Hervald Rúnar Gíslason
Trú-legt sjónarhorn
Guð skapaði heiminn. Guð bjó til það góða í okkur og það vonda er okkur að kenna. Okkar tilgangur í lífinu er að bæta fyrir syndir okkar og forfeðra okkar samhliða því að betrumbæta okkur sjálf sem einstaklinga. Sem betur fer erum við ekki ein í þessari göfugu vegferð, Guð leiðir okkur áfram með beitingu umbunar og refsingar.
Góðu gildi mannsins eru ekki hans eigin heldur fékk hann þau í vöggugjöf frá æðra almættinu við sköpun heimsins – fyrir 6000 árum síðan. Það slæma í manninum er áunnið eftir að hafa villst frá boðskapi skaparans. Þá lesti ber okkur að leiðrétta og bæta upp fyrir sem fyrst, ella eyðum við eftirlífinu í hreinsunareldinum. Himnaríki er markmiðið og trúrækni er lykillinn. Trúin er tilgangur lífsins.
Vísindi eru uppspuni og afbökun á staðreyndum. Vísindi eru tilgangslaus og illkvittin, sér í lagi þar sem markmið þeirra er oft að kasta rýrð á hina góðu kristnu trú og afsanna hinn heilaga sannleik. Þrátt fyrir að vísindi séu vondi kallinn eru þau samt fín þegar þau finna upp leiðir til að halda matnum okkar köldum. Vísindi eru líka fín þegar þau hjálpa okkur að komast á milli staða með uppfinningu bíla. Svo eru vísindi stundum fín þegar þau finna upp tól gegn kynsjúkdómum.
En það að einhverjir „lærðir“ vísindahrottar reyni að gjaldfella trú mína er svívirðing, skandall og aðför að mér sem persónu. Af hverju geta vísindi ekki bara haldið sig á sínu sviði og látið trúna mína í friði? Orð Guðs eru sönn og orð Guðs verða ekki afsönnuð. Þeir sem segjast geta sýnt fram á annað hafa rangt fyrir sér.
Vísyndsamlegt sjónarhorn
Heimurinn, jörðin, þróun lífs og allt sem gerst hefur og mun gerast? Samkvæmt minni trú, vísindum, er þetta afrakstur óendanlega margra tilviljana. Það má jafnvel ganga svo langt að segja að það sé fyrir einskæra heppni að vetrarbrautin, Jörðin og mannfólkið sé til. Ástæða þess að ég kýs að trúa á vísindi er að þau eru auðmjúk; á meðan samkeppnisaðilarnir keppast við að sanna sjálfa sig er markmið vísinda að útskýra heiminn ásamt því að afsanna sínar eigin kenningar þegar slíkt á við. Það að viðurkenna eigin lesti er grunnforsenda allra framfara.
Lífið er tilgangslaust og við erum peð. Þú uppskerð eins og þú sáir, ef þú ert heppinn. Maðurinn er ekki góður og maðurinn er ekki vondur. Maðurinn er það sem hann er á hverjum tímapunkti og það er ekki æðra almætti að þakka eða um að kenna. Þessi hugsun virðist hræða marga enda er ekki auðvelt að viðurkenna eigið tilgangsleysi – það er eiginlega bara sjúklega niðurdrepandi pæling á prenti. Aftur á móti má horfa á þetta frá öðru sjónarhorni; maðurinn er frjáls til að fylgja þeim gildum sem honum þykir rétt og hafna öðrum. Tilgangurinn mótast með markmiðum einstaklingsins. Þar sem lífið er tilgangslaust gefum við því tilgang.
Gull og glingur væri tilgangslaust ef við hefðum ekki gefið því þann stimpil að það væri flott og eftirsóknarvert. Áfengar veigar væru tilgangslausar ef fólk hefði ekki gaman af því að verða fullt og fara illa klætt í bæinn. Allt er tilgangslaust þar til annað kemur í ljós og hægt er að gefa öllu tilgangslausu tilgang; tíska, brandarar, snapchat, munnmök og síðast en ekki síst peningar – allt eru þetta hlutir sem eru tilgangslausir í grunninn. Maðurinn getur vel komist af án þeirra allra og þá sérstaklega áður en við gáfum þeim þá merkingu sem þeir bera í dag. Tilgangsleysi þarf ekki að vera slæmt, það að við séum tilgangslaus merkir að við fæðumst ekki fylgjendur neins nema þeirra markmiða sem við setjum okkur sjálf.
Í umræðum um trúarbrögð segjast þeir trúuðu oft vorkenna trúleysingjum – vorkenna þeim þar sem þeir kjósi að trúa því að líf þeirra hafi ekki tilgang. Fyrir mitt leyti veit ég ekki hvort ég geti samþykkt þetta sjónarhorn og setið undir vorkunn þeirra. Persónulega finnst mér fallegra að líta á sjálfan mig sem skapara minnar eigin tilveru. Ég er minn eigin herra og lífi mínu lifi ég á mínum eigin forsendum.
Ég vorkenni þeim aðila sem mótar líf sitt og markmið eftir einhverjum öðrum en sjálfum sér.