Nú eru ekki nema örfáir dagar í að aðfangadagur renni í hlaðið og eftirvæntingin hefur sjaldan verið jafn mikil. Allt jólastússið er að færast í aukana og sumir eiga mögulega erfitt með að finna ró í skammdeginu. Þess vegna er ég hér með nokkur ráð sem hafa virkað fyrir stresspésann mig til þess að minnka álag á þessum síðustu og bestu tímum.
Taktu frá tíma sérstaklega fyrir þig
Jólin eiga það til að snúast um það að gera alla í kringum sig ánægða. Núna er tækifæri til þess að taka meðvitaða ákvörðun um það að hugsa líka um sjálfan sig yfir hátíðirnar. Það getur falist í því að hlusta á hlaðvarp eða hljóðbók, horfa á þætti eða myndir, fara í rólega göngutúra eða koma sér inn í það að hugleiða reglulega. Þú getur líka ákveðið að reyna að hitta fjölskyldu eða vini sérstaklega fyrir þig, eins og til dæmis með því að bjóða vinum á kaffihús eða fara með ættingjum í sund. Stóra málið er að það sem þú ákveður að gera sé gert af því þú vilt gera það en ekki af því þú verður að gera það, af því það er ætlast til að þú gerir það eða af því samfélagið segir að þú eigir að gera það.
Meðmæli
Þættir sem við mælum með eru…
- Bluey (þeir eru bara svo kósí og ekki stressandi)
- nostalgíuþættir eins og Merlin og Sherlock
- comfort grín þættir, t.d. Modern Family, Friends,
- How I Met Your Mother
- Jack Whitehall: Travels With My Father
- Euphoria; Derry Girls
- Pam and Tommy
- Only Murders In The Building
- Sex education
Bækur sem við mælum með eru…
- Percy Jackson serían (svo mikil nostalgía)
- Harry Potter (mælum með hljóðbókunum, ekki höfundinum)
- Eins og fólk er flest / Normal People
- Ég fremur en þú / Me Before You
- Bálviðri / The Mercies
- Konan í lestinni / The Girl on the Train
- Okkar á milli / Conversations with Friends
- Að telja upp í milljón
Hlaðvörp sem við í ritnefndinni mælum með eru…
- Morðcastið
- Toni and Ryan
- Food, We Need To Talk
- Þarf alltaf að vera grín?
- The Shit Show
- Anything goes
Myndir sem við mælum með eru…
- Disney myndir
- Spirit; Shrek
- About Time
- Parasite
- Fresh
- 10 Things I Hate About You
Svo mæli ég með hugleiðsluappinu Headspace, það hefur bjargað mér ansi oft í kvíðaköstum.
Vertu góð/góður/gott við þig
Ég er mikill fullkomnunarsinni í eðli mínu. Það á það til að vera vandamál, sérstaklega í kringum hátíðirnar. Sumt af því sem ég hef þurft að minna mig reglulega á er að það þarf ekki allt að vera tandurhreint heima hjá mér. Það er í lagi að það líti út fyrir að fólk búi í íbúðinni minni, ég bý jú þarna! Jólin koma þrátt fyrir að ég hafi ekki skúrað undir sófanum og þau koma líka þó ég hafi ekki þurrkað af efstu hillunni.
Svona úr því ég er að tala um jólaundirbúninginn þá er allt eins gott að minnast á það að það þurfa ekki að vera 17 sortir af jólasmákökum, það þurfa ekki að vera milljón meðlætisdiskar í jólaboðinu og það þarf ekki að passa upp á það að hver krókur og kimi af heimilinu sé skreyttur. Hins vegar, ef þú hefur gaman af þessum hlutum þá skaltu endilega gera þá.
Gjafir geta verið þvílíkur streituvaldur. Eitt af því sem ég vil temja mér er að muna að það er hugsunin sem skiptir meira máli en verðmiðinn. Ég sá myndband á TikTok um daginn þar sem lítill krakki fékk banana í jólagjöf og var hæstánægður. Ég hef líka fengið sokka í jólagjöf sem voru í alvörunni besta gjöfin það árið. Í rauninni þá er ég að reyna að segja það að gjafir þurfa ekki að vera dýrar. Svo, ef þú ert svo heppin manneskja að vera hæfileikarík í einhverju ákveðnu þá er ekkert að því að reyna að nýta hæfileikana í það að búa til gjöfina. Til dæmis ef þú kannt að baka þá er allt í lagi að gefa fólki heimabakaðar smákökur, eða ef þú kannt að mála þá er allt í lagi að mála mynd og gefa þeim nánustu. Svo ef þú lendir í mikilli tímaþröng þá finnst mér allt í lagi að gefa persónuleg gjafabréf. Ég gaf til dæmis bróður mínum einhvern tímann gjafabréf upp á það að ég myndi taka til í bílnum hans tvisvar sinnum yfir árið og svo fékk ég einu sinni gjafabréf með loforði um að mér yrði boðið út að borða. Leyfðu hugmyndafluginu að fara um víðan völl og þá er vonandi ekki alveg jafn mikið stress varðandi gjafirnar.
Nú er komið að ráðunum sem mér finnst erfiðast að fylgja. Fyrsta er það að ef eitthvað er að valda þér vandræðum, eitthvað er stressandi eða eitthvað er ekki að virka þá er engin skömm tengd því að biðja um hjálp. Þú ert ekki aumingi fyrir það að biðja um hjálp. Aldrei skamma þig fyrir að biðja um hjálp. Hitt ráðið sem mér finnst erfitt að fylgja er að það má segja nei við jólaboðum. Ef þú vilt ekki fara í eitthvað jólaboð, ef þú vilt ekki hitta eitthvað fólk eða ef þú ert einfaldlega ekki með orku fyrir jólaboðið þá þarftu ekki að fara. Það er á þína ábyrgð að hugsa um þína vellíðan og hún trompar allt annað. Þú átt það skilið að þér líði vel.
Jólin geta verið erfiður tími
Það eru margar ástæður fyrir því að jólin geta verið erfið. Fjölskylduaðstæður geta verið erfiðar, það geta verið erfiðar minningar tengdar jólunum og svo getur verið erfitt af því samfélagið ætlast til þess að jólin séu besti tími ársins. Auðvitað eru miklu fleiri ástæður fyrir því að jólin geta sökkað fyrir fólk en stóra málið er að það líður ekki öllum vel um hátíðirnar. Þá getur verið gott að muna að jólin þurfa ekki að vera frábær. Jólin þurfa ekki að vera besti tími ársins og jólin þurfa ekki að vera sæmilegasti tími ársins. Það sem maður þarf bara að muna er að jólin munu líða hjá alveg eins og önnur tímabil.
Vetrarsólstöður eru í rétt fyrir jólin sem þýðir að þetta eru dimmustu dagar ársins. Fyrir okkur sem eigum erfitt með myrkrið þá getur skipt ótrúlegu máli að hugsa vel um sig á þessum dögum. Kveiktu ljósin, kveiktu á kertum, vertu með jólaseríur þangað til í febrúar eða mars (bónusstig fyrir hvíta seríu allt árið um kring) og dragðu frá gluggum á meðan það er bjart úti. Svo má ekki gleyma D-vítamíninu sem er eiginlega ómögulegt að taka of stóran skammt af (plís ekki reyna það samt). Ég tek vel eftir því þegar mig vantar D-vítamín af því allt verður erfiðara, andlega séð. Ég veit að ég er ekki læknir og ég veit ekki um þínar venjur en ég held samt að flestir sem búa á Íslandi í desember gætu þurft á D-vítamíni að halda.
Stundum verður vanlíðanin samt aðeins of mikil. Það þarf ekki að vera of mikil vanlíðan hjá þér en kannski er einhver í kringum þig sem á erfitt um hátíðirnar. Það sem skiptir máli þá er að leita sér hjálpar. Hér fyrir neðan eru nokkur úrræði sem hægt er að skoða ef hátíðirnar eru erfiðar.
- Hjálparsími Rauða Krossins – 1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins sem er til staðar allan sólarhringinn ef þú vilt tala við einhvern. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt. Hægt er að hringja í 1717 eða fara inn á 1717.is fyrir netspjallið.
- Pieta samtökin – Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Boðið er upp á viðtöl og stuðningshópa fyrir 18 ára og eldri. Píetasíminn 552 2218 er opinn allan sólarhringinn. Síðan er https://pieta.is/.
- 112 síðan – Inni á 112 síðunni er hægt að finna lista af úrræðum sem hægt er að nota í erfiðum aðstæðum. Ekki hika við að skoða hvað er að finna þar. Síðan er https://www.112.is/urraedi.
Gleðilega hátíð!
Við í ritnefnd Sálu viljum óska ykkur gleðilegra jóla (eða komandi daga ef þið haldið ekki upp á jólin) og farsæls komandi árs. Við sjáumst hress og kát á næsta ári og hlökkum til að heyra meira í ykkur.