Ragnar Pétur Ólafsson

Ragnar Pétur Ólafsson, dósent við sálfræðideildina upplýsti mig stuttlega um þau verkefni sem eru helst á dagskrá hjá honum þessa stundina?

Ég hef aðallega verið að rannsaka áráttu og þráhyggju, og svo þunglyndi líka og er reyndar að færa mig meira yfir í þunglyndisrannsóknirnar. Ég er búinn að vera að skoða hvaða sálfræðilegu hugsmíðar spá fyrir um afhverju fólk þróar með sér þunglyndi og þá sérstaklega endurtekið þunglyndi. Ég hef verið með svolítið af nemendaverkefnum í því á undanförnum tveimur árum og verður áfram. Samhliða er ég alltaf með smá rannsóknir á sviði áráttu og þráhyggju þar sem við erum að prófa sálfræðilegar kenningar um afhverju áráttu og þráhyggju einkenni viðhaldast hjá fólki. Það var til

dæmis það sem ég var að gera í doktorsverkefninu mínu, en ég lauk doktorsprófi árið 2013 hérna við deildina og það verkefni var á sviði áráttu og þráhyggju þannig þetta er svolítið í framhaldi af því. Það er yfirstandandi verkefni í samvinnu við tvo CandPsych nema sem eru að keyra það í samstarfi við Ívar Snorrason sem er PostDoc við Colombia háskólann í New York. Hans sérsvið er líkamsmiðuð árátta og við erum að keyra árangursrannsókn á háskólanemum sem kroppa húð eða plokka hár óhóflega mikið.

En hvað ertu þá að verja miklum tíma í öll þessi verkefni?

Margar rannsóknir sem ég hef séð um eru gerðar af nemendum og miðast þar af leiðandi við þann tíma. Rannsóknirnar fara oft af stað í desember eða janúar og eru að klárast í apríl eða maí. Síðan erum við oft með framhaldsrannsóknir þar sem aðrir nemendur

koma að ári og taka við, en venjulega er þetta nokkra mánaða rannsóknartímabil. Svo erum við að fara af stað með doktorsverkefni þar sem lagt er upp með þriggja ára rannsóknarverkefni sem doktorsnemar sjá þá um að keyra undir minni leiðsögn.

Eftir þessar umræður byrjar maður að velta fyrir sér afhverju þú ert að rannsaka þetta tiltekna svið, hvað kom til?

Ég tók meðvitaða ákvörðun um að gera minna af áráttu og þráhyggju rannsóknum og meira að einhverju öðru afþví ég var búinn að rannsaka þetta svo lengi, en aðallega þó vegna þess að mig langaði að rannsaka algengari kvilla. Árátta og þráhyggja er

mjög áhugaverður kvilli en hann er ekki mjög algengur. Þunglyndi er mjög algengt og rannsóknir á því sviði hafa samfélagslegt mikilvægi ef þær fela í sér þekkingu sem getur bætt árangur meðferða við þunglyndi.

Hvernig er þá að sameina kennslu við þessar rannsóknir?

Það er alltaf smá togstreita en þannig er það bara. Starf lektora og dósenta er tvískipt, þú sinnir rannsóknum og þú sinnir kennslu og maður skrifar upp á það og það fer í rauninni ekkert illa saman ef

þú ert að kenna námskeið sem eru á því sviði sem þú ert að rannsaka, eins og ég er að gera. Þannig það rekst ágætlega saman en auðvitað getur stundum verið togstreita um tímann.

Nú hefur þú minnst mikið á að nemendur séu partur af rannsóknum þínum, eru margir að vinna að rannsóknunum með þér?

Nemendur koma að öllum mínum rannsóknum. Dósent í sálfræði hefur ekki mikinn tíma til þess að sinna daglegri gagnasöfnun. Tíminn færi mjög fljótt ef ég ætti að fara að flengjast um háskólasvæðið spyrjandi spurningalista eða eyða mörgum dögum

á rannsóknarstofu til að taka á móti þátttakendum, það gengur ekkert upp. Ég nýti mér þar af leiðandi að fá áhugasama BSc og CandPsych nemendur til þess að safna gögnunum fyrir mig undir minni handleiðslu, þá er þetta svona samstarfs verkefni og ég held að flestir geri það hér.