Velkomin kæru nýnemar í Sálfræði við Háskóla Íslands!
Hér eru þið komin til þess að læra um hegðun, hugsanir og tilfinningar á ýmsum sviðum sálfræðinnar. Ef þið vissuð ekki nú þegar er sálfræði vísindagrein og leggur því mikla áherslu á tilraunir og rannsóknir á margvíslegum sviðum. Það kemur mörgum á óvart hvað sálfræðinám er fjölbreytt og oft öðruvísi en þau búast við í upphafi náms ferilsins. Mörg ykkar eru eflaust að fara í háskóla í fyrsta sinn og í því felst auðvitað stór breyting sem er bæði spennandi og stressandi fyrir mörgum. En hér á eftir eru nokkur ráð sem vonandi geta hjálpað ykkur með fyrstu skrefin í sálfræðinámi.
- Háskólanám er erfitt, það er ekki hægt að neita því, en það skiptir öllu máli að skipuleggja sig vel og nýta tímann ykkar sem best
- Google calendar er besti vinur ykkar þar
- Passið ykkur að hafa tíma til að sinna áhugamálum ykkar og passið sérstaklega upp á félagslíf.
- Það er ekki hjálplegt að einangra sig til þess að læra allan daginn alla daga!
- Nýtið samnemendur ykkar vel, komið ykkur í leshóp sem fyrst, spjallið um námsefnið það hjálpar ykkur að skilja og muna.
- Þú getur til dæmis mætt á nýnemadag Animu, það er mjög góð leið til að kynnast og oft myndast hópar þar. Einnig getur þú spjallað við samnemendur þína í skólanum (auðveldara sagt en gert en það getur breytt öllu!)
- Passið upp á ykkur, sérstaklega þegar álagið verður mikið. Svefn, hreyfing og næring er nauðsynleg fyrir góðan lærdóm!
- Prófið mismunandi umhverfi fyrir lærdóm
- Háskólatorg, 3. hæð í Odda, Þjóðarbókhlaðan (Þjóbó) eru nokkrar hugmyndir en um að gera að prófa fleiri staði.
- Nýtið ykkur mentorakerfið!!! Þið fáið öll úthlutaðan mentor fljótlega, sem er nemandi á öðru eða þriðja ári. Þau eru hérna til þess að hjálpa ykkur og engin spurning er heimskuleg!
- Einnig vil ég minnast á hagsmunafulltrúa sálfræðinema. Þið getið alltaf haft samband við hana ef eitthvað kemur upp sem tengist hagsmunum nemenda. Það er hún Una Aðalsteinsdóttir (mail: una10@hi.is) og þið getið einnig fylgt instagraminu: bs_salartips.
Námið getur verið þungt á tímum ásamt því að það getur verið þurrt í fyrstu. Í upphafi eruð þið að læra grunnatriði sem munu nýtast ykkur í áframhaldi námsins og gefur ykkur aukin skilning á námsefninu, en þetta er til dæmis tölfræði og aðferðafræði. Mikilvægt er að setja metnað í að skilja þessi fög þar sem þau leggja grunn að öllu sem koma skal seinna í náminu. Þegar lærdómur er að reynast erfiður er oft gott að finna litlu hlutina sem ykkur finnst skemmtilegir og leggja enn meiri áherslu á þá og muna hvað ykkur finnst sálfræði skemmtileg!
Að lokum ætla ég að minna ykkur á nemendafélagið ykkar sem er ANIMA!
Anima heldur ýmsa viðburði yfir árið, margar vísindaferðir, hrekkjavökupartý, árshátíð, skíðaferð og ýmislegt fleira sem þið viljið ekki missa af. Vísindaferðir, oft kölluð vísó, eru ferðir í fyrirtæki og félög þar sem er kynning á starfsemi ásamt veitingum (fljótandi og annars konar). Þar færðu tækifæri til þess að kynnast vinnumarkaðinum, spjalla við starfsfólk og einnig djamma með sálfræðinemum. Núna í upphafi annar verður haldinn nýnemadagur (þann 29. ágúst) og ég hvet ykkur til að mæta. Þar kynnist þið samnemendum ykkar betur, farið í skemmtilega leiki og fáið pizzu og drykki ókeypis!
Skráning á nýnemadaginn er hafin inn á instagram: anima_hi og eining skráning í Animu (sem gerir ykkur kleift að fara á vísó og ódýrara á viðburði!).
Ég vona innilega að þið séuð spennt fyrir náminu og að ykkur gangi vel, sálfræðinám getur verið svo ótrúlega skemmtilegt þannig njótið vel!