Freydís Þóra Þorsteinsdóttir, Skemmtanastjóri Animu 2018/19
Störf skemmtanastjóra eru frekar opin og blönduð en nr. 1, 2 og 3 sá ég um vísindaferðirnar almennt. Hafði fulla stjórn á því hvert við færum og hvenær, ÉG RÉÐ ÖLLU!
Nei okay það er lygi, fyrirtækin höfðu klárlega yfirhöndina. Þessi vinna er í byrjun svakalegt tölvupóstasendingardæmi og góð litlagleðistemming inn á excel skjali, sem er reyndar lúmskt skemmtileg. Annars er skemmtanastjóri líka auðvitað að taka stóran þátt í öllum viðburðum, sérstaklega í allskonar stússi og er það bara ótrúlega gaman, ásamt því að vera formaður (forseti) skemmtinefndar og VÁ hvað ég var heppin með fólk í nefndinni síðastliðið árið! Og bara almennt með stjórnina sjálfa, þau rokka!
Að bjóða mig fram í stjórn Animu var alls ekki flókið. Á mínu fyrsta ári sat ég í meðstjórn Animu og fór þaðan í skemmtanastýruna, en þetta er klárlega það skemmtilegasta og besta sem ég hef gert. Þegar ég bauð mig fram í meðstjórn þekkti ég ekki sálu í sálfræði, kannaðist mögulega við 2-3. Þessar tvær stjórnir hafa gefið mér frábæra vini og yndislegar minningar!
Að vera í stjórn er miklu miklu miklu meira en að vera bara að skipuleggja viðburði, það eru samskipti við aðra stjórnarmeðlimi, önnur félög, koma með klikkaðar uppástungur (og fá þær skotnar niður stundum af gjaldkera) og fullt af fjöri og ást!
Skemmtilegasta minningin mín af stjórnarstörfunum .. úff ég get svo sannarlega ekki valið eina, en ég held að nýnemadagurinn gaf mest af sér, það að kynnast nýjum sálfræðinemum með fáránlegum leikjum er ótrúlega gaman!