Árni Kristjánsson

Árni Kristjánsson, prófessor við sálfræðideildina upplýsti mig stuttlega um þau verkefni sem eru á dagskrá hjá honum þessa stundina.

Það er ansi margt í gangi. Ég hef verið með sex doktorsnema og þrjá nýdoktora og þeir eru allir í fullri vinnu við rannsóknir. Þær tengjast allar meira og minna sjónskynjun, en fyrst má kannski nefna rannsóknir okkar á athygli og augnhreyfingum. Við erum nýbúin að fjárfesta í nýju augnhreyfingatæki sem eykur möguleika okkar til muna þar. Síðan bjuggum við til verkefni á Ipad spjaldtölvu og erum að athuga söfnunarhegðun. Þetta tengist sjónleit en er aðeins víðfeðmara verkefni. Við erum að prófa það aðallega á fullorðnum en höfum samt líka prófað það á börnum og eitt planið er að sjá hvort að þetta geti orðið einhverskonar einfalt mælitæki fyrir vitsmunaþroska og stýrifærni barna. Síðan erum við einnig að skoða hvernig fólk skynjar breytileika í umhverfinu og hvernig fólk táknar dreifingu hluta eða hvernig hlutirnir dreifast í umhverfinu. Þetta er í rauninni hvernig við komum skikka á heiminn og snýst um

skynjunar skipulag. Ég hef líka verið í samstarfi við Andra Steinþór Björnsson og Ragnar Pétur Ólafsson og við höfum verið að skoða að þeir sem þjást af kvíðasjúkdómum, eins og til dæmis félagskvíða, virðast beina athyglinni að fólki sem sýnir neikvæð viðbrögð við því sem það er að gera í félagslegum aðstæðum. Það eru líka vísbendingar um það að þegar fólk með félagskvíða framkvæmir sjónverkefni þá fanga neikvæð andlit og merki frekar athygli þeirra heldur en annað og þetta hefur verið kölluð athyglisskekkja.  Það sem við erum að rannsaka er í fyrsta lagi hvernig þessi skekkja lýsir sér í allskonar sjónverkefnum og í öðru lagi erum við að reyna að þróa aðferðir til þess að hafa áhrif á þessa skekkju. Við höfum heimildir fyrir því að það séu til aðferðir til að hjálpa fólki til að beina athyglinni í burtu frá þessum neikvæðu áhrifum og þá getur það jafnvel haft bætandi áhrif á kvíðasjúkdóminn.

Það er augljóslega nóg á döfinni hjá þér, eru þetta allt styrktar rannsóknir?

Eins og staðan er núna er ég með fjóra RANNÍS styrki í gangi, og einn styrk frá Evrópusambandinu. Sá styrkur er fyrir verkefni þar sem við erum að hjálpa blindu fólki að “sjá” og er í samstarfi við verkfræðideild HÍ. Við erum að þróa búnað sem breytir upplýsingum frá myndavél sem fólk getur gengið með á höfðinu í hljóð- og snertiskilaboð. Við erum því að búa til

ákveðið tungumál sem gefur til kynna að til dæmis 10 metrum frá þér er eitthvað í veginum. Samkvæmt þessari hugmynd eiga blindir að geta gengið um og fengið upplýsingar frá þessum búnaði sem segir þeim hvort að það sé eitthvað hættulegt framundan. Þetta gefur þeim í rauninni ákveðna hugmynd um heiminn og þess vegna er þetta verkefni kallað „The Sound of Vision“.

Hvernig kom þetta verkefni upp á borðið hjá þér?

Þetta kom til í samtölum við fólk innan verkfræðideildarinnar. Þá kom í ljós að þeir hefðu hug á þessu og vantaði sérfræðing í sjónskynjun og taugavísindum almennt þannig það lá eiginlega bara beint við. Þeir komu og töluðu við mig um þetta og þannig byrjaði þetta. Það sem er kannski áhugavert er að sú þekking sem er til hér í Háskóla Íslands

á svona hlutum getur nýst í mörgu samhengi og auðvitað er svona verkefni þar sem verið er að beita þverfaglegu samstarfi gríðarlega mikilvægt fyrir sálfræðideild. Stundum sér fólk ekki fyrir sér hvað hægt sé að gera við þekkinguna, allavega í mínu fagi þegar það kemur að skynjunar og taugavísindum, en þetta er náttúrlega dæmi um það.