Alþjóðleg tækifæri eru gulls ígildi, sérstaklega í námi og starfi. Eitt besta tækifærið sem stendur nemendum til boða er að fara í skiptinám á vegum HÍ. Skólinn er í samstarfi við marga af fremstu háskólum heims og nemendum býðst að upplifa dvöl erlendis án þess að verða gjörsamlega gjaldþrota. Að sækja sér skiptinám er bæði dýrmæt lífsreynsla en getur einnig komið að gagni við umsóknir um framhaldsnám og gæti látið þína starfsumsókn skara fram úr. Það er þó ekki ókeypis að fara í skiptinám, hvorki í peningum talið né vinnu. Hér ætlum við að renna yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga viljir þú skella þér í skiptinám í sálfræðinni og svara þeim spurningum sem okkur bárust um efnið í gegnum Instagram.
Byrjið á því að undirbúa ykkur vel.
Hvert mynduð þið vilja fara? Veljið nokkra skóla sem kæmu til greina. Sálfræðideild HÍ er með beina samninga við tvo háskóla: Oslo Metropolitan University og University of Padua. Nemendur hafa þó farið í skiptinám í aðra skóla með samþykki deildarinnar eins og t.d. Vrije University of Amsterdam, University of Sussex, University of Gothenburg, Uppsala University og Oslo University. Hvert og eitt verður að meta það fyrir sig hvaða skóla þeim líst best á með tilliti til áhugasviðs nemanda. Ef þið hafið áhuga á einhverjum skóla, spurjið bara hvort hann komi til greina. Allar líkur eru á því að svo sé.
Hverjar eru kröfurnar fyrir skólana? Flestir enskumælandi skólar krefjast enskuprófs en hægt er að skoða það betur í þessum gagnagrunni. Þið þurfið að taka þetta próf tímalega svo þið getið sýnt skólanum sem þið sækið um að þið hafið náð prófinu með viðeigandi einkunn. Námið gæti verið á ensku eða ekki í þeim löndum sem hafa ekki ensku að móðurmáli, athugið námsframboðið í skólunum sem þið hafið áhuga á. Mismunandi er á milli skólanna hver inntökuskilyrðin eru, til dæmis varðandi meðaleinkunn, þannig að þið skulið kynna ykkur þau.
Misjafnt er á milli námsleiða hvenær sé best að fara í skiptinám. Til dæmis geta læknanemar erfiðlega komið sér í skiptinám nema um rannsóknarverkefni sé að ræða en í sálfræði er hægt að fara eftir að hafa lokið 60 ECTS. Best er að fara út í eina önn og taka þar áfanga sem eru þá metnir sem val. Ef þið viljið vera úti í heilt ár þarf að taka áfanga sem eru sambærilegir og geta komið í staðinn fyrir skylduáfangana. Við mælum þó alltaf með því að reyna að taka í það minnsta einn áfanga sem er svipaður skylduáfanga í HÍ.
Eftir að þið hafið ákveðið hvaða skólum þið hafið áhuga á er mikilvægt að skoða námskeiðin sem eru þar í boði og setja saman námið þannig að önnin sé fullt nám (30 ECTS). Ef þið hafið spurningar út í námskeiðsvalið er best að heyra í Sálfræðideild og spurja hvort það gangi upp. Við tekur ferli á milli ykkar og deildarinnar til þess að skera úr um hvort áfangarnir séu sambærilegir sín á milli. Ekki hafa áhyggjur, deildin hefur reynst nemendum mjög hjálpleg í þessu ferli og er öll af vilja gerð!
Allt bendir til þess að skiptinám í sálfræði myndi þó seinka útskrift um að minnsta kosti eina önn þar sem ólíklegt er að þið finnið skóla með nákvæmlega sömu önn og þá önn sem þú værir að missa af í HÍ.
Nú hafið þið undirbúið ykkur, hvað þá?
Skrifstofa alþjóðasamskipta er með umsóknarfrest um skiptinám til 1. febrúar á hverju ári (eða næsta virka dag eftir það). Athugið að skriflegt samþykki deildar þarf að fylgja umsókninni. Nýtt skjal fyrir slíka undirskrift má alltaf nálgast hjá Skrifstofu alþjóðasamskipta. Einnig þurfið þið að skanna inn námsferilsyfirlit á ensku og láta fylgja með. Ef þið tókuð tungumálapróf er þetta staðurinn þar sem þið skilið þeirri einkunn inn.
Skrifstofan fer síðan yfir allar umsóknir og lætur vita hvort umsóknin ykkar hafi verið samþykkt. Þá er tilkynnt hvaða skóla ykkur var úthlutað. Ekki öll fá skólann sem var í 1. sæti og þess vegna er mikilvægt að vera sáttur við 2. og 3. valið sitt. Þið fáið síðan leiðbeiningar um umsóknina í skólann sjálfan. Því sannleikurinn er sá að skólinn úti á eftir að gefa ykkur grænt ljós. Þið þurfið að muna að sækja um skólann fyrir umsóknafrest.
Í þessari umferð getið þið verið beðin um alls kyns gögn og umsóknir en ekki láta þetta ferli verða ykkur ofviða. Skrifstofa alþjóðasamskipta hefur mjög gott orðspor á sér í samskiptum við nemendur. Nemendur hafa fengið svör fljótt og örugglega við öllum spurningum heimsins. Þetta er bókstaflega vinnan þeirra og þau sinna henni af glæsibrag. Það er öruggt að þú ert ekki fyrsti sálfræðineminn í vanda með ferlið og þau vita jafn mikið og þið að þið eruð bara spennt að komast út í nám!
Eins og sjá má kostar þetta ágætis vinnu og líkur eru á því að þið þurfið fína meðaleinkunn. En hvað kostar þetta mikið í krónum talið? Sem betur fer erum við svo heppin að þetta ætti almennt ekki að kosta jafn mikið og hefðbundið nám í skólum erlendis en þó er þetta ekki ókeypis.
Ekki þarf að borga skólagjöld við skólann sem verður fyrir valinu en eins og öll önnur árin í HÍ þarf að greiða hið árlega skráningargjald. Aðalkostnaðurinn við skiptinám er ferðalagið og dvölin (húsnæði, fæði o.fl.). Sumir gestaskólar eru með stúdentahúsnæði og þá væri leigan töluvert lægri en á almennum leigumarkaði en hægt er að skoða leiguverð fyrir þinn áfangastað hjá Housing Anywhere. Hægt er að sækja um allskyns styrki eftir því hvert förinni er heitið. Eitt dæmi um styrkveitingu er nemandi sem fékk 3.816 evrur (590.000 kr.) fyrir 4 mánuði. Megnið af því færi í húsnæði og rest í fæði og almennt uppihald. En ef það er eitthvað sem háskólanemar kunna best þá er það að lifa af nánast ómannúðlegum upphæðum á mánuði og mastera eldamennsku á núðlum. Það væri jafnvel auðveldara í útlöndum þar sem matvöruverð er mun lægra en hér. Svo eru dæmi um að styrkir taki mið af því hversu dýrt landið er en ekki treysta alfarið á það. Ef peningar eru af skornum skammti er kannski skynsamlegast að hafa það í hugsa hversu dýrt það er að vera í landinu. Auðvitað er líka mjög skynsamlegt að safna sér upp sjóði svo að þið getið notið þess aðeins meira að vera úti og ef eitthvað kemur upp á. Hægt er að taka námslán fyrir skiptinámi ef önnur úrræði henta ekki.
Svo minnum við á að passa að vegabréfið ykkar sé í gildi, að þið hafið dvalarleyfi í landinu og séuð með sjúkratryggingu ef það á við.
Að lokum er mikilvægt að líta á þetta sem einstakt tækifæri sem við hvetjum öll til að grípa ef þið eigið tök á því. Það er rómantísk tilhugsun að búa í útlöndum, sötra kaffi á kaffihúsi sem lókallinn stundar og spóka sig í góðu veðri að vori til. Þið víkkið sjóndeildarhringinn, öðlist nýja reynslu, kynnist fólki sem þið hefðuð annars ekki kynnst og kannski finnið þið skólann sem þið viljið stunda framhaldsnám við. Háskóli Íslands stendur fyrir Alþjóðadögum 4. – 6. nóvember og eru þeir með öllu móti rafrænir í ár. Við hvetjum ykkur til að kíkja betur á dagskrána hér.
Þessi leiðarvísir er unninn upp úr upplýsingum frá skrifstofu alþjóðasamskipta og reynslu nemenda sem hafa farið í skiptinám, ef þið eruð að velta einhverju fyrir ykkur sem ekki kemur fram hér sendiði endilega skilaboð á skrifstofu alþjóðasamskipta.