Skiptinám í skugga heimsfaraldurs

Ég hafði alltaf ætlað mér að fara í skiptinám, fyrr eða síðar. Ég var ekki búin að hugsa neitt sérstaklega út í það samt hvert ég vildi fara en var staðráðin í að búa einhvern tímann í Amsterdam eftir að ég fór þangað með fjölskyldunni um 12 ára aldur og féll gjörsamlega fyrir þessari rómantísku og sjarmerandi borg. Amsterdam var þannig alltaf bakvið eyrað. Við Arnar kærastinn minn tókum þá ákvörðun að láta verða að skiptinámsdraumnum á öðru árinu okkar í grunnnáminu. Við skoðuðum ógrynni af skólum en lentum einhvern veginn á Amsterdam þar sem það virtist eini möguleikinn fyrir okkur til að vera saman í skiptináminu, en málið var að Arnar er í Listaháskóla Íslands og ég í Háskóla Íslands og þess vegna erfitt að finna skóla fyrir okkur bæði sem voru ekki sjúklega langt frá hvor öðrum. Allt fór eins og í sögu, við fengum þessa fínu stúdentaíbúð á Campus Uilenstede sem var 5 mínútum frá skólum okkar beggja. Ég fór í Vrije Universiteit Amsterdam og Arnar í Gerrit Rietveld Academie. Önnin þarna úti byrjar þó ekki fyrr en í febrúar (og er fram í lok júní), þannig við fengum íbúðina ekki fyrr en þá. En í staðinn fyrir að sitja heima ákváðum við að eyða janúar í Hollandi, og vegna þess hvað gisting þar er hræðilega dýr enduðum við á að gista í litlum kofa undir lestarteinum í bænum Haarlem, um 20 mínútum frá Amsterdam. Haarlem er eins og mini útgáfa af Amsterdam, sem var í raun bara kjörið þar sem við vorum ekki komin með hjól ennþá og gátum komið okkur hægt og rólega inn í Hollensku menninguna án þess að vera keyrð niður á núll einni. Kofinn var alveg dásamlegur og við nutum þess í botn að gista þar. Arnar byrjaði aðeins fyrr í skólanum en á meðan var ég bara að njóta, mæta á æfingar hjá Crazy Monkey Movement, taka námskeið í Lindyhopp, skreppa í danstíma hjá Chassé Dance Studios, lesa, hlusta á hljóðbækur og horfa á Call My Agent þættina á Netflix. Bara þvílíkt dekur.

 

 

Eftir þennan mánuð tók við flutningur yfir á háskólasvæðið. Við vorum búin að skreppa aðeins og kíkja þangað áður, skoða okkur um og magna spenninginn. Þarna í kring var fullt af háhýsum, algjört viðskiptahverfi. En svo rétt fyrir utan þann kjarna voru yndislegir almenningsgarðar þar sem fólk safnaðist saman með hundana sína og börn. Það þurfti ekki að fara langt og þá gat maður rekist á hesta, bóndabýli og villur. Já okkur fannst svolítið gaman að hjóla um og kíkja á hollensku elítuna með sína fínu garða, báta og einkalíkamsræktir. 

Það var brjálað félagslíf þegar skólinn byrjaði, endalaust af viðburðum fyrir skiptinema sem ég hafði varla í við að mæta á. Það var gaman að finna hve vel skólinn vildi styðja við skiptinemana sína og gera vel við þá, það skiptir miklu máli. Hollenskir stúdentar djamma sko ekki bara um helgar, það voru þvílíku partíin í miðri viku, viku eftir viku. Það leið ekki á löngu þar til ég hleypti mínu innra eðli út og valdi frekar að sitja heima og horfa á Vikuna eða eitthvað álíka miðaldra. Hópeflið varð samt til þess að meira að segja ég kynntist nokkrum krökkum, jafnvel einhverjum sem bjuggu í sama húsi og ég. Háskólasvæðið er mjög stórt en þar búa um 3.400 manns, þannig það er engin furða að við höfum svolítið týnst í þvögunni og ekki náð að kynnast mörgum. Sérstaklega þar sem við Arnar bjuggum í sér paraíbúð og deildum ekki eldhúsi með öðrum, guði sé lof fyrir það samt. Ég var annars svo heppin að hafa Hjördísi, íslenska bekkjarsystur mína á kantinum hafði líka farið út í sama skóla. Við gátum því stólað á hvora aðra í hinum ýmsu málum, sem var mjög þægilegt. Námið var ekki síður skemmtilegt en ég gat tekið áfanga eins og Stress & Health, Cognition & Emotion, Broader Mind, og Behaviour and the Brain (part 1: addiction og part 2: attention).

Á háskólasvæðinu var allt til alls, leikhús, með bíósal og alls kyns tónlistar- og dansnámskeiðum, líkamsrækt, kaffihús og veitingastaðir, hjólaverkstæði (auðvitað), lítil og rándýr matvörubúð, og toppurinn á öllu… Falafel vagn sem var sjoppa í leiðinni með u.þ.b. 100 rétti á matseðlinum. Við hliðina á húsinu okkar var hænsnagarður, með nokkrum hönum, því allt má í Amsterdam. Við vöndumst því fljótt að heyra þá gala um miðja nótt, enda voru eyrnatappar algjör staðalbúnaður því það voru auðvitað partí langflest kvöld einhversstaðar í nágrenninu. Það fór mjög vel um okkur þarna, þó píparinn hafi þurft að koma ansi oft í heimsókn, en hann var bara orðinn góður kunningi minn. 

 

(Þessi neðsta er mjög lýsandi mynd fyrir ástandið á svæðinu, var minnir mig tekin um morgunn á virkum degi.)

 

Við vorum dugleg að fara á alls konar sýningar og viðburði sem eru í miklu framboði þarna úti. Ég áttaði mig á því að það er aldeilis hægt að fylla dagatalið með því einu að melda sig á einhverja viðburði sem eru í boði á Facebook. Ég ákvað að vera miklu duglegri að fylgjast með því sem er í gangi dagsdaglega á Íslandi þegar ég kæmi heim aftur. Lærðum smátt og smátt að rata um á hjólinu, svona nokkurn veginn, en fórum líka stundum í hjólatúra einhvert út í buska. Við vöndumst umferðinni, allir á hjóli og nánast enginn á bíl. Það ver ábyggilega það sem var mest sjokkerandi þegar ég kom heim aftur, öll umferðin. Ég var heldur treg að byrja að hjóla án hjálms en fólk setti bara upp furðusvip og spurði hvort ég væri atvinnuhjólari þegar ég óskaði eftir hjálmi. Þarna var hjálmur ekki normið, enda hjólaumferðin í raun miklu öruggari en hér heima þar sem ekki er gert ráð fyrir eða tekið tillit til fólks á hjóli. Þetta gekk þó eins og í sögu, og ekkert alvarlegra gerðist en það að strætó bíbbaði á mig einu sinni þegar ég beið á hringtorgi en átti réttinn.

 

 

Það sem okkur þótti skemmtilegast var að fara á alls kyns markaði, úti eða inni, með fjölbreyttu úrvali af alls konar nytjavörum eða mjög tilgangslausum vörum.

 

 

Við náðum að kíkja einu sinni til Rotterdam og Den Haag en ætluðum að bíða til sumars með fleiri ferðir því það var yfirleitt rigning og rok. Það varð þó ekki mikið úr því…

Engan grunaði að blessaða veiran skyldi ná að dreifa sér svo hratt um heiminn. Ég man að við stóðum í eldhúsinu eitt skipti og áttum samtal um að hún kæmi nú alveg pottþétt ekki til Hollands, hvað þá Íslands. Ekki leið á löngu þar til smit höfðu greinst í suður Hollandi, en það var akkúrat í kringum Carnival hátíðina í lok febrúar sem er aðallega haldin hátíðleg þar. Erasmus skipulagði ferð til Maastricht sem er alveg syðst í Hollandi og margir skemmtu sér vel, eflaust var það síðasta stóra skemmtunin sem skiptinemum bauðst. Mér fannst hins vegar meira spennandi að mæta í alla danstímana sem voru í boði í Amsterdam þannig ég ákvað að vera bara eftir þar. 

Svo fóru að berast fréttir um einstaka smit í Amsterdam, fáir tóku því þó mjög alvarlega og enn var allt í fullum gangi. Ég og vinur minn, River, nýttum tækifærið og prufuðum Hip Hop tíma, ég prufaði líka Capoeira tíma og fór á International Student Night í annað skiptið síðan ég kom, en það var haldið á hverjum miðvikudegi. Loks kom að því, einn kennaranna í VU var smitaður. Skólanum var lokað 14. Mars, en þá grunaði engann að námið myndi alfarið færast yfir á netið og nemar stigju liggur við ekki fæti inn í skólastofu meir þar til hver veit hvenær. Það skemmtilega er þó að mér tókst einhvern veginn að næla mér í veiruna á þessum tíma, en ég var komin með særindi í hálsi strax helgina eftir. Það var sjálfskipuð sóttkví á mína, ekki með nógu háan hita til að fara í skimun. Á meðan ég lá lasin fóru skiptinemar og aðrir erlendir nemar að týnast af háskólasvæðinu, farnir aftur til síns heima. Marga náði ég ekki að kveðja almennilega, sumir kvöddu mig í gegnum dyragættina og létu mig hafa afgangs mat, hluti eða plöntur til að sjá um. Það var algengt að fólk skildi eftir hluti á stigagöngunum og léti vita á Whatsapp að það væri að fara, ef einhver skyldi vilja dótið þeirra. Þetta var mikið örvæntingarástand fyrir marga, sérstaklega þá sem komu frá Bandaríkjunum, Ítalíu, Frakklandi eða öðrum löndum sem stóðu hvað verst í faraldrinum á þeim tíma. Það var farið að loka búðum og takmarka fjölda út um allt, eing og við þekkjum nú vel hérna heima í dag. Fólk gerðist mjög grimmt í innkaupunum, tæmdi allt úr hillunum, en sem betur fer var búinn til sérstakur opnunartími fyrir aldrað fólk snemma um morguninn svo það gæti allavega sinnt sínum innkaupum áhyggjulaust. Fyndnast var að sjá raðirnar fyrir utan Coffee shop búðirnar, fólk ætlaði nú ekki að láta grasið vanta ef algjört útgöngubann skylli á.

 

 

Við Arnar höfðum ekki miklar áhyggjur, gátum ekki ímyndað okkur að fara strax heim og ákváðum að bíða bara og sjá, njóta þess frekar að vera þarna úti þar sem veðrið var að hlýna og notalegt að rölta um þó allt væri lokað. Þeir River smituðust líka þannig við álitum sem svo að það væri öruggt fyrir okkur að eyða tíma saman, þó við höfum ekki vitað með vissu að þetta væri Covid-19 eftir allt saman. Ég vissi það ekki fyrr en ég fór í mótefnapróf hérna heima í júní.

Ég tók að mér að pakka niður fyrir stelpu sem bjó fyrir ofan okkur en hún hafði ákveðið að fara heim til Istanbul og ætlaði sér að koma aftur þegar ástandinu linnti, sem það gerði auðvitað ekki. Við kynntumst þannig í gegnum þessa krísu, ég tróð dótinu hennar niður í ferðatösku sem við geymdum þangað til við fórum sjálf heim. Margir neyddust til að borga leiguna áfram út af dótinu sem þeir höfðu skilið eftir eða borga háa sekt og láta henda því fyrir sig þegar leigusamningurinn rann út.

Ég átti svo von á heimsókn frá Maríu vinkonu minni í lok mars og mömmu í maí, var búin að redda uppblásinni dýnu fyrir þær að gista á og hlakka mikið til að sýna þeim staðinn. Planið var líka að láta mömmu taka úlpurnar okkar og ljós sem við höfðum keypt á einum markaðnum með heim svo við hefðum pláss fyrir allt dótið okkar í töskunum fyrir heimferðina. Ekki varð úr heimsóknunum, bara fleiri Zoom hittingum og auka ferðatösku á okkur.

 

(Arnar með fína ljósið sem við drösluðumst með heim og hangir nú fyrir ofan eldhúsborðið okkar.)

 

Það var allt lokað og samkomur takmarkaðar við 3 manneskjur eftir miðjan mars, að sambýlisfólki undanskildu. Þá voru einnig verðir í öllum almenningsgörðum sem pössuðu upp á fólksfjölda. Við vorum að mestu heima að læra en skelltum okkur í göngu-, hlaupa- eða hjólatúr daglega. Lögreglan var farin að vakta háskólasvæðið sérstaklega þar sem mikið hafði verið um brot á sóttvarnarreglum, en það gekk svo langt að lögregluþjónn kom upp að mér og Arnari þegar við sátum ein úti í garði hjá íþróttahúsinu að teikna og bað okkur að hafa 1,5 metra á milli okkar. Það skondna var að þegar við hjóluðum aðeins út fyrir og í átt að velmegunarsvæðunum þá var eins og ekkert hefði í skorist, allt var krökkt af fólki að stunda hjólreiðar, hlaup eða lautarferðir og engin lögregla á svæðinu. Öllum þeim viðburðum sem mig hafði langað að fara á eða keypt miða var frestað eða aflýst, ég þurfti ekki að vera með neinn valkvíða lengur, bara JOMO (joy of missing out) í botni. Áhyggjurnar uxu óðum þar sem bylgjan virtist ekkert ætla að líða hjá, Icelandair var að komast í klípu og við vorum ekki viss hvort flug héldu áfram af einhverju viti, auk þess sem flugfarið var farið að kosta ansi mikið. Kingsday, 28. apríl, sem allir höfðu beðið spenntir eftir var haldinn á netinu, en venjulega er þetta mesti hátíðardagur Hollendinga, með veislum alls staðar allan daginn og appelsínugul mannmergð um alla Amsterdam. Stúdentar lögðu sitt af mörkum og skreyttu glugga og svalir með appelsínugulu og fögnuðu á svölunum. Á meðan skoðuðum við flug heim.

 

 

30. apríl bókuðum við flugmiða heim. Flugið var 3. maí. Það var ákveðinn léttir að vita að við værum að fara heim og losna við óvissuna en líka ótrúlega leiðinlegt að þurfa að pakka öllu í flýti, kveðja River skyndilega og henda öllu dótinu okkar á hann. Við höfðum ætlað að eyða sumrinu í Amstedam og ferðast um Holland, jafnvel kíkja einhvert annað í Evrópu og ég lét mig dreyma um að fara á hin ýmsu dansnámskeið sem voru í boði. Þarna varð ákveðinn raunveruleikaskellur, við flugum heim, beint í sóttkví uppi á lofti hjá ömmu, og kláruðum námið í fjarnámi. Þetta var mjög erfiður og þungur tími þar sem allir á Íslandi voru komnir í sumarfrí, byrjaðir í sumarvinnu og allt tiltölulega eðlilegt í samfélaginu, en við að sinna náminu út júní með lífið okkar að mestu leyti ennþá ofan í ferðatöskunum.

 

 

Ég er ákaflega glöð að við skyldum hafa slegið til og skellt okkur út, það var svo góð reynsla þó stutt hafi verið, og við vitum ekkert hvenær svona tækifæri býðst aftur. Eftir sitja líka minningar af atburðum sem ég mun örugglega og vonandi aldrei upplifa aftur, en voru sjarmerandi á sinn hátt, það var eitthvað magnað við það að rölta um tóman miðbæ Amsterdam og nánast mannlausa flugvelli. Það er klárlega mjög framarlega á dagskránni að kíkja aftur til Amsterdam um leið og aðstæður leyfa, hitta River, taka dansæfingu og grípa eina eða tvær pítur á Maoz Vegan.

Ég mæli klárlega með því að skella sér út í skiptinám eða eitthvað álíka, sama hvað gerist þá er bara dásamlegt að komast aðeins frá Íslandi, íslenskri menningu og íslenskum skóla. Það er svo hollt að sprengja búbbluna sína við og við, horfa á heiminn og sjálfan sig með öðrum augum. Ég myndi hiklaust gera það aftur.

Takk fyrir mig!