Hvers vegna var Gunnar metinn sakhæfur þrátt fyrir mat þriggja geðlækna?
Þann 15 ágúst árið 2010 var Hannes Þór Helgason myrtur á heimili sínu. Atvikið átti sér stað meðan Hannes lá sofandi í rúmi sínu - en þar var hann stungin margsinnis með beittu eggvopni. Morðið fékk mikla fréttaumfjöllun ekki síst vegna hrottafengis eðlis þess en einnig því Hannes var sonur Helga í Góu, þekkts viðskiptamanns á Íslandi. Rannsókn málsins var flókin og langdregin en að lokum játaði maður að nafni Gunnar Rúnar Sigurþórsson á sig verknaðinn. Gunnar var góðvinur unnustu Hannesar en hann hafði áður játað ást sína til hennar í frægu myndbandi sem hafði farið mikinn á íslenskum samskiptarmiðlum nokkrum árum áður.
Í kjölfar játningarinnar tóku við umdeild réttarhöld yfir Gunnari en margir efuðust um réttmæti þeirra og þá sérstaklega fjölskylda Hannesar. Ástæðan var að miklu leyti sú að í mars 2011 dæmdi Héraðsdómur Reykjaness Gunnar Rúnar ósakhæfan vegna morðsins á Hannesi á grundvelli vitnisburða þriggja geðlækna. Þegar málið var síðar tekið fyrir í Hæstarétti var ákveðið að snúa fyrri úrskurð Héraðsdóms við. Gunnar var því ekki lengur talin ósakhæfur vegna geðræns ástands, þrátt fyrir vitnisburð geðlækna um hið gagnstæða.
Sakhæfi lögfræðilegt hugtak, ekki sálfræðilegt.
Ákvörðun Hæstarétts gerði réttarhöldin yfir Gunnari ekki síst áhugaverð fyrir sálfræðinga heldur einnig lögfræðinga því þau vörpuðu ljósi á hvers eðlis hugtakið sakhæfi er og þá fínu línu sem liggur milli fræðigreinanna tveggja. Merking hugtaksins er nefnilega tvíræð og ekki öllum kunn - þar sem það er í senn sálfræðilegs eðlis en einnig lögfræðilegt. Ósamræmið milli niðurstöðu Héraðsdóms og Hæstarréttar varð því gífurlega umdeilt og hugtakið „sakhæfi“ mikið rætt. En hvað felst raunverulega í þessu hugtaki? Hvers vegna var Gunnar ekki talinn ósakhæfur þrátt fyrir mat þriggja geðlækna þess efnis?
Svarið felst í því að sakhæfi er fyrst og fremst lögfræðilegt hugtak en ekki sálfræðilegt. Þegar kemur að því að meta sakhæfi einstaklinga geta dómarar beðið um sérfræðiálit geðlækna og sálfræðinga. Álit þeirra þjónar hinsvegar aðeins því hlutverki að aðstoða dómara við að leggja mat á sakhæfi viðkomandi. Það þýðir að þegar öllu er á botnin hvolft þá er alfarið undir dómara komið að ákveða hver sé sakhæfur og hver ekki. Það er því í höndum laganna að úrskúrða um geðrænt ástand viðkomandi en ekki sálfræðinga.
Úrskurður Héraðsdóms
Upprunalegur úrskurður Héraðsdóms um ósakhæfi Gunnars var að miklu leyti byggð á grundvelli þriggja geðlækna sem tekið höfðu geðmat af Gunnari í kjölfar réttarhaldanna.
Samkvæmt sérfræðimati þeirra þjáðist Gunnar af ástsýki (erotomania), ranghugmyndum (fixed delusions) og hugrofsröskun (dissociative disorder) sem lýsir sér í tvískiptum eða rofnum persónuleika. Slík greining er áhugaverð út af fyrir sig þar sem hún er einstaklega fátíð og gefur góða mynd af sérkennileika málsins í heild sinni.
Samkvæmt fyrsta sérfræðivitninu áttu geðrænir kvillar Gunnars upptök sín til sjálfsvígs föður hans þegar Gunnar var barn. Áfallið sem Gunnar hafi orðið fyrir í kjölfar andláts föður hans hafi orðið til þess að vitsmunaþroski Gunnars hafi stöðvast með þeim afleiðingum að rökrænn skilningur hans væri áþekkur barns. Auk þess hafi Gunnar tekist á við dauðsfall föður síns með því að ímynda sér að hann væri ekki látinn heldur aðeins úti á sjó, en faðir hans var sjómaður.
„Gunnari hefði liðið um rétt eins og í draumi, naumlega meðvitaður um gjörðir sínar.”
Með tímanum hafi sú ímyndun Gunnars orðin svo sterk að mörkin milli ímyndunarafls og raunveruleika urðu sífellt óskýrari. Í kjölfar þess hófust innri átök milli hins raunverulega Gunnars og hinsvegar verri hluta persónuleika hans. Fyrir dómi voru rök verjanda Gunnars þau að Gunnar hafi ekki verið undir eigin stjórn þegar verknaðurinn hafi átt sér stað heldur hafi hinn illi helmingur persónuleika hans verið við völd. Gunnar hefði liðið um rétt eins og í draumi, naumlega meðvitaður um gjörðir sínar. Hann gæti því ekki talist ábyrgur gjörða sinna umrætt kvöld.
Seinni tvö sérfræðvitnin voru sammála þessari greiningu að hluta en töldu einnig að Gunnar hafi verið haldinn þráhyggjuröskun og ranghugmyndum á háu stigi sem leiddu til þess að hann réttlætti verknaðinn með vísan til ást sinnar á unnustu Hannesar.
Í ímyndunarheimi Gunnars var honum og unnustu Hannesar ætlað að vera saman. Eina hindrunin í vegi fyrir hamingju þeirra var Hannes og þótti Gunnari það rökrétt ákvörðun að Hannes þyrfti að víkja. Gunnar virtist hinsvegar ekki hugleiða hvaða afleiðingar slík ákvörðun hefði í för með sér, hvorki fyrir hann sjálfan, Hannes eða unnustu Hannesar. Öll sérfræðivitnin mátu að Gunnar væri bæði skaðlegur sér og öðrum og ætti ekki erindi aftur í samfélagið án verulegrar hjálpar.
Þröng skilmerki í íslenskum lögum.
Sakhæfi einstaklinga er skilgreint á tvennskonar vegu í íslenskum hegningarlögum. Fyrri skilgreiningin felur í sér að viðkomandi sé 15 ára eða eldri á þeim tíma þegar brot var framið. Seinni skilgreiningin felur í sér geðrænt ástand viðkomandi þegar brot var framið. Þegar sakhæfi er metið út frá geðrænum eiginleikum þarf hugrænt ástand viðkomandi samt sem áður að uppfylla þröng skilmerki 15. grein íslensku hegningarlaga, en þar segir;
„Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.“
Þessi skilgreining er tekin gríðarlega alvarlega þar sem hún er ein af fáum ákvæðum í íslenskum lögum sem felur í sér undanþágu refsingar fyrir afbrotamenn. Sú krafa er því gerð, að sýna þurfi með afgerandi hætti að orsakatengsl séu milli verknaðar og geðrænna kvilla. Með öðrum orðum, að
viðkomandi hafi verið í geðrofsástandi á nákvæmlega þeim tímapunkti er verknaður átti sér stað og að hann hafi verið með öllu ófær um að stjórna gerðum sínum.
Á Íslandi er nefnilega hægt að vera álitin sakhæfur þrátt fyrir að þjást af geðrænum veikindum. Slíkt getur gerst ef geðröskun er til staðar en talin óveruleg eða tímabundin.
„Það sem skilur að ósakhæfa frá sakhæfum er rökrænn skilningur viðkomandi á afleiðingum gjörða sinna“
Ef hægt er að sýna fram á að viðkomandi hafi hvorki getað stjórnað eigin hegðun né gert sér grein fyrir afleiðingum hennar, til að mynda vegna geðrofs, skerts vitsmunaþroska, ómeðvitundar og annarra þátta telst hann ósakhæfur.
Í máli Gunnar Rúnars var það einmitt þessi þáttur sem varð til þess að Hæstiréttur snéri niðurstöðu Héraðsdóms.
Sýndi fullan skilning.
Þegar meta átti hvort Gunnar hafi verið fær um að stjórna gerðum sínum þótti margt benda til þess að afbrotið hafi verið skipulagt af yfirlögðu ráði. Þá sérstaklega með tilliti til þess að yfir ákveðið tímabil hafi Gunnar safnað að sér ýmsum munum sem nýtast áttu til þess að myrða Hannes, þar með talið morðvopnið. Auk þess sýndu myndbandsupptökur hvernig Gunnar losaði sig við morðvopnið við Hafnarfjarðarhöfn stuttu eftir verknaðinn. Með því hafi hann reynt að koma í veg fyrir að upp um hann kæmist og þótti sú tilraun hans benda sérstaklega til þess að hann hefði verið meðvitaður um að það sem hann hygðist gera Hannesi.
Hæstarétti þótti sú hegðun Gunnars benda til þess að hann hafi sýnt fullan skilning á afleiðingum gjörða sinna. Brotavilji hans hafði verið einbeittur og að rökrænn skilningur hafi legið að baki afbrotsins.
Samkvæmt Hæstarétti var því ekki hægt að álykta að bein tengsl væru milli þess að geðrænir veikleikar Gunnars hafi valdið hegðun hans á verknaðarstundu. Með öðrum orðum, þá var ekki hægt að sýna fram á að Gunnar hafði verið í geðrofsástandi, né ómeðvitaður um afleiðingar gjörðar sinnar á þeim tímapunkti sem hann tók þá líf Hannesar og gæti því talist ábyrgur.
Dómurinn dró ekki í efa réttmæti mat geðlæknanna þriggja varðandi geðrænt ástand Gunnars, bara ekki á nákvæmlega þeim tíma er afbrotið var framið. En það er einmitt þetta samspil lögfræði og sálfræði sem skilur sakhæfa frá ósakhæfum.
Sakhæfi felst því ekki í því hvort geðröskun sé til staðar yfirhöfuð, heldur hvort hún sé allsráðandi þegar afbrot er framið.