Ég ætla að gera heiðarlega tilraun til að velta fyrir mér málefni sem hefur lengi verið í umræðunni innan vísindaheimsins og ýmsar mis ýktar skoðanir til staðar. Það er, rannsóknir á dýrum.
Verandi grænkeri, bíllaus, sniðgangandi dýragarða og alltaf að reyna hvað ég get sem einstaklingur að draga úr slæmri meðferð dýra og umhverfis er smá kaldhæðnislegt að rannsóknir á dýrum séu orðnar eins konar daglegt brauð hjá mér sem þriðja árs nema í sálfræði.
—
Thomas Gilovich talar um í bókinni Ertu viss?, sem við lásum í áfanganum Skýringar á hegðun, að það ætti ekki endilega að áfellast vísindamenn fyrir að nýta sér dýr til að afla þekkingar þegar raunin sé sú að miklu fleiri dýr verði fyrir slæmri meðferð vegna gæludýrahalds. Ég huggaði mig lengi vel við þessa skýringu, það væri jú réttara að vera bara sár út í allt fólkið sem fær sér dýr til þess eins að geyma það heima hjá sér og klappa því þegar hentar. Það séu örugglega miklu fleiri dýr sem koma illa út úr slæmum gæludýraeigendum en rannsóknum.
En er rétt að hugsa svona? Er réttlætanlegt að nota dýr í einu samhengi vegna þess að meðferð þeirra er verri í einhverju öðru samhengi? Þá getum við alveg eins hunsað gæludýraeigendurna og litið einungis á matvæla- eða skinnaiðnaðinn.
Það er vissulega mikil þekking sem er aðeins tilkomin vegna rannsókna á dýrum og aðeins möguleg að öðlast með dýratilraunum eins og tæknin er stödd í dag, á meðan maðurinn getur lifað heilbrigðu lífi án þess að neyta dýra eða afurða þeirra. Því er ekki svo auðvelt að gagnrýna dýratilraunir eins hart og annan iðnað sem byggir á tilgangslausri misnotkun á dýrum.
Er yfir höfuð rétt hjá manninum að notfæra sér aðrar tegundir sem ekki geta svarað fyrir sig? Hvar liggja mörkin? Finnst okkur í lagi að gera tilraunir á örverum og skordýrum, en of langt gengið þegar kemur að öðrum hryggdýrum? Eða hefur þetta með tengingu okkar við dýrin að gera og tilraunir á músum eða rottum í lagi en ekki á hundum eða köttum? Eru kannski heldur ekki skýr skil á því hvar sú tenging byrjar? Einhverjir tengja einfaldlega ekkert við dýr en sumir tengja sterkt við langflest dýr, bæði stór og smá.
—
Þær dýrategundir sem Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið nefnir í reglugerð sinni frá 2017 um vernd dýra sem notuð eru í tilraunaskyni eru nagdýr, kettir, hundar, apar, húsdýr, fuglar, froskdýr og fiskar. Mjög strangar reglur gilda um notkun þessara dýra við rannsóknir og kostar venjuleg umsókn um leyfi til dýratilrauna hjá Matvælastofnun rúmlega 70 þúsund krónur og miklar kröfur gerðar til ábyrgðamanna sem og starfsmanna slíkra rannsókna. Það er því ljóst að dýrarannsóknir eru ekkert spaug og alltaf skal beita öðrum úrræðum sé möguleiki á því. Rannsóknin verður alltaf að vera réttlætanleg, sú þekking sem hún skapar verður að vega þyngra en sú þjáning eða hætta sem felst í henni.
En hvernig getum við ákveðið hvort rannsókn sé í raun réttlætanleg? Er yfir höfuð réttlætanlegt að valda öðru dýri vanlíðan eða mögulegum skaða í þágu vísinda mannkyns?
Það er hamrað á okkur í náminu hve mikilvægt upplýst samþykki sé við framkvæmdir rannsókna, hér getið þið lesið nánar þær reglur sem gilda um upplýst samþykki þegar viðkvæmir hópar eiga í hlut. Af hverju fellur þetta úr gildi þegar um önnur dýr er að ræða? Yfirleitt hljóta þau engan hagnað af niðurstöðum rannsóknarinnar. Þau eru fædd í þennan heim í þeim tilgangi að vera tilraunadýr. Í raun væri aðeins hægt að réttlæta rannsóknir á þeim ef það skilaði niðurstöðum sem gögnuðust öðrum tilraunadýrum eða öðrum dýrum af sömu tegund, sem því miður er sjaldan raunin. Í þessu felst ekkert réttlæti. Ekkert samþykki.
Að sama skapi væri heldur skrítið að framkvæma tilraunir sem leggðu menn í hættu í þeim tilgangi að öðlast þekkingu sem gagnast öðrum mönnum. Það væri eins og að drepa einn mann því einhvern annan mann vantaði nýrun hans. Kannski væri þetta í lagi ef þekkingin sem skapaðist væri svo mikil að hún myndi gagnast fleiri mönnum en þeim sem var fórnað, til dæmis ef við fyndum lækningu á krabbameini. Þetta þætti líklegast siðlaust, enda líta fæst okkar nasista aðdáunaraugum þrátt fyrir þá læknisfræðilegu þekkingu sem varð til vegna tilrauna þeirra á mönnum. Við höfum nýtt þessa þekkingu vel en réttlætum alls ekki gjörðir þeirra með henni.
—
Ég nefndi áðan hve erfitt væri að draga mörk sem varða þær dýrategundir eða lífverur sem væri „í lagi“ að gera tilraunir á. Nú velti ég því fyrir mér hvers konar tilraunir eða rannsóknir séu „í lagi“. Er í lagi að gera einfaldar athuganir á dýrum? En er í lagi að setja dýr í ákveðnar aðstæður og fylgjast svo með því? Hvað ef þessar aðstæður fela í sér mögulega hættu eða óþægindi? En ef við erum viss um að dýr lifi inngripið af? Við gefum því bara róandi til að minnka hræðslu eða kvíða eftir á. Er það í lagi? Er í lagi að erfðabreyta dýrum í rannsóknarskyni? Hvað ef erfðabreyttu dýrin hafa það betra? Er í lagi að rækta dýr sérstaklega í þeim tilgangi að þau verði tilraunadýr? Hvað ef þau hafa það bara mjög gott og fá allt sem þau þurfa? Hvað ef þau þekkja hvort eð er ekkert annað? Eins og dýrin í dýragörðunum sem þekkja ekki annað og hafa það bara fínt. Myndum við hugsa eins um fólk sem fæðist í bágar aðstæður og þekkir ekki annað?
Við einfaldlega vitum ekki hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi. Vísindin réttlæta þetta oft með því að dýrin séu meðhöndluð með „mannúðlegum hætti“. Hvað þýðir það? Samkvæmt orðabók er mannúð það að sýna umhyggju fyrir öðrum. Sýnum við umhyggju með því að svæfa dýr eða deyfa það áður en við krukkum í heilanum á því?
Ég ákvað að skoða hvernig vísindaheimurinn fer að því að aflífa dýr með „mannúðlegum hætti“ og fann útlistun í reglugerð Atinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þar eru nefndar aðferðir eins og ofskömmtun svæfingarlyfs, koltvísýringur, rotun, afhausun, deyfing með rafstraumi og fleira, auk athugasemda um hvenær hver aðferð á best við. Ég veit ekki með ykkur en ef þetta fellur undir „mannúðlega“ meðferð þá ætla ég að leyfa mér að efast um þá umhyggju sem orðið „mannúð“ á að fela í sér.
Væri kannski betra að skipta út orðinu mannúð fyrir samúð (að finna til með öðrum). Finna frekar til með dýrunum og reyna að setja okkur spor þeirra. Samt ættum við erfitt með að setja okkur í slík spor. Við vitum það úr okkar mannlega heimi að við getum ekki vitað hvernig aðrir upplifa hann. Þegar reynslan er ekki til staðar þá reynum við gjarnan að hlusta bara og þegja, taka til okkar þær frásagnir sem berast og melta þær innra með okkur í stað þess að gagnrýna eða rökræða. En raunin er sú að dýrin geta ekki sagt frá sinni reynslu á sama hátt og við. Þó hafa mörg okkar haft kynni við dýr sem okkur fannst við virkilega tengjast. Við sem erum í kringum hunda reglulega könnumst við það að eigna hundinum ákveðnar hugsanir og tilfinningar, við skiljum hann.
“There are people who have the capacity to imagine themselves as someone else, there are people who have no such capacity (when the lack is extreme, we call them psychopaths), and there are people who have the capacity but choose not to exercise it.”
― J.M. Coetzee, The Lives of Animals
Í lærdómsritinu Dýralíf eftir John Maxwell Coetzee lýsir mannfræðingurinn Barbara Smuts áralangri reynslu sinni af því að umgangast bavíana. Hún eyddi löngum stundum ein með dýrum sem hún vísar í sem persónur í bókinni, þó „persónur“ sé iðulega bara notað yfir mannfólk, líkt og „persónuleg tengsl“ vísar til tengsla milli manna frekar en manna og dýra. Hún blandaði sér í hóp górilla í fjöllum Mið-Ameríku, simpansa í klettóttum fjallshlíðum Vestur-Tansaníu, bavíana á grassléttum Keníu og höfrunga í Hákarlaflóa í þeim tilgangi að afla upplýsinga um lif dýranna. Þau tóku henni alltaf fljótt sem gildum ferðafélaga og kipptu sér ekkert upp við viðveru hennar, voru frekar forvitin ef eitthvað.
Barbara treysti dýrunum og segir frá ferðum sínum með bavíönum þar sem þeir leiddu ferðina og hún reiddi sig á næmni þeirra til að forðast vísunda, eitursnáka og fleira hættulegt. Hún lærði samskiptamynstur bavíananna og fór að þekkja hvern og einn þeirra sem einstaka persónu. Þeir háttuðu líka samskiptum sínum við hana á sinn einstaklingsbundna hátt. Eitt sinn kom einn unglingurinn upp að henni og tók í hönd hennar til þess að skoða neglurnar á henni nánar. Annað skipti var Barbara að slaka á með kvendýrum í hópi górilla á meðan karlarnir slógust og þá stóð ein þeirra upp, gekk að henni og knúsaði hana.
Einhverjum árum seinna heimsótti Barbara þennan sama hóp og þeir þekktu hana sem einstakling þó þeir væru varir um sig gagnvart hinum vísindamanninum sem var með í för.
Þessi frásögn gefur okkur margt að hugsa um, kannski gætu dýr eftir allt átt sinn mennska túlk sem ber þeirra hagsmuni í brjósti sér. Svo ég haldi áfram umfjölluninni um tilraunir á dýrum þá finnst mér viðeigandi að velta fyrir mér þeirri þversögn að við gerum tilraunir á öpum vegna þess að þeir eru svo líkir okkur, á meðan persónuleg tengsl okkar við dýr sjást eflaust best milli manns og apa einmitt vegna sömu líkinda.
Makak-apar (macaques) er sú tegund sem er mest notuð við rannsóknir en þar á eftir koma meðal annars górillur, bavíanar og simpansar. Ómennskir prímatar (nonhuman primates) þykja einstaklega nauðsynlegir þegar kemur að rannsóknum á heilanum, alnæmi, fíkn, öldrunarsjúkdómum eða öðru slíku þar sem heili þeirra, geta og skynferli eru svo lík okkar eigin. Það dregur enginn í efa mikilvægi þess að auka þekkingu okkar á fyrirbærum sem þessum og eflaust eru allar rannsóknir samþykktar sem munu skila slíkum ávinningi, þó nota þurfi til þess önnur dýr.
Við mennirnir notum ógrynni annarra dýra ár hvert í rannsóknum okkar, og þá er ekki átt við ævintýralega leiðangra með górillum í fjöllum Mið-Ameríku heldur alls konar mis náttúrulegar rannsóknir sem margar hverjar fela í sér skaða eða dauða. Árið 2017 voru 74.498 ómennskir prímatar notaðir við rannsóknir í Bandaríkjunum og miklu fleiri nagdýr eru notuð ár hvert. Búist er við að þessi tala hækki bara með árunum.
Ég skil ósköp vel að vísindamenn skuli freistast til þess að grípa til dýratilrauna meðan tæknin býður ekki upp á betri valkosti. En sem betur fer er tæknin í sífelldri þróun og vonandi ekki langt þar til við getum stöðvað slíkan iðnað. Svo er spurning hvort þekkingin sem við erum að afla okkur í dag sé í raun nógu mikilvæg til að fórna dýri í hennar tilgangi? Vitum við kannski nóg í bili til að bjarga okkur án hennar þar til betri tæknibúnaður hefur fæðst? Því miður ganga vísindin einna helst út á það í dag að birta sem flestar greinar, frekar en raunverulegt gagnsemi innihaldsins. Það er mikilvægt að láta vísindaáhugann ekki blinda okkur algjörlega og líta reglulega í eigin barm, athuga með gagnrýnum augum þá menningu sem við tilheyrum og þá hegðun sem við höfum vanist.
—
Ekki er hægt að koma fyrir tæmandi lista af atriðum sem mætti bæta í rannsóknum, hvað finnst þér mega bæta? Láttu heyra í þér á Instagram eða Facebook.
Þessi grein er hluti af Jafnréttisdögum Sálu, tímarits Sálfræðinema. Jafnréttisdagar Háskóla Íslands hafa verið haldnir árlega síðan 2009. Hugmyndin með Jafnréttisdögum er að þeir hjálpi til við að skapa umræðu um jafnréttismál og að gera þau sýnileg innan skólans sem utan.