10 ráð til að læra betur heima

Ákveðin veira hefur heldur betur valdið miklum usla, andlega og líkamlega, en ekki síst námslega. Stúdentar halda sig heima og reyna að meðtaka strembið námsefni í gegnum tölvuskjá, einir síns liðs.  Við fengum smjörþefinn af þessu ástandi í vor en nú eru mörghundruð nýnemar skráðir til leiks og þetta er háskólalífið sem tekur á móti þeim. Sömuleiðis hættu einhver í vor en vilja nú ná tökum á námi sínu aftur. Kannski ertu eitt af þeim sem er fyrst núna að taka náminu tökum þegar öll verkefnaskilin komu bara allt í einu.

Sama hvernig þið eruð stödd þá vonum við að þessi ráð komi sér að góðum notum seinni helming annarinnar.

 

1. Rútína, rútína, rútína

Haltu í rútínu eins og þú getur. Það er aldrei of seint að koma henni í lag. Sumum finnst gott að skrifa niður gróft plan fyrir dagana sína á meðan aðrir finna taktinn hjá sjálfum sér. Gott fyrsta skref er að fara að sofa og vakna á svipuðum tíma hvern dag. Góð uppskrift af morgunrútínu væri að standa upp úr rúminu, búa um og fá sér te. Hugaðu að því að fara í sturtu þó þú sért ekki á leiðinni út úr húsi. Þér mun ganga betur í skólanum ef þú byrjar og endar daga þína á góðum nótum.

2. Námið er ekki líf þitt

Taktu frá tíma á hverjum degi tileinkaðan náminu. Passaðu að byrja ekki að læra ef þú nennir því alls ekki, þó þér finnist vera kominn tími til – þú græðir ekkert á því. Með lærdómstíma eigum við ekki við að þú þurfir alltaf að vera frá kl 8 til 15. Þú getur til dæmis ákveðið að á hverjum degi fari fjórar klukkustundir í það og þessar fjórar klukkustundir geti verið hvenær sem er. Að tímanum loknum farðu og teiknaðu eða spilaðu tölvuleik. Eldaðu góðan mat án þess að hafa kvíðahnút í maganum að þú hafir ekki lært nóg í dag. Með því að setja þér ramma og mörk stuðlarðu frekar að því að þú lærir í alvörunni í stað þess að hanga á YouTube. Það er líka mjög vel séð að taka skipulagðar pásur, til dæmis að standa upp eftir einn kafla, fá sér vatnsglas og stara út um gluggann.

 3. Hvað ertu að lesa?

Þessi námstækni á ekki bara við í fjarnámi en hefur sennilega aldrei verið mikilvægari þegar þú ert að læra eitt þíns liðs. Vertu meðvitað um hvað þú ert að læra. Búðu til spurningar úr lesefninu sem þú svarar án bókarinnar. Ef þú svaraðir vitlaust, lestu þetta aftur. Það er svo vond tilfinning að eyða klukkustund að lesa einn kafla og fatta síðan að maður hafði ekki hugmynd um hvað maður var að lesa.

4. Taktu húsverkin í nefið

Að láta húsverkin sitja á hakanum er bara annar hlutur til þess að hafa áhyggjur af og leiðir mann jafnvel til þess að missa alla einbeitingu. Það getur verið góð pása að taka aðeins til, þvo eina vél eða henda dósum. Þú gætir reynt að innleiða það í rútínuna þína ef það hentar eða notað það sem lærdómspásu. Hefurðu prófað núvitund? Prófaðu að vaska upp leirtauið og pæla bara í því hvernig vatnið leikur við hendur þínar, hvernig lykt er af sápunni og hversu vel þú ert að þrífa diskinn. Leyfðu þér að gleyma aðeins rannsóknarskýrslunni og hafðu smá hreint í kringum þig ef þú getur.

5. Komdu þér upp reglum

Atferlisgreiningarnörds, where you at? Nú er ykkar tími kominn.
Finndu styrki sem henta þér vel og verðlaunaðu þig með honum í náminu. Kláraðirðu heimadæmin? Súkkulaði! Lastu kaflann? Jarðarber! Komdu þér upp styrkjakerfi, gefðu þér hvatninguna til þess að halda áfram að læra. Ekki láta of mikið eftir þér, leyfðu þér að vinna þér inn styrkinn. Þú getur litið á þetta sem tilraun á sjálfu þér og jafnvel fyglst sjónrænt með árangri þínum á tússtöflu eða eitthvað.

Annað sem hefur notið mikilla vinsælda er svokölluð Pomodoro-tækni já eða tómatatækni fyrir þau sem ekki eru vel að sér í ítölskunni. Hún er í nokkrum skrefum: 1. Að ákveða hvað þú ætlar að gera. 2. Sinna verkefninu í 25 mínútur. 3. Taka 5 mínútna pásu. 4. Endurtaka 4x og taka þá 15-30 mínútna pásu.

Hvort sem þú velur að styrkja þig, nota tómatatæknina eða blanda þeim einhvernveginn saman þá eru þetta frábærar leiðir til þess að koma sér í gírinn.

6. Kveiktu á myndavélinni

Ef þú getur og þorir að kveikja á myndavélinni í tímum á Zoom setur það á þig auka pressu til þess að fylgjast með. Þú kemst minna upp með að liggja í símanum eða skreppa frá. Slökktu samt á henni þegar þú ferð á klósettið. Líka á hljóðnemanum. Þetta gerir kennurum einnig auðveldara fyrir að kenna á Zoom, það er frekar óþægilegt að tala bara við tölvuna sína. Í valáföngum þar sem færri nemendur eru getur myndast góð og skemmtileg stemning þegar öll hafa kveikt á myndavélinni. Settu inn skemmtilegan bakgrunn. Við mælum með þessum.

 

7. Talaðu við aðra

Það er svo gagnlegt að geta rætt við aðra um námsefnið. Við hvetjum ykkur eindregið til þess að hringjast á og spjalla saman, til dæmis eftir fyrirlestur eða áður en þið hefjist handa við verkefni. Samveran er það sem við söknum mörg við staðnám og þá er gott að muna eftir því að félagarnir eru bara eitt myndsímtal í burtu.

8. Fáðu sem mest úr hverri kennslustund

Tvö lykilatriði stuðla að því að þú fáir sem mest út úr fjarkennslu: Að glósa og prófa sig. Ekki bara styðjast við glósur kennarans og reyndu að koma því sem sagt er frá í eigin orð. Ef fyrirlesturinn er tekinn upp fyrirfram mælum við með því að ýta á pásu og taka lítið próf úr því sem talað var um í fyrri hluta. Þú getur til að mynda notað glósurnar þínar til prófsins, fundið eitthvað flott Quizlet úr kaflanum eða notað connect kóða eigi það við. Sé fyrirlesturinn í beinni útsendingu getur þú tekið sömu nálgun á efnið en prófað að svara spurningum tengdum öllum fyrirlestrinum.

ATH þau sem lesa ekki kennslubækurnar: Í mörgum kennslubókum eru spurningar eða dæmi aftast í hverjum kafla sem er mjög gott að æfa sig á.

9. Hvar ertu að læra?

Þú skítur ekki þar sem þú borðar og þú ættir heldur ekki að læra þar sem þú sefur. Reyndu að aðskilja námið frá öðrum þáttum lífs þíns. Taktu frá afmarkað pláss fyrir námið. Ef þú þarft að breyta um umhverfi er gott að fara ekki upp í rúm heldur hafa nokkra staði sem afmarkaða lærdómsstaði ef þú mögulega getur. Mundu að skrifborðið þitt þarf ekki að vera óþægilegt og boring, gefðu því smá sjarma með kerti og plöntu.

 

10. Sjónrænt skipulag

Háskólanám á það til að vera yfirþyrmandi. Það verður ekki minna yfirþyrmandi þegar maður situr heima og man varla lengur hvaða dagur er. Með því að koma upp sjónrænu skipulagi á áberandi stað, til dæmis hjá skrifborðinu, ertu meira á varðbergi fyrir verkefnum og stöðu námsins. Sömuleiðis er það ofboðslega góð tilfinning að geta merkt við eða krotað yfir það sem liðið er.

Á vef námsráðgjafar HÍ má finna dagatal fyrir önnina sem er gott að prenta út og merkja inn verkefnaskil og lestur.

 

Að lokum

Að lokum viljum við nefna að það sem mestu máli skiptir er að finna sína eigin leið og missa ekki dampinn.

Ekki vera of hörð við ykkur þó eitthvað út af bregði og klappið ykkur á bakið fyrir að hafa yfirhöfuð lesið þessa grein. Þá vitið þið að þið eruð á réttri leið og getið haldið vel á spöðunum til ófyrirséðrar framtíðar.

Vonandi kemur eitthvað hér að gagni og gangi ykkur sem best!