Skiptinám í sálfræðinni

Þegar ég fór að huga að háskólanámi fannst mér tilhugsunin um að læra erlendis alltaf ótrúlega heillandi. Ég skoðaði það aðeins en ákvað svo, verandi frá Akureyri, að það að flytja til Reykjavíkur væri ágætis byrjun og að ég gæti frekar farið í skiptinám til þess að svala ævintýraþörfinni aðeins. Þegar ég fór að skoða skiptinám fyrir sálfræðina komst ég hins vegar að því að framboðið var frekar lítið. Sálfræðin í HÍ er öll kennd á íslensku sem þýðir að erlendir sálfræðinemar geta ekki komið í skiptinám við deildina. Ég varð þá svekkt og hálfpartinn gafst upp á hugmyndinni um skiptinám þar til ég lenti á spjalli við eldri sálfræðinema í vísindaferð sem hafði farið í skiptinám til Kaupmannahafnar. Eftir þetta ákvað ég að kynna mér skiptinámið aftur og ákvað að sækja um og setja Kaupmannahafnarháskóla sem mitt fyrsta val og komst stuttu seinna að því að ég hefði komist inn. Sumarið fór þá í íbúðarleit í Köben og ég endaði á að finna mér herbergi hjá danskri konu á Íslandsbryggju (Islands brygge).

Ég fór út í ágúst og fljótlega tóku við kynningardagar í skólanum sem voru algjörlega magnaðir. Kaupmannahafnarháskóli er risastór svo það voru mjög margir aðrir skiptinemar að byrja í sálfræði á sama tíma og ég, sem ég kynntist vel strax á kynningardögunum. Háskólinn býður upp á frábært mentora-prógram sem ég tók þátt í þar sem ég kynntist ennþá fleirum ogbetur.

           

Ég tók 3 áfanga úti sem voru 30 einingar samtals en þeir voru Social Psychological Theory, Feedback Informed Treatment og Intimate Relationships sem voru allir mjög áhugaverðir og jafngilda því fullu námi hérna heima. Eini áfanginn sem ég fékk metinn sem skyldufag var þó Social Psychological Theory sem ég fæ metinn fyrir félagssálfræði. Þar sem ég ákvað frekar seint að fara í skiptinám mun ég þurfa að seinka útskrift um eina önn og taka klíníska sálfræði á næstu önn. Ef ég hefði ákveðið fyrr að fara í skiptinámið hefði ég líklega getað raðað fyrri önnum öðruvísi upp til að ná að útskrifast á réttum tíma en mér fannst skiptinámið samt algjörlega þess virði til að seinka mér smá.

           

Skólinn úti var ótrúlega skemmtilegur og kennararnir voru allir frábærir. Félagslífið í kringum skólann var líka mjög gott. Til að mynda voru oft svokallaðir “torsdagsbar” sem og “fredagsbar” í  skólanum þar sem boðið var upp á ódýran bjór og annað áfengi og svo var dansað og haft gaman. Skólinn og allt í kringum hann var sett þannig upp að maður náði að kynnast sem flestum og hafði nægan tíma til þess að hafa gaman. Við fengum viku frí í október sem ég og þrjár vinkonur mínar lengdum aðeins og nýttum í að fara bæði til Amsterdam og Tyrklands sem var alveg frábært.

 

Á heildina litið voru þessir mánuðir mínir í skiptinámi í Kaupmannahöfn með þeim allra bestu sem ég hef átt þar sem ég eignaðist vini, minningar og ómetanlega reynslu til lífsstíðar svo ég get ekki annað en mælt með þessu fyrir hvern sem er.

Róshildur Arna Ólafsdóttir – nemi á þriðja ári í sálfræði við HÍ.