Hvað er þetta hugrof (dissociation)?

Hugrof og hugrofspersónuröskun

Hugrof (e. dissociation) á sér stað þegar ákveðnir ferlar sem vanalega eru samþættir, eins og meðvitund og minni, starfa á aðskildan hátt. Hugtakið var fyrst sett fram í byrjun 18.aldar en það var Pierre Janet (1859-1947), frumkvöðull í rannsóknum á hugrofi og áfallaminni sem setti það fram í sinni eiginlegri merkingu í dag. Hann hóf rannsóknir sínar á skjólstæðingum með hysteríu en undir það féllu ýmis geðræn vandamál sem í dag eru meðal annars hugrofs- og áfallaraskanir. Var þá viðurkennt að hystería ætti sér oft stað í kjölfar áfalla og skilgreindi Janet hugrof þannig sem sálfræðilegt varnarviðbragð við yfirþyrmandi áföllum.

Engin ein almenn skilgreining er til á hugrofi sem slíku en hugrofsraskanir eru skilgreindar í bæði ICD-10 og DSM-5 greiningarkerfum fyrir geðraskanir og sérfræðingar á sviðinu sammælast að mestu um einkenni og birtingarmynd þeirra. Einkennum hugrofs er gjarnan skipt í fimm flokka sem auðvelda greiningu á hugrofi og hugrofsröskunum;

Depersonalization á við um að aftengjast sjálfum sér og er til dæmis oft lýst sem ‘out-of body’ upplifun eða að líða eins og líkami manns tilheyri manni ekki. Derealization á við um að aftengjast umhverfinu og má helst lýsa sem óraunveruleikatilfinningu sem fólk upplifir oft við kvíðaköst. Dissociative Amnesia

eða sálrænt minnisleysi, er minnistap sem á sér engar líffræðilegar orsakir og getur átt sér stað í kjölfar áfalla. Identity Confusion má lýsa sem óeðlilega miklum óstöðugleika um það hvernig maður upplifir sjálfan sig og hagar sér. Identity Alteration er að upplifa svo miklar breytingar í hegðun og upplifun að jafnvel aðrir taki eftir því, eða maður upplifi sig sjálfa/n sem fleiri en eina manneskju.

Sú hugrofsröskun sem líklega flestir hafa heyrt um er hugrofspersónuröskun eða Dissociative Identity Disorder. Áður bar hún nafnið Multiple Personality Disorder en var nafninu breytt árið 1994 til þess að undirstrika það að ekki sé um marga persónuleika að ræða heldur hugrof á persónuleikanum. Í dag er einnig litið á áföll sem stóran áhrifaþátt við þróun röskunarinnar en yfirgnæfandi hluti þeirra sem greinast með hana hafa sögu um endurtekið líkamlegt, kynferðislegt eða andlegt ofbeldi í barnæsku, oft af hendi einhvers nákomins.

Röskunin er vinsæl í fjölmiðlum og er oft túlkuð á áberandi og dramatískan hátt í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum; aðalpersónan er þá oft sett fram sem fleiri en einn heilsteyptur persónuleiki í sama líkamanum, sýnir einkenni sín á áberandi hátt og hefur jafnvel einn ofbeldisfullan persónuleika. Það er þó fjarri raunveruleikanum og hafa fræðimenn oft

varað við áhrifum slíkrar framsetningar á þá sem glíma við röskunina. Dissociative Identity Disorder einkennist af tilveru tveggja eða fleiri aðskildra hluta eða parta af persónuleikanum, þar sem einn persónuleiki er (hug)rofinn í smærri einingar (e. identity fragmentation), og endurtekins minnistaps sem á sér ekki aðrar orsakir. Talið er að um 6% þeirra með DID sýni einkenni sín á áberandi og dæmigerðan en meirihluti þeirra með DID þjást hins vegar af einkennum hugrofs og áfallastreitu í bland við ýmis einkenni til dæmis fíknisjúkdóma, átraskanna, persónuleikaraskana, sállíkamlegra sjúkdóma og sjálfskaðandi hegðunar. Flestir eiga alvarlegar sjálfsvígstilraunir að baki og hafa farið í gegnum ýmis meðferðarúrræði og lyfjameðferðir án árangurs áður en rétt greining fékkst. Miklar hegðunarbreytingar, sem viðkomandi er oft ómeðvitaður um sökum minnisleysis, er það sem má túlka sem fleiri en einn persónuleika. Algengast er að einstaklingur með DID haldi þessum einkennum leyndum og sýni þau eingöngu einrúmi eða með einhverjum sem hann treystir, til dæmis maka eða meðferðaraðila.

Líkja má þessum persónuleikabreytingum við það sem flestir upplifa í daglegu lífi; við hegðum okkur á mismunandi hátt í mismunandi aðstæðum, höfum meðvitund með og stjórn á þessum breytingum og

koma þær að gagni. Ef við göngum út frá því að DID verði til við ofbeldi í barnæsku má taka dæmi um barn sem býr við heimilisofbeldi; það lærir að breyta hegðun sinni eftir skapi þess sem beitir ofbeldinu auk þess að haga sér utan heimilis eins og allt sé með felldu. Slík færni er gagnleg í þeim aðstæðum en hamlar viðkomandi í öðrum aðstæðum þegar hann hefur ekki lengur stjórn á þessum breytingum. Þessi samlíking er ofureinfölduð en gefur hugmynd um sumar ríkjandi kenningar um þróun DID í dag.

Einstaklingar með DID og röskunin út af fyrir sig hafa mátt þola mikla gagnrýni, efasemdir og fordóma í gegnum tíðina. Þó svo að öll gagnrýni eigi að sjálfsögðu rétt á sér þá er mikilvægt að skoða allar hliðar málsins og taka upplýsta ákvörðun um efnið. Mikið af þeim mótrökum og efasemdum sem hafa ratað til dæmis í fjölmiðla og jafnvel námsbækur bera þess merki að höfundar hafi ekki kynnt sér rannsóknir á efninu nægilega vel. Ágreiningsmál snúa einnig oft að skilgreiningum en er það vissulega gagnrýnisvert og erindi til frekari rannsókna að ekki sé til nein ein skýr skilgreining á hugrofi sem allir fræðimenn geta sammælst um. Sérfræðingar á sviðinu sammælast þó að mestu og hafa rannsóknir þeirra skilað nægri þekkingu til þess að greina einstaklinga með hugrofsraskanir og veita þeim viðeigandi meðferð.

Rannsóknir sérfræðinga á sviðinu benda allar til þess að Dissociative Identity Disorder sé raunveruleg geðröskun með mælanleg einkenni sem veldur verulegri skerðingu á lífsgæðum sé hún ekki meðhöndluð rétt. Röskunina má mæla með bæði sálfræðilegum prófum og lífeðlislegum mælingum en í tilraunaaðstæðum hafa slíkar aðferðir greint marktækt á milli þeirra sem raunverulega hafa DID og samanburðarhópa sem gera sér upp einkenni. Slík mælitæki eru einnig notuð við sakamál þegar grunur leikur á að sakborningur sé að gera sér upp DID til að komast hjá dómi, en auðvelt er að uppræta slíkt þar sem viðkomandi sýnir ekki hugrofseinkenni.

Talið er að vangreiningu á röskuninni megi rekja til vanþekkingu á hugrofi en oft er ekki skimað eftir því þegar einstaklingar leita sér fyrst aðstoðar vegna geðrænna vandamála. Þegar það er sérstaklega skimað eftir hugrofsröskunum hefur fundist 1-3% algengi í almennu þýði og hærra í innlögn á geðdeildum. Það tekur einstakling með DID að meðaltali 7 ár að fá rétta greiningu og meðferð sem er nauðsynleg til að bata sé náð. Því er mikilvægt að þeir sem komi að meðferð geðrænna vandamála þekki til og viti hvenær um hugrofseinkenni skjólstæðings sé að ræða.

Þessi grein er langt frá því að vera tæmandi og eru áhugasamir því hvattir til að kynna sér efnið nánar. International Society for the Study of Trauma and Dissociation, alþjóðleg samtök yfir 1000 meðferðaraðila og sérfræðinga á sviði hugrofs, heldur úti heimasíðu með gagnlegum upplýsingum um hugrof fyrir almenning, nemendur og sérfræðinga (www.isst-d.org). Samtökin gáfu til að mynda út yfirlýsingu vegna Split, nýlegrar kvikmyndar um ofbeldisfullan mann með DID, sem áhorfendur myndarinnar ættu vafalaust að kynna sér.

(http://www.isstd.org/downloads/Statement%20on%20Split-final.pdf).

Heimildir

Brand, B. L., & Lanius, R. A. (2014). Chronic complex dissociative disorders and borderline personality disorder: disorders of emotion dysregulation? Borderline Personality Disorder and Emotion Dysregulation, 1(13), 1-12.
 
Brand, B.L., McNary, S.W., Loewenstein, R. J., Kolos, A. C. og Barr, S.R. (2006). Assessment of Genuine and Stimulated Dissociative Identity Disorder on the Structured Interview of Reported Symptoms.
 
Davey, G. (2014). Psychopathology: Research, assessment and treatment in clinical psychology. Chichester: British Psychological Society, John Wiley & Sons Ltd.
 
International Society for the Study of Trauma and Dissociation (2011). Guidelines for Treating Dissociative Identity Disorder in Adults, Third Revision. Journal of Trauma and Dissociation, 12(2), 115-187.
 
Steinberg, M., og Schnall, M. (2001). The Stranger in the Mirror: Dissociation – The Hidden Epidemic. New York: Harper Collins.
 
Van der Hart, O., Nijenhuis, E. R. S., Steele, K. (2006). The Haunted Self: Structural Dissociation and the Treatment of Chronic Traumatization. New York: W.W. Norton & Company, Inc.
 
Van der Hart, O., Horst, R. (1989). The Dissociation Theory of Pierre Janet. Journal of Traumatic Stress, 2(4), 397-412.