Þá er önnin er komin hressilega í gang á meðan við göngum um gólf fyrir Þórólf. Þið finnið það eflaust að núna er námið hafið fyrir alvöru og skilafrestir og próf nálgast óðfluga. Hvernig á maður að komast í gegnum fyrsta árið í sálfræði með heimsfaraldur andandi ofan í hálsmálið á manni?
Fyrr í vikunni fengum við spurningar frá nýnemum og ráðleggingar frá eldri nemendum á instagramminu okkar. Við höfum kafað varlega í gegnum ykkar ráð og ráðaleysi og örvæntið ekki, nú fáið þið svör. Þið fáið skotheld ráð sem við lofum að eru á góðum grunni reist og munu hjálpa ykkur að komast í gegnum þessa önn og þær sem á eftir koma.
Hjálp! Hvernig á ég að læra allt þetta efni?
1. Leshópur, leshópur, leshópur.
Nú kannast allir við þá tilfinningu að sitja eitt fyrir framan tölvuskjáinn heima hjá sér og bara skilja ekki neitt. Um leið og þið farið að ræða efnið við aðra, mun það sem var áður algjör steypa allt í einu liggja ljóst fyrir. Ef það er eitthvað sem þið ættuð að tileinka ykkur frá þessari grein, þá er það þetta.
Komið ykkur í leshóp!
Þegar allt er í fjarnámi er auðvitað erfiðara að finna sér hóp til að læra með, en afhverju ekki að skella sér á zoom? Ef ykkur vantar félaga til að læra með, skrifið innleg á fyrsta árs sálfræði grúppuna á Facebook eða sendið skilaboð á Animu ef þið eruð smá feimin. Við erum til staðar og við munum hjálpa ykkur.
2. Kennarar gefa vísbendingar
Hvernig eigið þið að komast að aðaláherslum fyrir próf þegar þið þurfið að lesa svona gífurlegt magn af lesefni? Best er að virkilega hlusta á kennarana í tíma. Þeir gefa oftar en ekki góðar vísbendingar um hvað verði til prófs. Þeir vilja kannski halda að þeir séu voða lúmskir en það er ekki erfitt að sjá hvar fókusinn þeirra liggur ef maður hlustar. Ekki bara liggja uppi í rúmi hálfsofandi, ennþá í náttfötunum að skrolla í gegnum tik tok. Farðu í föt, sestu við borðið, fáðu þér kaffibolla og símann ofan í skúffu! Lesið þessa grein ef þið viljið fleiri ráð varðandi það að læra heima fyrir.
3. Samantekt aftast í bókarköflum
Ókei þið hlustuðuð á kennarann og eruð engu nær. Hvað er til ráða? Kennslubækurnar ykkar eru oftast með samantekt eða summary aftast í hverjum kafla. Lesið vandlega yfir þessar samantektir og passið að þið þekkið vel öll atriðin sem koma þar fram.
4. Prófið ykkur upp úr efninu. Í alvöru.
Þið hafið örugglega heyrt þetta frá kennurum nú þegar en allar helstu rannsóknir sýna að það að prófa sig upp úr námsefni er skilvirkasta leiðin til að læra. Við höfum mikla samúð með ykkur sem eruð harðir glósarar en skorum á ykkur að bæta þessari námstækni við vopnabúrið.
Almenn Sálfræði: Sem betur fer er risastór prófabanki til fyrir bókina ykkar í Almennunni sem margir sverja að hafi verið sín lífsbjörg í þeim áfanga. Þið kaupið kóða fyrir það í bóksölu stúdenta (Connect McGraw Hill).
Aðferðafræði: Til er lítill prófabanki á netinu úr bókinni sem er notuð í Aðferðafræði, hann er kannski smár en hann er knár og gæti gagnast ykkur vel.
Tölfræði: Tölfræðibókin ykkar er stútfull af dæmum til að spreyta sig á og vilji maður reikna dæmi á íslensku er auðveldlega hægt að finna leiðir til þess.
Skýringar á hegðun: Námsefnið í Skýringar á Hegðun er algjörlega samið af Sigurði J. Grétarsyni og hann hefur ekki skrifað prófbanka.
Þegar maður hefur ekki aðgang að spurningum er hægt að semja sínar eigin. Þá getur maður nýtt sér vefsíður eins og Quizlet. Ef þið eruð í tímaþröng hafa margir eldri nemendur einnig útbúið Quizlet spjöld upp úr flestum áföngum sem snögg google leit ætti að vísa ykkur á.
Auðvitað er samt besta ráðið að hittast saman í leshóp og prófa hvort annað upp úr efninu. Það er mun skemmtilegra og eftirminnilegra að gera þetta með öðrum. Heyrst hefur einnig að löng kvöld keyrð áfram af Monster og góðum félögum hafi bjargað mörgum korter í próf.
5. Leyfið vélmennum að lesa bækurnar fyrir ykkur
Þið hafið eflaust rekið ykkur á það að nær ómögulegt er að gefa sér tíma til að lesa fyrir alla áfangana sem maður er að taka, án þess að færa fórnir á öðrum sviðum, t.d. tiltekt, uppvaski, matargerð og hreyfingu. Náið þið að venjast því að vélmenni lesi fyrir ykkur, þá getið þið gert alla þessa hluti sem þið hafið verið að fresta á meðan þið lærið. Hrein og tær snilld!
Fyrir Almenna Sálfræði er netbók með innbyggðum róbotta sem les fyrir ykkur, en fyrir aðrar bækur getið þið downloadað extension við chrome sem heitir Read Aloud sem getur lesið af pdf skjölum og öðrum linkum í chrome.
Nú hafið þið tíma til að útbúa eitthvað annað en yumyum núðlur í matinn.
Sían ógurlega…
6. Er ég að fara að falla?
Þetta er það sem veldur ykkur nýnemum kannski hvað mestu hugarangri. Það er þessi blessaða sía. Margar sögur í gangi um hvað sían sé erfið og hversu há fallprósentan sé, ýtir undir kvíða hjá mörgum. Höfum bara staðreyndirnar á hreinu.
Það eru ca. 30% sem komast ekki áfram eftir fyrstu önnina (byggt á tölum frá 2019), en um helmingur þeirra mætti ekki í lokaprófið. Þannig að þá var í mesta lagi 15% fall.
Auðvitað eru tilfelli þar sem nemendur hafi lagt sig fram en samt fallið, en flestir sem eru samviskusamir í náminu eru ekki að falla. Besta ráð okkar eldri nemenda til ykkar er bara að hugsa ekki um síuna, einbeitið ykkur að náminu og þá eru litlar líkur á því að þið komist ekki í gegn.
7. En hvað með tölfræði?
Mesta fallið er í tölfræði, það er alveg satt. Margt mætti gagnrýna í fari tölfræðináms við sálfræðideildina (það er efni í aðra grein fyrir sig) en það er margt sem er til ráða.
Í fyrsta lagi að spyrja kennarann. Núna með fjarnámi er ennþá minna vandræðalegt að spyrja spurninga, skrifar þær bara á Canvas og getur roðnað niður í tær án þess að neinn sjái til þín.
Í öðru lagi er það sorgleg staðreynd að fyrir marga nemendur er námsefni áfangans ekki nógu upplýsandi til að ná tökum á efninu. Þeir sem hafa efni á, nýta sér aðstoð aukakennara utan háskólans. Þá er hægt að fara í aukatíma þurfi maður mikla aðstoð, sem getur samt verið kostnaðarsamt. Þá er einnig hægt að nálgast tilbúin hefti sem eru með dæmi til að spreyta sig á fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með að skilja dæmin í bókinni.
Í þriðja lagi er hægt að læra efnið upp á eigin spýtur með hjálp internetsins. Youtube síður eins og þessi eða vefsíður eins og þessi geta hjálpað til.
Í fjórða lagi myndum við segja að námsfélagi (study buddy) eða leshópar komi einstaklega sterkir inn fyrir tölfræðina. Munið að þið eruð ekki ein í þessu og hjálpist að.
8. Hvað gerist ef ég fell?
Ef þú fellur, ekki fríka út! Það sem gerist er að þú færð ekki að halda áfram innan sálfræðideilarinnar á næstu önn. Þú mátt samt halda áfram í háskólanámi en þarft að taka áfanga hjá öðrum deildum. Þú getur t.d. kannað heimspeki, félagsfræði, tölvunarfræði, afbrotafræði og mannauðsstjórnun til að nefna eitthvað. Þú þarft samt að vanda val á áföngum viljir þú fá þá metna sem valáfanga á þínum námsferli. Þegar næsta haustönn tekur við þarftu bara að taka aftur þá áfanga sem þú féllst í, en sían er vissulega þannig að þú þarft að fá 6,0 í meðaleinkunn. Svo það getur borgað sig að taka ekki bara aftur þá áfanga sem þú féllst í, ef þú vilt hækka meðaleinkunnina þína. Annars mælum við með að tala við námsráðgjafa skólans eða sálfræðideildina viljir þú frekari ráðgjöf varðandi þessar ákvarðanir.
Fyrst og fremst viljum við segja; Það er allt í lagi að falla og það segir ekkert um þig sem manneskju!
Ég er komin í þrot, hvað er til ráða?
9. Hættu að læra!
Það gengur ekki að vera í svona krefjandi námi ef þú passar ekki upp á andlegu heilsuna. Ef þú ert komin á vegg varðandi námsefnið. Farðu að gera eitthvað annað. Passaðu samt að fara ekki bara í símann eða horfa á netflix. Talaðu við fólk, eldaðu gúrme máltíð, hreyfðu þig, gerðu eitthvað skapandi eða farðu út í náttúruna og náðu jarðtengingu.
10. Ekki gleyma lífinu!
Það er skiljanlegt að finna fyrir stressi og vilja standa sig vel í náminu. Ef þú fórnar smá af námstímanum til að eyða tíma með fólkinu þínu og eiga gæðastundir með sjálfum þér, munt þú sjá eftir því? Þegar þú ert á elliheimilinu, munt þú hugsa um að þú hefðir nú getað hækkað einkunnina í aðferðafræði um 0.5, hefðir þú lært aðeins meira eða munt þú hlýja þér við minningar af vinum og fjölskyldu og jafnvel glotta yfir ástarævintýrum háskólaáranna? Ekki gleyma stóra samhenginu. Taktu nokkur skref til baka og andaðu djúpt.
11. Er þetta þess virði?
Fyrsta önnin er erfið. Þið hafið flest ekki verið í háskólanámi áður, það er mikil keyrsla í náminu, vitneskjan um síuna skapar auka pressu, auk þess sem þið byrjið í krefjandi háskólanámi í miðjum heimsfaraldri. Þetta er meira en að segja það.
Það verða rólegar annir og erfiðar annir. Það verða skemmtilegir áfangar og leiðinlegir áfangar. Þetta verður auðveldara og við viljum stappa í ykkur stálinu og hvetja ykkur til að gefast ekki upp, en ef vanlíðan er orðin mikil þá verðið þið að finna innra með ykkur hvort þetta nám sé rétt ákvörðun fyrir ykkur núna. Sumir skipta um nám eða finna önnur áhugasvið, aðrir þurfa að taka pásu til að einblína á aðra hluti og taka svo upp þráðinn seinna. Allt er þetta í góðu lagi og þið eruð alls ekki ein ef ykkur líður illa.
Að lokum
Að ári liðnu munið þið gefa nýnemum nákvæmlega þau sömu ráð og þið fenguð í þessari grein, vitið til. Þið eruð ekki ein í þessu, leitið til samnemenda eftir aðstoð og standið saman.
Það skiptir miklu meira máli en ykkur grunar að tengjast öðru fólki í náminu. Verið dugleg að mæta á viðburði hjá Animu þegar covid leyfir, þá er allt bara svo margfalt skemmtilegra. Þangað til við fáum að hittast öll saman í vísó, mætið þá á zoom spilakvöld hjá Animu!
Lífið er hér og nú krakkar mínir, munið að njóta!