Jæja, enn og aftur er tími lokaprófanna runnin upp! Eins og flest allir háskólanemar vita er þetta einn streitu mesti tími ársins og ekki bætir úr að Ísland er eitt dimmasta og kaldasta land sem til er. Í prófatíð er mikilvægt að hlúa að sér andlega og líkamlega en þrátt fyrir það eru margir (… eins og ég) sem fresta öllum lærdómi út fyrir endamörk alheimsins og enda á því að fara alveg af taugum. Til þess að minnka mögulega streitu annarra og gegna mínum hagsmunaskyldum kemur því hér grein sem inniheldur (vonandi) alls konar nytsamlegar upplýsingar.
Almennar reglur varðandi prófahald;
Á próftíma haustprófa hafa kennarar 3 vikur til að gefa út einkunnir fyrir hvert próf. Það þýðir að ef að eitt lokaprófið þitt er þann 3. desember og annað 6. desember ættu einkunnir fyrir þau próf að vera komin í síðasta lagi 24. desember og 27. desember.
Fyrir þau ykkar á fyrsta ári þá gefa kennararnir venjulega út allar SATA einkunnirnar út á sama tíma. Í fyrra komu allar einkunnirnar úr síunni í kringum hádegið… nema tölfræði sem kom ekki fyrr en kl 21 það kvöld. Ef það gerist aftur ekki gera eins og ég og kíkja á Uglu á 3 mínútna fresti, reynið frekar að dreifa huganum.
Ef að nemandi veikist og þarf þar af leiðandi að þreyta sjúkrapróf þarf ekki að skila inn læknisvottorði. Veikindin þurfa samt sem áður að vera tilkynnt til nemendaskrár háskólans (nemskra@hi.is.) innan þriggja daga frá prófdegi. Það sem þarf að koma fram í póstinum er númer námskeiðs (td. SÁL102G), heiti námskeiðs (td. Tölfræði I), nafn þitt og kennitala þín.
1 – 2 dögum eftir að þessi póstur er sendur kemur upp blár borði efst á Uglu þar sem að nemandi getur skráð sig í sjúkrapróf. Ekki flóknara en það!
Samkvæmt kennslualmanakinu verða sjúkraprófin haldin 18. – 20. desember ef lokaprófið átti að eiga sér stað 25. – 27. nóvember, en annars eru þau haldin 3. – 7. janúar.
Ef frekari spurningar um réttindi í prófum vakna er hægt að hafa samband við hagsmunafulltrúann (mig; gla5@hi.is) eða skrolla niður og skoðast um á síðu Stúdentaráðsins (https://student.is/rettindi-thin). Prófaflipinn á síðu HÍ getur einnig gagnast þeim sem eru virkilega að farast á taugum en þar koma til dæmis fram prófareglur háskólans (https://www.hi.is/nam/prof).
Sérstaklega tileinkað til elsku nýnemanna;
Hin hræðilega háa fallprósenta sem margir tala um á fyrstu önninni er í rauninni mjög ýkt. Samkvæmt tölfræðinni sem er inni á Uglu fyrir seinasta ár (haust 2023) var fall í áföngunum aldrei yfir 20%. Þar af var almennan með hæsta fallhlutfallið, svo aðferðafræðin, svo tölfræði og svo einungis 7% sem féllu í skýringum á hegðun. Það sem viðheldur þessari sögusögn að hluta til að það er alltaf einhver hluti hópsins fjarverandi úr lokaprófunum sem dregur þar með hlutfall þeirra sem fá skráð “náð” í áfanganum niður. Það kemur samt sem áður auðvitað fyrir að einhverjir sem reyna sitt besta ná ekki síunni. Það er engin skömm í því að falla og ekkert nema dugnaður að að reyna aftur.
Ef að það kemur fyrir að þú nærð ekki síunni þá er það enginn heimsendir! Seinustu ár hefur verið haldinn upplýsingafundur í janúar fyrir þá nemendur sem komust ekki í gegn og ég býst við að það verði eins á þessu skólaári. Á fundinum er farið yfir þá valkosti sem nemendum stendur til boða en stærsta málið er að nemendur sem ná ekki síunni þurfa að skrá sig úr sálfræðideild og yfir á aðra braut. Þetta er tækifæri til að skoða hvað fleira háskólinn býður upp á og það eru alls konar áfangar sem eru í boði! Það er hins vegar ekki hægt að fá alveg hvaða áfanga sem er metna upp í val innan deildarinnar og því er tilvalið að taka spjall við námsráðgjafa skólans eða senda póst á sálfræðideildina (saldeild@hi.is) ef þú ert að velta ákveðnum áföngum fyrir þér!
Í rauninni er aðalmálið þetta; það segir ekkert um þig sem manneskju hvort féllst eða ekki og ekki reyna að telja þér trú um annað.
Varðandi félagslíf eftir fall þá breytir það engu hvort þú sért enn þá nemandi sálfræðideildar ef þú vilt taka þátt í viðburðum Animu. Ef þú greiddir fyrir allt skólaárið ertu meðlimur Animu þangað til í vor sama hvað bjátar á í náminu. Eins ef þú borgaðir bara fyrir eina önn en vilt halda áfram að djamma og djúsa með sálfræðinemunum þá er alltaf í boði að greiða fyrir vorönnina líka og halda áfram að taka þátt í viðburðum hjá einu virkasta nemendafélagi háskólans!
Almenn ráð í prófum;
Eins yfirþyrmandi og lokaprófin geta verið er einn mikilvægasti parturinn af háskólanámi (allavegana að mínu mati) að kunna að “klokka sig út”. Það að hugsa endalaust um prófin og mögulegar einkunnir og allt það rugl er engum hollt. Mín helstu ráð eru að reyna að skella sér út í einn og einn göngutúr, taka frá tímatil að eiga samskipti við vini og fjölskyldu, fá sér eitthvað exxxtra sérstakt að borða og einfaldlega bara leyfa þér að rotna á TikTok eða öðrum miðlum inn á milli þess sem þú lærir. Í þessari grein frá 2022 er hægt að finna mörg góð ráð auk þess sem þáverandi ritnefnd telur upp margar góðar afþreyingar líkt og þætti, myndir og bækur sem getur verið gott að sökkva sér í. Að öllu gríni og glensi slepptu þá er ómögulegt að reyna að komast í gegnum jafn krefjandi nám og sálfræði án þess að hugsa vel um bæði hugann og líkamann. Reynið einstaka sinnum að fara frekar að sofa heldur en að opna orkudrykk númer hver veit hvað og endilega reynið líka að finna til inn á milli aðeins næringarríkari máltíðir en bara nikótín, koffín og snakk.
Að lokum vil ég aftur minna á að það er alltaf hægt að senda mér línu (gla5@hi.is) ef það koma upp spurningar eða almennar pælingar varðandi námið. Hafið samt í huga að ég er líka nemandi í lokaprófum svo ég get ekki lofað svörum um leið fyrir hvert erindi. Annars vil ég bara óska ykkur góðs gengis í prófunum og ég vona að komandi hátíðir færi ykkur ekkert nema vellíðan <3