Meistaranám í hagnýtri sálfræði

Ný leið í boði

Þann 15. apríl næstkomandi rennur út frestur til þess að sækja um meistaranám í hagnýtri sálfræði. Þetta verður í fyrsta sinn sem boðið verður upp á slíkt nám hér á landi. Námið er hugsað sem vettvangur fyrir þá nemendur sem hyggja á framhaldsnám í sálfræði hérlendis en hafa ekki hug á að starfa í klínísku umhverfi. Námið verður ríkulega tengt við atvinnulífið og mun veita sterkan grunn undir doktorsnám. Boðið verður upp á þrjú kjörsvið a) skólar og þroski b) heilsa og samfélag og c) megindleg sálfræði. Fimmtán nemendur komast inn í námið að þessu sinni og deildin hlakkar mikið til að taka á móti umsóknum.

Hér að neðan má sjá nánar út á hvað námið gengur, hverjar aðgangskröfurnar eru og fleira hagnýtt!

Meistaranám í hagnýtri sálfræði!

Þann 15. apríl næstkomandi rennur út frestur til þess að sækja um meistaranám í hagnýtri sálfræði. Þetta verður í fyrsta sinn sem boðið verður upp á slíkt nám hér á landi. Námið er hugsað sem vettvangur fyrir þá nemendur sem hyggja á framhaldsnám í sálfræði hérlendis en hafa ekki hug á að starfa í klínísku umhverfi.

Markmið og uppbygging námsins

Megin markmið námsleiðarinnar er að a) dýpka skilning nemenda á sálfræðilegum úrlausnarefnum, kenningum og aðferðum, b) efla hæfni þeirra og færni til þess að takast á við sálfræðileg úrlausnarefni á ólíkum starfsvettvangi, en einnig c) veita traustan þekkingar- og aðferðafræðilegan grunn undir doktorsnám.

Námið er tveggja ára fullt nám, sem skiptist í 120 einingar. Ekki er mælt með því að nemendur vinni með þessu námi, enda verður það mjög krefjandi. Nemendur geta, í samráði við leiðbeinanda, valið um að skrifa ýmist 60 eða 30 eininga lokaverkefni, allt eftir umfangi rannsóknarhugmyndar. Þeim sem ljúka 30 ects verkefnum stendur til boða að fara í fleiri valnámskeið og starfsþjálfun á 3. misseri. Kennsla mun fara fram á íslensku að mestu leyti, en vera má að erlendir kennarar kíki í heimsókn.

Enn sem komið er mun námið ekki veita réttindi til að nota starfsheitið sálfræðingur sbr. núgildandi reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi.

Þörf fyrir námsleið

Mikil þörf er á meistaranámi í sálfræði sem nýtist við fjölbreytt störf innan menntakerfisins, stjórnsýslunnar, fyrirtækja og stofnana sem reiða sig á gagnreynda þekkingu, þróun, úrvinnslu og notkun megindlegra gagna og annarra hagnýtra upplýsinga.

Kjörsviðin þrjú

Námsleiðin inniheldur sameiginlegan kjarna og námskeið af kjörsviði, en hver nemandi velur strax í umsóknarferlinu á hvaða sviði hann vill sérhæfa sig. Í kjarnanámskeiðum verður fjallað um notkun sálfræðilegra mælinga, sem og helstu tölfræðiaðferða sem mikilvægt er að kunna nú til dags. Í kjörsviðsnámskeiðum og valnámskeiðum dýpkar svo nemandinn þekkingu sína á tilteknu rannsóknar- og starfssviði og þjálfar sig í að beita kenningum og aðferðum sem undir það heyra.

Þau kjörsvið sem standa til boða að svo stöddu eru þrjú, en áform eru um að fjölga kjörsviðum á næstu árum, ef vel tekst til. Kjörsviðin eru a) skólar og þroski b) heilsa og samfélag og c) megindleg sálfræði.

Skólar og þroski

Markmið kjörsviðsins skólar og þroski er að fylgja eftir brýnni þörf innan skólakerfisins fyrir fjölbreytta og hagnýta sálfræðiþekkingu og fólk sem hefur sérþekkingu á og getur beitt kenningum og aðferðum snemmtækrar íhlutunar í vinnu með börnum sem þurfa sérstakan stuðning í námi. Megin áherslan verður lögð á að mennta fagfólk sem getur:

a) Veitt ráðgjöf, stuðning og eftirfylgd við nemendur, kennara og foreldra á sviði:

  • Námsörðugleika og þroskafrávika
  • Hegðunar- og tilfinningavanda
  • Áhættuþátta sem tengjast málþróun og læsi

b) Metið stöðu og framvindu í námi og þroska einstakra barna, sem og hópa (bekkja, árganga)

c) Veitt kennurum, foreldurum og öðrum sem koma að menntun og uppeldi barna fræðslu og símenntun um gagnreyndar aðferðir og snemmtæka íhlutun á ofangreindum sviðum

Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt að sérhæfð og vönduð vinnubrögð með gagnreyndum aðferðum geta skipt sköpum varðandi framtíðarhorfur barna með sérþarfir, en mikill skortur hefur verið á fagmenntun á þessu sviði. Nýlegar niðurstöður hafa leitt til mikillar vitundarvakningar um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og markvissrar kennslu á sviði máls og læsis bæði í leik- og grunnskólum. Mögulegur starfsvettvangur þeirra sem útskrifast af þessu kjörsviði eru ýmsar stofnanir ríkis og sveitarfélaga sem fara með stefnumótun innan menntakerfisins, þjónustumiðstöðvar, skólar og leikskólar.

Samfélag og heilsa

Markmið kjörsviðsins er að veita nemendum þekkingu á hagnýtum – og grunnrannsóknum á sviði samfélags-, félags- og heilsusálfræði. Á kjörsviðinu verður markvisst fjallað um mörg mest aðkallandi viðfangsefni nútímans svo sem loftslagsvanda, lífsstílssjúkdóma og fjölmenningarsamfélög og samheldni í samfélögum.

Nemendur munu taka kjarnanámskeið sem veita þeim góðan undirbúning undir hverskyns rannsóknarvinnu. Námskeið bundin kjörsviðinu munu fjalla um hvernig nýta má kenningar og niðurstöður rannsókna til að skilja og leysa raunveruleg samfélagsvandamál og viðfangsefni. Áhersla verður lögð á að mennta fagfólk sem getur unnið við ráðgjöf og rannsóknir í stjórnsýslu, svo sem í ráðuneytum, sveitarfélögum og í opinberum stofnunum þar sem mikil þörf er fyrir fólk með þekkingu á þessum sviðum.

Mikil áhersla verður lögð á að nemendur afli sér þverfaglegrar þekkingar og sæki valnámskeið utan Sálfræðideildar

Megindleg sálfræði

Markmið kjörsviðsins megindleg sálfræði er að veita nemendum þjálfun á sviði sálmælinga, aðferðafræði og gagnagreiningar. Viðfangsefni megindlegrar sálfræði eru í meginatriðum þríþætt:  Sálmælingar, hönnun sálfræðilegra rannsókna og greining sálfræðilegra gagna.  Sálfræðingar innan megindlegrar sálfræði geta sérhæft sig í þróun og mati sálfræðilegra prófa, kvarða, og spurningalista, í gagnaöflunaraðferðum, í tilraunasniðum og hönnun rannsókna eða í tölfræðilegri greiningu gagna.

Þörf fyrir fólk með sérhæfingu á þessu sviði er mikil. Þetta á við um rannsóknastofnanir og rannsóknahópa háskólanna en ekki síður opinberar stofnanir sem sinna stefnumótun til dæmis á sviði heilbrigðismála og menntamála og um einkafyrirtæki sem sinna rannsóknum eins og markaðsrannsóknum og starfsmannarannsóknum.

Menntavísindastofnun, tölfræðiráðgjöf á Heilbrigðisvísindasviði og fleiri hafa sýnt áhuga á því að fá nemendur af þessu kjörsviði í starfsþjálfun.

Aðgangskröfur

Aðgangskröfur eru svipaðar og fyrir Cand.Psych. námið. Við munum gera kröfu um fyrstu einkunn upp úr grunnnámi, en ef fólk er nálægt því og hefur rannsóknar- eða starfsreynslu sem vegur upp á móti, skal það óhrætt senda inn umsókn og sjá hvað setur. Við munum gera kröfu um að nemendur hafi lokið sálfræði sem aðalfagi (120 ECTS) í grunnnámi. Þannig er aukafag (60 ects) ekki hindrun, getur jafnvel verið kostur, ef nemanda tekst að sýna fram á í umsókn sinni hvernig aukafagið nýtist. Fjöldi innritaðra nemenda í námið takmarkast við 15 manns á þessu fyrsta námsári.