Heiða María Sigurðardóttir

Heiða María Sigurðardóttir, lektor við Sálfræðideild, upplýsti mig stuttlega um það verkefni sem er á dagskrá hjá henni þessa stundina

Við erum að skoða það sem ég kalla þátt æðri sjónskynjunar í lesblindu. Þetta verkefni er búið að vera í gangi síðan ég var nýdoktor. Ég sé fyrir mér að það haldi áfram allavega næstu þrjú árin þar sem við vorum að fá styrk frá Rannsóknarsjóði Vísinda-og tækniráðs (RANNÍS-styrk). Ég er að koma svolítið öfugu megin inn í þessi fræði þar sem ég er enginn sérstakur lesblindusérfræðingur. Ég hef aftur

á móti sérþekkingu á hlutaskynjun og sjónrænni athygli eða í rauninni öllu því sem tilheyrir þessari svokölluðu æðri sjónskynjun, sem ég kalla oft „Photoshop“ heilans. Ég pæli í því hvað gerist eftir að fólk er búið að fá allar þessar sjónrænu upplýsingar í kringum okkur, það er að segja hvernig heilinn vinnur úr þeim.

En hver var innblásturinn?

Ég er doktor í taugavísindum og í doktorsnáminu fékkst ég við grunnrannsóknir á sjónskynjun en en ekki hagnýtar rannsóknir. Það sem vakti athygli mína, eða færði mig yfir í þetta svið, er að af og til kom til mín fólk að leysa sjónræn verkefni sem átti bara í bölvuðum vandræðum með þau, og þetta fólk var lesblint. Ég fór þá að skoða þau fræði með því hugarfari að athuga hvort að þetta gæti að einhverju leyti samræmst því sem ég hafði lært um hvernig sjónkerfið virkar. Ólíkt því sem nafnið bendir til, lesblinda, þá er almennt ekki talið að lesblinda hafi eitthvað að gera með sjón. Lesblinda er fremur talin einhvers konar tungumálaröskun, eða að fólk eigi erfitt með að vinna úr hljóðum tungumálsins. Ég er ekkert að draga það í efa, en það verður að teljast óvenjulegt og umdeilt að skoða lesblindu í sambandi við sjón. Þegar ég fer að skoða fræðin í kringum lesblindu kemur í ljós að þeir sem eru

lesblindir greinast oft með vanvirkni á ákveðnum svæðum í vinstra heilahveli. Þetta eru æðri sjónsvæði sem gegna mikilvægu hlutverki í að bera kennsla á orð í sjón, en líka andlit í sjón og aðra hluti sem þarf að einstaklingsgreina.

Ég var líka undir áhrifum frá rannsóknum á fólki með heilaskaða sem í sumum tilfellum leiðir til svokallaðs hreins lesstols. Þetta er fólk sem gat lesið mjög auðveldlega áður en það skaddaðist á heila en á eftir atvikið mjög erfitt með lestur og getur í sumum tilfellum ekki lesið, því minnir þetta að einhverju leiti á lesblindu. Ef maður skoðar hvar fólk fær þennan heilaskaða þá kemur það mjög vel saman við þau svæði sem eru vanvirk hjá fólki með lesblindu, en ég er alls ekki að segja að lesblint fólk sé með heilaskaða! Ég er að skoða hvað það er við hluti, andlit og orð sem þvælist fyrir þeim sem eru lesblindir.

En hvernig er þá að sameina kennslu og rannsóknina?

Það er þrælerfitt, þetta er alltaf ákveðið vegasalt á milli rannsókna og kennslu. Með aukinni áherslu á rannsóknir í mörgum háskólum þá vill það oft verða þannig að

kennslan situr á hakanum, en ég sinni nú nemendunum eins og ég get. Það er svolítið maus að ætla að gera hvort tveggja almennilega.