo má nefna andakukl (e. sorcery), andasæringar (e. exorcism) og loks andatrú (e. spiritualism). Þar sem flestir hafa nú snúið baki við hvers kyns andakukli eða særingum er kannski óþarfi að fara dýpra í þá sálma, auk þess er fólk almennt nokkuð vel að sér um hin ýmsu trúarbrögð sem enn eru iðkuð í dag svo það er eflaust lítill tilgangur í því að rekja þá sögu. Hins vegar eru fæstir vel að sér í andatrú, en hún er jú enn til staðar í hinu rökhugsandi samfélagi, og hefur jafnvel vaxið enn frekar með auknum áhuga á fornar og heildrænar lækningar. Allir sem hafa tekið áfangann Skýringar á hegðun fá eflaust gall upp í kok við það eitt að lesa orðið “heildrænar”… Afsakið það. En þar sem það er nú einu sinni Hrekkjavaka verður hér brugðið út af vananum og fjallað um fræði sem gefa vísindaheiminum almennt kröftugan hroll.

Andatrú felst í hugmyndinni um framhaldslíf manna og að framliðnir geti birst þeim sem enn lifa í formi anda eða sálar. Þetta er ekki hin eiginlega tvíhyggja um aðskilnað líkama og sálar heldur er sálin álitin eins konar framlenging á líkama okkar. Rannsóknir nefnast því “sálarrannsóknir” (e. Psychical research) en þær hafa verið framkvæmdar allavega frá miðri 19. öld. Þó voru hugmyndir sem þessar byrjaðar að þróast um miðja 18. öld. Austurríski læknirinn Franz Anton Mesmer sem flestir tengja kannski við upphaf sálgreiningar og dáleiðslu átti stóran þátt í þróun andatrúar en dáleiðslutækni hans gerði fólki kleift að komast í transástand og eiga samskipti við hið yfirnáttúrulega. Mesmerismi spratt út og var dáleiðslan ekki bara reynsla fyrir þá sem gengust undir hana heldur einnig orðin vinsæl skemmtun fyrir áhorfendur. Yfirleitt er þó talað um 31. mars 1848 sem upphaf andatrúarinnar þó hvers kyns andatrú hafi líklega verið iðkuð undir öðrum nöfnum fyrr á tímum. Þann dag hafði víst birst vera eða framliðinn einstaklingur á heimili Fox fjölskyldunnar í Hydesville í Bandaríkjunum sem svo önnur tveggja systra gat átt í samskiptum við með smellum. Andinn greindi nákvæmlega frá sögu sinni, þar sem hann átti þá að hafa verið myrtur af fyrrum íbúa hússins og grafinn þar í kjallaranum. Þetta vakti svo mikla aðdáun að út sprakk bylting andatrúar.

En hvað með Ísland? Höfum við bara tekið upp Hrekkjavöku eða eigum við sögu andatrúar hér líka? Jú, svo er víst, það sem gerist í Bandaríkjunum,  gerist yfirleitt á Íslandi líka.

Tveir af upphafsmönnum andatrúar á hér á landi voru séra Haraldur Níelsson prófessor og guðfræðingur og Einar Kvaran rithöfundur. Þeir stofnuðu Sálarrannsóknarfélag Íslands árið 1918 sem er enn starfandi og rekur ýmsa þjónustu er tengist andatrú. Upphaf félagsins má rekja til þess að Einar og Haraldur kynntust manni að nafni Indriði Indriðason sem átti að búa yfir skyggnigáfu. Þegar hann var viðstaddur hristust húsgögn og hann sjálfur um leið auk þess sem hann fór í svokallað trans en það er þegar fólk missir eiginlega meðvitund og andar hinna liðnu tala eða skrifa í gegnum það. Félagarnir reistu þá hús undir nýtt félag sem þeir kölluðu Tilraunafélagið í fyrstu, þar framkvæmdu þeir tilraunir í myrkri með Indriða bundinn niður og reyndu að ná sambandi við einstaklinga að handan sem tjáðu sig í gegnum Indriða.

Síðan þá hafa sprottið upp ótal þjónustur og eiga flest landshorn sitt sálarrannsóknarfélag. Meðal þess sem Sálarrannsóknarfélag Íslands býður upp á í dag er miðlun en það á við um heilun, skyggnilýsingar, miðlun skilaboða að handan, spádóma og spilaspár. Mörgum þykir eflaust hlægilegt að framboð slíkrar þjónustu sé svo mikið á litlu landi sem þessu en kannski erum við í raun opnari fyrir þessum hugmyndum en við gerum okkur grein fyrir. 

Einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar á hugmyndum Íslendinga um berdreymni, framhaldslíf og tengd fyrirbæri, en niðurstöður úr rannsóknum Erlends Haraldssonar dulsálfræðings og Terry Gunnell þjóðfræðings sem gerðar voru 1974, 2006 og 2007 létu í ljós að  91% þjóðarinnar teldi forspárgáfu og berdreymi vera möguleg, líkleg eða viss fyrirbæri, 88% þjóðarinnar teldi framhaldslíf mögulegt eða visst, 80% trúðu á möguleika þess að geta séð eða átt samskipti við látna einstaklinga. Það sem meira er, um þriðjungur svarenda gáfu í skyn eigin upplifun á viðveru framliðinna, flestir með sýn en aðrir heyrn eða annarri skynjun, en þar af höfðu fáir tjáð sig um reynsluna við annað fólk. Þetta bendir til þess að nokkuð stór hluti þjóðarinnar upplifi hluti sem hinn rökræni nútímamaður telur yfirleitt fjarlægt raunverulegum heimi. 

Það er því ekki skrítið að einhverjir séu forvitnir eða áhugasamir um þessa reynslu, en til er grein sem vísindaheimurinn stimplar gjarnan sem gervi-vísindi, það er dulsálfræði. Hún er enn stunduð af krafti, nýtir vísindalegar aðferðir eftir bestu getu og telur sig fullgildan meðlim vísindanna. Þessi grein hefur það að markmiði að rannsaka dulskynjun (e. Extrasensory perception (ESP)), en þar má nefna fyrirbæri eins og fjarvísi (e. telepathy), eða hugsanaflutningur milli einstaklinga, forvisku (e. precognition), eða að sjá fyrir atburði, auk fjarskynjunar, fortíðarskyggni og hlutskyggni sem felst í því að geta séð atburði sem eiga sér stað langt í burtu, sem gerðust fyrir löngu og að vita hluti um fólk með því einu að handleika eitthvað sem þeir eiga. Nátengd fyrirbæri sem þó ekki flokkast beint undir dulskynjun eru svo fjarhrif (e. psychokinesis) eða það að geta hreyft hluti með hugrænum krafti, og skyggni (e. clairvoyance) sem felst einmitt í því að geta átt samskipti við anda látinna. 

Miðlar telja sig yfirleitt búa yfir þessari skyggnigáfu, en þeir nota oft kerti og alls kyns skraut, ákveðna lýsingu og hegðun til að skapa jaðarástand (e. liminality) í því herbergi sem þeir nota við starfsemi sína. Þetta jaðarástand er þá á milli þess að vera hinn raunverulegi heimur og heimur hinna framliðnu. Það er auðvelt að ímynda sér að þetta skapaða andrúmsloft miðlunarherbergis séu kjöraðstæður fyrir skynvillur sem vísindin hafa oft talið liggja að baki dulskynjun, en flestir kannast einmitt við það að sjá frekar óraunverulega hluti undir ákveðnum kringumstæðum, líkt og seint um kvöld, í kirkjugarði eða einir heima. Samhain, hátíð keltanna, var einmitt um þetta jaðarástand sem miðlar leitast eftir að skapa. Það má því segja að uppruni Hrekkjavökunnar sé ekki grafinn í gleymskunnar dá heldur hafi hann lifað bakvið tjöldin í fræðum dulsálfræði og boðskapi andatrúar. 

Þó Hrekkjavökuhátíðin sjálf sé orðin að barnahátíð sem snýst að mestu um skemmtun, búningakeppnir, nammiát og að gera eitthvað spooky heldur en að tengjast forfeðrum okkar, þá er ljóst að enn í dag lifir einhvers konar samband milli hinna lifandi og hinna látnu, hvers eðlis sem það er í raun.