Hvernig geta vísindamenn orðið betri bandamenn hinsegin fólks?

Það er í eðli vísinda að vita ekki allt, annars væru þau jú nánast tilgangslaus. Við þurfum nýja þekkingu og sköpun til þess að skilja heiminn og fólkið sem í honum býr. Sálfræði sem vísindagrein hefur áherslur ólíkar öðrum greinum, eðlilega. Ofuráhersla á hegðun, erfðir, heilastarfsemi og hugræn ferli er það sem jú laðar okkur að sálfræði. Málaflokkur sem hefur orðið verulega út undan í samfélaginu sem og sálfræðinni eru hinsegin málefni. Vísindalega skortir okkur grunnrannsóknir og margir sem leggja stund á sálfræði hafa takmarkaða þekkingu á málaflokknum. Þrátt fyrir að staðan sé miður góð að því leyti þá er það grundvallaratriði fyrir þau sem hafa áhuga á mannlegu eðli að sýna hinsegin fólki virðingu.

 

Það er frekar nýtilkomið að tekið sé tillit til fólks utan kynjatvíhyggjunnar í rannsóknum – að ekki sé litið svo á að mannlega flóru megi takmarka við tvö kyn. Jafnvel er það svo að enn eru fræðimenn sem kenna út frá þessari tvíhyggju: taka fyrir kynjamun á sínu fræðasviði, vilja sjá sálfræðinema (verðandi vísindamenn!) skoða kynjamun í verkefnum og í fyrirlestrum sínum tala um „hitt kynið“ eða „gagnstætt kyn“.

 

Megin vandamálið við þessa nálgun liggur þó ekki hjá kennurum, langt því frá. Vandamálið snýr að gagnaöflun. Rannsakendur hafa margir tileinkað sér að safna grunnupplýsingum um kyn einstaklinga með valmöguleikunum: „karl, kona, annað“. Þau sem ekki falla inn í karl- eða kvenkyn er af hentugleika merkt sem eitthvað annað. Yfirborðslega virkar þetta fínt ekki satt? Þegar betur er að gáð virðist slík gagnaöflun aðeins til þess gerð að vera pólitískt rétt án þess að þýða í rauninni eitthvað. Séu einhver sem haka við þann valmöguleika eru þau oft ekki tekin með á þeim forsendum að það séu ekki nógu margir í þeim hópi til þess að framkvæma rétt og góð tölfræðipróf. Ég veit þó fyrir víst að margir kynsegin nemendur, ég þar meðtalin, haka sjaldnast við þennan valmöguleika af ótta við útskúfun eða að koma einhverjum í uppnám með því að hafa „eyðilagt gögnin“. Þá er særandi að heyra að maður skipti ekki máli í úrtakinu vegna þess að maður tilheyrir ákveðnum kynjaminnihluta og að vísindamenn upp til hópa þurrki út veruleika kynsegin fólks sem skýrir hve lítið af rannsóknum eru til. Til hvers er þessi valmöguleiki hafður með ef það hefur enga þýðingu utan pólitískrar rétthugsunar? Vísindamenn ættu að hafa raunverulegan áhuga á því að sem flestir gætu tekið þátt í rannsókninni og ekki þurrka hópinn úr gögnunum sínum. Ef að fyrirhuguð úrvinnsluaðferð gengur ekki upp vegna mannlegs breytileika – þá er spurning að stroka út af tússtöflunni og hugsa dæmið upp á nýtt. Að gera ráð fyrir því að öll sem taka þátt í rannsókninni séu annað hvort karl- eða kvenkyns en að aðrir væru frávillingar sem eru truflandi í gagnasafninu er gamaldags hugarfar sem sýnir svart á hvítu áhugaleysi vísindamanna til þess að vera bandamenn hinsegin fólks.

 

Erfðarannsóknir eru annar hlutur sem má gagnrýna og setja spurningamerki við út frá ýmsum þáttum. Það er skiljanlegt að sálfræðinám fjalli að miklu leyti um hlutverk erfða og hlutverk umhverfis í mótun mannsins. Þau sem hafa áhuga á sálfræði hafa að miklu leyti áhuga á þessum hlutum og hvernig við getum haft áhrif á lífshlaup einstaklinga. En eins og áður hefur komið fram þá má gagnrýna. Það er algjör grunnskóla erfðafræði að læra um kynlitninga mannsins: XX og XY. En til er fólk sem ekki fellur inn í þann hóp eða að öðru leyti eru með ódæmigerð kyneinkenni (kyneinkenni sem eru ekki skólabókardæmi um karl- eða kvenkyn). Hvað með þau? Já vísindin finna bara nöfn yfir ýmis heilkenni eins og PAIS en hvergi í hefðbundinni kennslu er orðið intersex notað – sem er það nafn sem grasrótarhreyfingar kjósa að nota. Að vera intersex er eðlilegur breytileiki í náttúru mannsins og talið er að intersex fólk sé jafn algengt og rauðhært fólk.

Það sem truflar þó enn meira í erfðafræðinni er áhugi vísindamanna á að kortleggja erfðir sem gera okkur hinsegin. Eins og frægt var óskaði Kári Stefánsson eftir samstarfi við Samtökin ‘78 við erfðafræðirannsókn á kynhneigð. Samtökin höfnuðu samstarfi á grundvelli siðferðis, enda samkynhneigð ólögleg víða og gætu niðurstöður rannsóknarinnar sett hinsegin fólk í raunverulega lífshættu. Sem betur fer varð ekki af þessari rannsókn en þarna má setja stórt spurningarmerki við það hvort vísindamenn séu farnir að hunsa siðferði þegar kemur að rannsóknum á hinsegin fólki.

 

Hvernig geta vísindamenn orðið betri bandamenn hinsegin fólks? Fyrst og fremst þarf að gera sér grein fyrir því að ekki er öll þekking af hinu góða þekkingarinnar vegna. Hinsegin fólk þarf að fá að njóta vafans. Hvernig gagnast það hinsegin fólki að hinsegin gen séu kortlögð? Gæti verið að tapið sé mun meira en ávinningurinn? Þessa hluti þurfa vísindamenn að hafa í huga þegar höfuðið er lagt í bleyti, rétt eins og læknar geta ekki ávísað lyfjum nema að það sé ávinningur fólginn í því fyrir sjúklinginn. Við þurfum að vera dugleg að aðgreina rannsóknir sem gætu raunverulega gagnast hinsegin fólki frá rannsóknum sem eru gerðar til þess að friða lýðinn. Fyrir mörgum árum var vinsælt rannsóknarefni hvernig börn koma undan uppeldi hinsegin foreldra. Ég ætla ekki að gefa ykkur svarið, en undir hvorn hattinn haldið þið að þessi rannsókn hafi fallið þá og undir hvaða hatt hún myndi falla í dag?

 

Eftir verulega ósmekkleg ummæli Sigmundar Davíðs um intersex börn á Alþingi mælti Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ‘78 svo: „Ef þú ræðst á eitt okkar þá ræðstu á okkur öll.“

Ljóst er að það dugar ekki að vera bandamaður eins hóps, heldur allra hópa hinseginleikans.

Hafi sálfræðinemar áhuga á því að kynna sér hinsegin sálfræði mælir höfundur heilshugar með valáfanganum Hinseginleikinn í sálfræði sem kenndur var fyrst haustið 2020 og fær vonandi að halda áfram næstu árin.

 

Ekki er hægt að koma fyrir tæmandi lista af atriðum sem mætti bæta í rannsóknum, hvað finnst þér mega bæta? Láttu heyra í þér á Instagram eða Facebook.

Þessi grein er hluti af Jafnréttisdögum Sálu, tímarits Sálfræðinema. Jafnréttisdagar Háskóla Íslands hafa verið haldnir árlega síðan 2009. Hugmyndin með Jafnréttisdögum er að þeir hjálpi til við að skapa umræðu um jafnréttismál og að gera þau sýnileg innan skólans sem utan. Hægt er að sjá dagskrá Jafnréttisdaga 2021 hér.