Jafnréttisdagar voru haldnir núna fyrr í vikunni en þeir hafa verið haldnir árlega frá árinu 2009. Á Jafnréttisdögum skapast tækifæri til að ræða ýmis málefni sem tengjast jafnrétti, bæði innan skólans og utan hans. Því settist ég niður með Aldísi Þorbjörgu Ólafsdóttur, sálfræðingi, kynlífsráðgjafa og kennara í áfanganum Hinseginleikinn í sálfræði og við ræddum um hennar líf, áfangann og hvernig hinseginleikinn og sálfræði fléttast saman.
Grasrótarstarfið og háskólinn
„Ég held einmitt mjög mikið upp á jafnréttisdaga, held einmitt að þegar ég var í grunnnáminu hafi verið að endurvekja þá, þeir eru einmitt svo mikilvægir upp á sýnileika hinsegin fólks í háskólanum.“ sagði Aldís þegar við ræddum aðeins um jafnréttisdaga og hennar bakgrunn.
Aldís kláraði BS námið og svo Cand.Psych námið í sálfræði og sagðist alla tíð hafa haft mikinn áhuga á hinsegin málefnum. „Verandi hinsegin manneskja sjálf, þá fór ég mjög mikið að starfa með hinsegin grasrótarhreyfingunni, sem hét þá FSS, félag samkynhneigðra stúdenta og varð svo félag samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans stúdenta og við síðan breyttum því yfir í Q, félag hinsegin stúdenta, bara allt á mjög stuttum tíma. Og já, svona í gegnum Q þá ferðaðist ég mikið erlendis og tók þátt í norrænu starfi hinsegin grasróta- og stúdentahreyfinga þannig að þessi ástríða mín á hinsegin málefnum kviknaði mjög mikið á meðan ég var í HÍ.“
„Og svo bara fer ég í gegnum mitt nám, og ég man að í almennunni þá var kannski svona ein blaðsíða já svona „by the way, hinsegin fólk er til. Heilarannsóknir á þeim…“ þannig að það vantaði svo ofboðslega alla fræðslu og verandi ekki með neinn endilega akademískan bakgrunn í þessu, annan en að lifa bara og hrærast og ferðast og hlusta á fólk, þá fann ég bara mjög fljótt eftir að ég kom út á vinnumarkaðinn að þetta var bara það sem vantaði. Þannig að ég bara fór að gera mig út fyrir það að vinna með hinsegin fólki, gerðist ráðgjafi hjá Samtökunum 78 og smátt og smátt þá fór þetta bara að rúlla. Ég hef ekki tekið neitt nám svona formlega sem tengist beint hinseginleika, þannig að mín þekking er aftur bara þessi grasrót.“
Kennsla og kynlífsráðgjöf
„Og svo fer ég bara í það að kenna og þá fer ég bara í gegnum það að vera að kenna hinseginleikann í sálfræði, það er í raun þá sem ég fer að fullum krafti ofan í akademíuna, fer að kynna mér kennslubækur og fer svolítið ofan í þetta út frá þeim vinkli.“
„Þannig að það er svolítið hvernig þetta þróast. Svo fer ég í diplómu nám í kynlífsráðgjöf, það hefur verið hinseginleikinn og svo kynlífsráðgjöf sem ég hef alltaf viljað vinna í tengslum við. Þannig að ég fer af stað í þá diplómu og þegar ég er búin með hana er ég soldið svona „ókei, hvað ætla ég að gera?“ og það var þá sem ég hafði samband við sálfræðideildina og sagði „ég get kennt hinseginleikann í sálfræði og ég get kennt kynlífsráðgjöf fyrir sálfræðinema” og þau voru tilbúin í hinseginleikann. Það gætu verið nokkur ár í kynlífsráðgjöfina en ég hef alveg trú á því að það komi á endanum.“
„Já, og svo er ég að koma inn í klíníska sálfræði í BS náminu. Þar hef ég verið að tala um óhefðbundið kynlíf og það er einmitt einn svona kafli þar sem það er allt sett saman í einn kafla; óhefðbundið kynlíf, fólk sem er trans, þú veist, það er svoldið svona bara öllu skellt saman. Þannig að ég hef svolítið verið að koma inn í þann tíma en svo hef ég líka komið aðeins inn í kynfræðina og þar ætla ég að kenna, aftur, óhefðbundið kynlíf og hinseginleikann. Þannig að ég er að koma soldið víða inn á þessi málefni“
„Hinseginleikinn á náttúrulega erindi alls staðar, ég er einmitt að fara í heilsugæsluna, og inn í fyrirtæki og víðar til að tala um hinseginleikann. Og margir eru bara eitthvað „eigum við ekki bara að vísa öllum þessum málum?“ og ég er bara eitthvað „af hverju? Af hverju erum við ekki bara öll með einhverja grunnþekkingu á hinsegin málefnum, þannig að þá getum við unnið með öll þau mál sem koma inn til okkar?“ Þannig að já, ég hef farið svoldið víða og held áfram að gera það, mér finnst bara svo gaman að fræða.“
Hinseginleikinn í sálfræði
Hinseginleikinn í sálfræði er fimm eininga námskeið í grunnnáminu og einungis 30 komast að. Þegar ég spurði hvernig nemendurnir sem væru í námskeiðinu væru hafði hún orð á því að þeir nemendur sem velja þetta námskeið væru ekki endilega þeir nemendur sem hefðu mesta þörf á námsskeiðinu. „Þetta er náttúrulega valfag þannig að fólk velur það sem það hefur áhuga á og ég finn það að þegar ég tek stöðuna í upphafi annar þá eru mörg þarna sem vita bara mjög mikið um hinseginleikann og önnur sem eru áhugasöm og opin en við erum ekki að fá þau sem vita hvað minnst og eru jafnvel með fordóma og við náum ekki til þeirra af því þau myndu aldrei skrá sig í þetta valfag.“
Þá spurði ég hvernig hún myndi reyna að lokka þá nemendur sem mest þurfa á fræðslunni að halda í námskeiðið. Hún svarar á þennan hátt:
„Ég held að ég myndi segja að eiginlega sama hvað þú ert að fara að gera eftir námið þá mun þetta gera þig hæfari og betri í starfi og að hafa þetta á ferilskrá gæti mögulega sett þig örlítið ofar heldur en einhvern sem er ekki með þetta. Ég veit einmitt að Reykjavíkurborg og mörg svona einkarekin fyrirtæki eru með mjög flotta jafnréttisáætlun og vilja gera rosalega vel í jafnréttismálum, að maður getur svolítið sýnt það í verki, verið bara svolítið „hey, ég er bara búin að setja mig svolítið inn í þetta, ég veit um hvað er verið að tala“ og það er svolítið bara þannig sem ég myndi reyna að nálgast fólkið, maður sker sig svolítið út úr hópnum með því að hafa þessa þekkingu.“
Hvað er það sem þú vilt að allir sálfræðinemendur viti um hinseginleikann?
„Ég vil kannski bara fyrst og fremst að allir sálfræðinemar hafi grunnþekkingu á hinseginleikanum, hugtökum, út á hvað þetta gengur og hvaða hópar þetta eru. Svo myndi ég vilja að öll myndu vita það að með því að auka okkar skilning þá getum við stutt betur hinsegin fólk sem gerir það strax að verkum að þeirra líðan breytist. Við getum haft svo bein áhrif á líðan hinsegin fólks eiginlega með því einu að við séum meira tilbúin að mæta þeim og skilja á einhvern hátt þeirra upplifun þannig að mér finnst þetta einmitt snúast svo mikið um fræðsluna. Við þurfum að geta veitt þennan stuðning, þó það sé bara inni hjá okkur, þá sama hvað við erum að vinna, það þarf ekki að vera klínísk sálfræði, en ef að þau sem fara í gegnum sálfræðinámið eru meðvituð um þetta þá held ég að við getum gert svo miklu betur í þjónustu við hinsegin fólk út um allt land. Það er nefnilega ekkert gaman að fara til tannlæknis og vera miskynjað, að fara í búðina og allt sem þú gerir, það er svo gott að við séum þá allavega meðvituð og hafa þessa þekkingu og við eigum að geta gert þetta.“
Heldurðu að það væri þörf fyrir hinseginleikann á háskólastigi ef hinseginfræðsla væri aukin á grunnskóla- og framhaldsskólastigi?
„Sko, ef þetta væri bara fastur liður, í gegnum aðalnámsskrá eða eitthvað svoleiðis sem þarf bara að tikka af þá kannski með tímanum væri minni þörf, en samt á sama tíma þá er þarna ákveðin þekking sem er alveg á háskóla ‘leveli’. En svo er hitt, það á að kenna kynfræðslu í öllum skólum en það er mjög mismunandi hvaða kynfræðslu fólk fær, hvernig hún lítur út, hver kennir hana, það skiptir máli að við séum öll með svolítið svipaðan grunn og við getum bara ekki tryggt það eins og staðan er núna.“
Og hvað ef fræðslan verður orðin alveg frábær á hinum skólastigunum?
„Það verður alltaf þörf á einhverri svona sér þekkingu sem hvílir meira í háskólanum.“
Ég vil þakka Aldísi fyrir að hafa viljað spjalla við mig í tilefni af jafnréttisvikunni og vil minna á að Hinseginleikinn í sálfræði er kenndur á haustönn ár hvert. Ég mæli því eindregið með því að kíkja í áfangann til hennar næsta haust, þið munuð ekki sjá eftir því.