Viðtal við Sonju Sigríði og Martin Sindra

Ég settist niður með Sonju Sigríði Jónsdóttur, formanni Animu og annars árs nema í sálfræði, og Martin Sindra Rosenthal, varaformanni Animu og þriðja árs nema í sálfræði. Á næstu vikum verða störf stjórnarinnar kynnt betur og kosningar því á næsta leyti. Mig langaði aðeins til að skyggnast inn í líf þeirra sem hafa unnið hart að því að gera félagslíf sálfræðinemanna í Háskóla Íslands aðeins bærilegra, jafnvel bara nokkuð frábært. Við hittumst á Háskólatorginu okkar góða.

Fyrst aðeins til þess að kynnast ykkur. Hver eruð þið?

Sonja: Uppruni minn er úr Keflavík, Suðurnesjunum, ég fæddist þar en bý núna í Breiðholti og er uppalin þar. Ég bjó í Englandi einu sinni, þegar ég var lítil. Pabbi minn var í fiðlusmíðanámi í litlum bæ sem heitir Newark-on- Trent, sem er rétt hjá Nottingham. Við vorum þar í tvö og hálft ár.

Varstu í skóla þar?

Ég var í því sem kallast preschool og playschool, sem er einhverskonar millistig af leikskóla og grunnskóla. Ég var í núllta bekk, eða eitt ár í leikskóla og eitt ár í núllta bekk. Ég var algjört krútt í skólabúning með geðveikt breskan hreim.

Ertu ennþá með breskan hreim?

Neeei. Núna er ég með mjög íslenskan enskan hreim.

En þú Martin?

Martin: Ég fæddist í Þýskalandi, var þar þangað til ég var svona þriggja ára. Bjó svo hérna í Reykjavík í tvö ár en flutti svo til Neskaupsstaðar.

Og ertu að mestu alinn upp þar?

Já, frá því að ég var fimm ára og þar til ég flutti suður árið 2014. Svo spilaði ég fótbolta með Fjarðarbyggð alveg til 2016.

Er pabbi þinn eða mamma þýsk?

Já, pabbi minn er þýskur.

Og fluttirðu svo í bæinn fyrir háskólann?

Já, það er náttúrlega ekkert í boði fyrir austan, og já kom hingað bara til að stunda nám.

Og var sálfræði fyrsta val?

Ég vissi ekki almennilega hvað ég vildi fara í og var að skoða og lesa um námið og þetta heillaði mest.

En hjá þér Sonja?

Sko, ég var rosalega rugluð eftir að ég kláraði menntaskóla, og vissi ekkert hvað mig langaði að gera, eins og held ég bara flestir. Þannig að ég fór í Tækniskólann í eitt ár og var svo að vinna í eitt ár, þannig að ég tók alveg tveggja ára pásu á milli menntaskóla og háskóla. Svo var ég að reyna að velja á milli sálfræði og viðskiptafræði og endaði á því að velja sálfræði og sé alls ekki eftir því. Síðan valdi ég að fara í viðskiptafræði sem aukafag þannig að ég eiginlega endaði á því að velja hvort tveggja, þó svo að sálfræðin hafi verið fyrsta val.

Hvernig er að vera í fagi meðfram sálfræðinni?

Það er ótrúlega næs af því að ég hef ekki jafn mikinn áhuga á klínísku hliðinni í sálfræðinni og svona sleppi alveg einhverju af þeirri hlið í grunnáminu. Þannig get ég tekið viðskiptafræðina með og er að einbeita mér að markaðsfræði og það er algjörlega það sem mig langar að stefna á. Ég mæli með að taka aukagrein. Það býður uppá svo mikla fjölbreytni. Og að vera í annarri deild, það er ótrúlega gott.

Það eru eflaust margir sem gæla við þá hugmynd að bjóða sig fram í stjórn í nemendafélögum sínum en hætta svo við það þegar að því kemur. Mig langar að vita hvað varð til þess að þið ákváðuð að bjóða ykkur fram í þessi embætti?

Sonja: Sko… (hlær). Við Martin áttum samtal við fyrrum stjórnarmeðlimi og þetta samtal myndaðist á 3. hæð Odda, sem er okkar annað heimili..

Martin: Eins og mörg samtöl!

Sonja: Rebekka Valberg og Guðný Ljósbrá sem peppuðu okkur í að bjóða okkur fram í stjórn svo við ákváðum þá..

Martin: Já sko Sonja sagði bara: ég býð mig fram ef þú býður þig fram.

Sonja: Já ég held ég hafi sagt: ég skal vera formaður ef þú ert varaformaður. Við skulum gera þetta saman. Þannig að við fórum pínu í framboð saman.

Er þetta það sem þið bjuggust við að þetta yrði?

Martin: Ég veit það ekki. Já og nei. Ég vissi sirka hvað þyrfti að gerast en vissi ekki alveg hvernig ætti að gera það. En það hefur lærst mjög fljótt. Maður fær líka svo mikla hjálp frá fyrri stjórnum.

Er þetta í fyrsta skipti sem þú ert í svona stjórn?

Martin: Nei, ég var í stjórn í framhaldsskóla. Þá var ég líka varaformaður.

Sonja: Jújú, ég bjóst svo sum við því að þetta yrði svona eins og þetta er. En ég náttúrlega hef reynslu af öðrum stjórnarstörfum.

Hvar varstu áður?

Sonja: Ég var náttúrlega formaður Röskvu, árið áður en ég tók við sem formaður Animu. Svo var ég gjaldkeri Nös (Nemendafélags Ölduselsskóla) í grunnskóla. En stjórnarstarfið í Animu er sko allt öðruvísi heldur en t.d í Röskvu. Það er allt miklu fastmótaðra í Animu, fyrirfram ákveðin verkefni; við þurfum að halda vísindaferðir, það þarf að skipuleggja þær í hverri viku. Svo eru allir þessir viðburðir eins og árshátíð Animu, skíðaferðin, sem er reyndar ný, hún var haldin í fyrsta sinn í fyrra, sálfræðileikarnir, nýnemadagurinn. Allt miklu fastmótaðra, en samt alveg rými til þess að búa til nýja viðburði og gera það sem okkur langar að gera. Núna erum við t.d. að fara að halda partí með Mágusi (félagi viðskiptafræðinema), sem er ekki hefð fyrir. Svo kannski munum við halda eitt partí í boði ákveðins fyrirtækis sem þarf kannski ekki að koma fram hér (hlær).

Martin: Já, það eru alltaf þessir sömu viðburðir en maður hefur svo mikið frelsi til þess að gera þetta eins og maður vill, einmitt að bæta eitthvað. Ég hélt fyrst að þetta yrði svo ógeðslega mikil vinna og ég gæti ekkert lært með þessu en þetta er alls ekkert þannig. Þetta eru bara fundir einu sinni í viku og þar er allt ákveðið og verkefnum deilt út.

Sonja: Og fundirnir eru ekkert grafalvarlegir fundir, það er mjög mikið djók og grín og mikið hlegið. Mjög gaman.

Hvers konar eiginleika er gott að hafa ef maður ætlar að gegna þessum embættum?

Sonja: Samskiptahæfileika, númer 1, 2 og 3. Mjög mikilvægt.

Martin: Vera tilbúinn að hlusta á aðra.

Sonja: Vera vinnufús. Vera tilbúin/n til að taka að sér verkefni. Sérstaklega ég sem formaður þarf að deila verkefnum á aðra og þá finnst mér mikilvægt að aðrir séu tilbúnir að taka að sér verkefni og ég náttúrlega líka. Mikilvægur eiginleiki fyrir formann er líka að kunna að deila niður verkefnum, því ég held að það sé svo auðvelt að enda á því að taka að sér allt sjálf/ur. Og þar spila samskiptahæfileikar aftur inní.

Martin: Sem varaformaður er kannski líka mikilvægt að taka við því sem hún segir og ýta á eftir fólki. Það er leiðinlegt fyrir formanninn að vera alltaf leiðinlega manneskjan. Það er fínt að grípa inní og fólki finnst almennt fínt að fá skipanir þetta úr ólíkum áttum.

Sonja: Mjög sammála!

Hvað er það besta við það að vera í stjórn?

Sonja: Ég myndi segja það að ég er búin að kynnast mörgu nýju fólki. Mér þykir ótrúlega vænt um nýju vinasamböndin sem ég er búin að mynda. Maður fær líka miklu betri tengingu við fólkið í deildinni. Það er gaman þegar fólk kemur til manns af fyrra bragði, biður mann um ráð. Ég finn líka frir því að ég get hjálpað fólki, sem mér finnst mjög gaman. Þegar fólk leitar til manns. Svo er náttúrlega djammið snilld.

Martin: Ég tek undir þetta allt saman. Maður kynnist fullt af geggjuðu fólki. Maður verður miklu opnari. Ef maður var ekki opinn fyrir þá er þetta góð leið til þess að verða opnari. Fólk er óhræddara við að koma til manns. Mér finnst ég líka vita miklu meira um það hvernig hlutirnir virka. Ef ég þarf t.d. sjálfur að halda viðburði eða eitthvað þá veit ég að þetta er ekki það mikið mál, það þarf bara að hafa samband. Það mun hjálpa mér alveg helling.

En það versta?

Sonja: Úff, erfið spurning.

Martin: Djammið.

Sonja: Sagði hann með mikilli uppgjöf!

Sonja: Ég held stundum að það versta geti líka verið mannleg samskipti. Það getur verið erfitt þó svo að flestir séu sammála að vissu leyti þegar kemur að nemendafélagsstörfum.

Martin: Það koma alltaf upp einhver mál sem maður þarf að leysa, sem er kannski það versta. Manni finnst ekkert gaman að þurfa að rökræða við aðra, en það leysist.

Getur verið erfitt að eiga erfið samskipti við fyrirtæki sem maður er í samstarfi með?

Sonja: Já ég ætlaði einmitt að nefna það að það getur verið erfitt stundum. Ég hef alveg stundum átt reiðifundi með sumum. Það leysist úr því, en það er mjög erfitt að þurfa að greiða úr vandamálum við fyrirtæki sem maður þekki ekkert inná og veit ekki hvort maður sé að stíga yfir einhver mörk.

Er þetta jafn tímafrekt og þið hefðuð haldið?

Sonja: Nei, ég hélt ekkert að þetta væri tímafrekt. Ég hef svo mikla reynslu af svona stjórnarstörfum innan Röskvu, sem var mjög tímafrekt. Þegar ég miða þetta við það, finnst mér þetta ekkert tímafrekt. Það eina sem tekur tíma er stúss. T.d. ef maður er vísóstjóri, að vera mætt/ur á réttum tíma. Sækja dót í Ölgerðina, sækja myndabakgrunn sem var notaður á árshátíð o.s.frv.

Martin: Þetta kemur líka svolítið í öldum. Mánudag til fimmtudags er kannski yfirleitt lítið að gera, svo kannski föstudaga aðeins meira. Svo er náttúrulega aðeins meira í kringum svona stóra viðburði eins og árshátíðir og svoleiðis, en maður væri hvort eð er bara heima að horfa á Netflix, þannig að maður er ekkert að „eyða“ tímanum sínum í þetta.

Sonja: Eins og deginum fyrir árshátíðina eyddum við bara upp í sal að skreyta og gera allt tilbúið, en það er líka bara sjúklega gaman. Bara að hlusta á tónlist og bera borð og dúka borð og svoleiðis, þó svo að það hljómi ekkert sjúklega spennandi (hlær). Föndurfundir og myndatakan fyrir árshátíðina, allt saman skemmtilegt.

Hefur það haft áhrif á námið ykkar?

Sonja: Ekki mitt. Ég myndi ekki segja að ÞETTA hafi haft áhrif.

Martin: Það er líka þannig að þegar það er eitthvað í gangi hjá þriðja árinu þá getur fyrsta árið alveg tekið þau verkefni að sér. Við erum það mörg, að við finnum alltaf einhvern sem getur gert eitthvað fyrir okkur. Þannig að ef maður er að skila verkefni eða fara í próf þá bara kemst maður ekki og það er allt í lagi. Það hefur gengið mjög vel.

Sonja: Það er líka borin mjög mikil virðing fyrir því.

Martin: Námið gengur alltaf fyrir, þetta er bara auka. Og við sinnum því bara vel þannig að nei, það hefur aldrei komið niður á náminu mínu að ég sé í Animu.

Sonja: Við pössum líka alltaf til að byrja með að skipuleggja stóra viðburði ekki í kringum álagspunkta. Af því að við vitum öll að það er álag þegar almennu prófin eru.

Sonja, þú ert búin að vera að gera alveg ótrúlega margt meðfram stjórninni og náminu. Hvað ertu búin að vera að gera?

Hvar á ég að byrja (hlær)? Ég er eins og hefur komið fram, formaður Animu. Ég er markaðsstýra Hugrúnar, geðfræðslufélags. Við vorum núna að gefa út herferðina, verum huguð. Þið getið kíkt á það á heimasíðunni gedfraedsla.is/hugud. Ég er svo líka á fullu í starfi Röskvu. Er núna í framboði til varaformanns stúdentaráðs og vona að ég hljóti kjör þar. Svo er ég líka varaformaður uppreisnar Reykjavík sem er ungliðahreyfing Viðreisnar. Er ég að gleyma einhverju?

Martin: Dóttir.

Sonja: Já svo er ég líka atvinnudjammari (hlær). Er í fullu háskólanámi, er að vinna líka. Hef reyndar ekki mikinn tíma fyrir það.

Hefurðu tíma fyrir sjálfa þig?

Sonja: Neeeei. Jújú, ég reyni alveg að skipta þessu niður. Eins og ég er núna að hætta sem formaður Animu og markaðsstýra Hugrúna. Það taka svo náttúrlega við önnur verkefni. Þegga kemur alveg niður á náminu mínu. En mér finnst þetta svo ótrúlega mikilvægt líka.

Er ekki reynslan sem kemur af öllu þessu ansi mikils virði?

Sonja: Hún er það sko. Að vera í svona félagsstarfi er bara 100% annar skóli útaf fyrir sig. Annað háskólanám liggur við. Ég er búin að læra svo ótrúlega margt um svo ótrúlega mismunandi hluti. Þetta er eitthvað sem ég myndi mæla með fyrir alla. Maður þarf náttúrulega að hafa smá skipulagshæfileika, sumu þarf maður að fórna. En þetta er búið að takast ágætlega.

En þú Martin, hvað hefur verið á döfinni hjá þér?

Martin: Minn listi er bara vandræðalegur miðað við Sonju. Ég er bara varaformaður Animu, er varamaður í stúdentaráði og er að vinna hjá Rauða Krossinum.

Sonja: Mjög óeigingjarnt starf.

Martin: Já, ég er sem sagt næturvaktarstarfsmaður hjá hjálparsímanum. Mæli með því að fólk kynni sér það. 1717. Svo er ég bara að læra.

Hvert stefnið þið í framtíðinni, og mun þessi reynsla nýtast ykkur í því sem þið ætlið að gera?

Martin: Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég vil gera í framhaldinu. Þannig að ég er kominn á þá skoðun að vinna í eitt ár, safna mér reynslu og fara svo í framhaldsnám.

Sonja: Ég veit það ekki alveg 100%. Ég veit hverju ég hef áhuga á, hvað mig langar að gera en það er alveg svolítið margt. Ég hef mjög mikinn áhuga á stjórnarstörfum. He he. Mannauðsstjórnun kitlar svolítið og markaðsfræði eiginlega ennþá meira, hef mjög mikinn áhuga á markaðsstörfum. Mig langar alveg smá að fara til útlanda í mastersnám í markaðsfræði eða mannauðsstjórnun. Ég er ekki búin að negla neitt niður, en þetta svona stefnan.

Hvaða ráð mynduð þið gefa komandi stjórn?

Martin: Vera í stöðugum samskiptum. Skiptir rosa miklu máli. Ef þér finnst eitthvað, segðu það þá. Þá er hægt að ræða það og komast að niðurstöðu. Það er rosa erfitt ef varaformaðurinn hugsar eitt og formaðurinn annað, þá geta hlutirnir farið í rugl. Ég held bara að það skipti rosa miklu máli, að vita allavega hvað hinn aðilinn er að hugsa.

Sonja: Samskipti. Án gríns. Mitt heillaráð til allra í lífinu, alltaf, samskipti. Það er það sem hefur virkað lang best fyrir mig. Við munum svo auðvitað skila af okkur risa google drive-i sem Theodora er búin að setja mjög fallega upp og er mjög vel skipulagt.

Er eitthvað sem þið viljið bæta við?

Martin: Ég bara hvet alla til að bjóða sig fram. Góð reynsla og ótrúlega skemmtilegt. Það kemur svo mikið á óvart hvað maður hefur gott af þessu. Þetta opnar alveg ótrúlega margar dyr.

Sonja: Ég tek undir allt sem Martin sagði og sérstaklega finnst mér að vegna þess hve stór sálfræðideildin er, að fyrir fólk sem er að koma inn í þetta nám getur verið mjög erfitt að kynnast fólki. Þetta er því góð leið til að kynnast fólki og fólki sem er á öðrum árum en maður sjálfur.

Martin: Tengslanetið verður svo ótrúlegt. Hvort sem það er fólk sem er með þér í stjórn eða bara fólk sem maður hittir í vísindaferðum. Fólk er líklegra til þess að tala við þig sem stjórnarmeðlim og maður gefur sér líka meira leyfi til þess að tala við aðra, spyrja hvernig gengur og svoleiðis.

 

Þess má geta að Sonja og Martin eru bæði einhleyp. Hægt er að hafa samband við Animu Pepp fyrir frekari upplýsingar.

Aðalfundur Animu verður þann 6. apríl næstkomandi þar sem kosin verður ný stjórn og eru allir hvattir til þess að bjóða sig fram í embætti og taka þátt í Animu.

Hér skil ég eftir slóðir inn á tvær síður sem eru gríðarlega mikilvægar fyrir samfélagið okkar í dag og mig langar til þess að hvetja alla til þess að kynna sér verkefni þeirra. Það eru heimasíður Hjálparsíma Rauða Krossins og Hugrúnar, geðfræðslufélags.