Hugleiðingar um sálarlíf skemmtanastjóra

Smári Jónsson

Ég heiti Smári. Líkt og eflaust margir lesendur Sálu er ég sálfræðinemi við Háskóla Íslands. Líkt og eflaust fáir lesendur Sálu er ég einnig skemmtanastjóri. Áður en ég bauð mig fram í það merkilega embætti velti ég því mikið fyrir mér hvaða eiginleika væri æskilegt að hafa til að sinna því mikla, tímafreka og skemmtilega starfi sem embættinu fylgir, og hvort ég væri gæddur þeim eiginleikum. Félagslyndi, skipulagshæfni, frumkvæði og almennur "skemmtileiki" eru allt orð sem skutu í kollinn. „Hef ég orkuna og eiginleikana sem þarf til þess að standa mig í þessu starfi?“ er spurning sem ég velti fyrir mér.

Frá því að ég man eftir mér hef ég verið að kljást við þunglyndi og depurð, á þann hátt að ég hef ætíð efast um ágæti mitt sem námsmaður, starfsmaður, íþróttamaður, vinur, og í raun í öllu sem ég hef lagt hendur mínar á. Ég fell of oft í gryfju "conformation bias", eða að hundsa vísbendingar sem afsanna hugmyndir mínar (sem í þessu tilfelli snúast að því að ég sé ekki nógu góður fyrir þau verkefni sem ég tek að mér), og sé einungis hluti sem staðfesta trú mína, jafnvel þó þeir hlutir séu í raun ekki til. Ég hef staðið mig að því að eiga í samræðum við samnemendur mína og vini sem hafa ekkert nema fallega hluti um mig að segja, en fer svo heim og þarf að pína mig til þess að fara í skólann daginn eftir. Að því sögðu er ég mikil félagsvera. 

Mér líður alltaf best í góðra vina hópi og ég nota gjarnan húmor sem bjargráð, til að öðrum líki vel við mig og til að mér líki betur við mig sjálfan (röskun sem sérfræðingar hafa nefnt Chandler Bing Syndrome). Nú ert þú, ágæti lesandi, eflaust pínu ruglaður. „Félagslyndur og þunglyndur? Hvernig má það vera? Einnig, ég hef talað við þennan Smára gaur og hann hefur bara enga ástæðu fyrir því að vera þunglyndur!“ Það er rétt að neikvæðir atburðir í lífi manneskju geta valdið þunglyndi, en oftast er ástæðan ekki flóknari en sú að um of lítið magn taugaboðefnisins Serotonin í heila er að ræða. Það er of rótföst hugmynd um þunglyndi í samfélaginu að manneskja ætti ekki að vera þunglynd nema eitthvað hræðilegt hafi gerst í hennar lífi. Árið er 2015, og þunglyndi er enn ²taboo². Viðmót samfélagsins í garð þunglyndis er nokkurn vegin svona: „Já, ert þú þunglyndur? Rífðu þig bara upp!“

Ég var því líkt og eflaust margir einstaklingar sem barist hafa við þunglyndi alveg viss um það að ég hefði enga ástæðu til að vera eitthvað þunglyndur. „Ætti ég ekki bara að rífa mig upp?“ Það var ekki fyrr en ég fór að læra sálfræði hér í Háskóla Íslands og fór að lesa mig til um þunglyndi að ég áttaði mig á eðli þess. Nú er ég ekki bara upplýstari, heldur er ég líka meðvitaðri um þessa tilfinningaskekkju, sem síðan hjálpar mér að reka slæmar hugmyndir og hugsanir á brott. Ef þú, kæri lesandi, eða einhver nákominn þér er að kljást við þunglyndi er ég með nokkur góð ráð:

 

  • Gerðu þér grein fyrir vandanum: Ef þér líður endalaust illa og upplifir önnur einkenni þunglyndis, ertu líklega þunglynd/ur.
  • Leitaðu þér aðstoðar: Ef að vandinn er svo mikill að þú ræður ekki við hann, farðu þá að leita þér aðstoðar. Þú ert ekki minni manneskja fyrir vikið. Ef að það er ekkert að því að leita sér aðstoðar vegna bakverkja, hvað er þá að því að leita sér aðstoðar vegna þunglyndis?
  • Ekki láta viðhorf samfélagsins hafa áhrif á þig. Þú þarft ekki að hafa upplifað eitthvað ótrúlega traumatískt til að „eiga rétt á því“ að vera þunglynd/ur.

Þá er ég búinn í bili. Ég þakka þér, kæri lesandi, fyrir að lesa þetta röfl mitt um sálarlíf. Að lokum vil ég koma því á framfæri að Jörgen Pind er sætur.