Sölvi Tryggvason hefur marga fjöruna sopið síðan hann útskrifaðist með BS gráðu í sálfræði úr Háskóla Íslands. Sölvi hefur komið fram í Málinu, morgunfréttum Stöðvar 2, Pressunni og á fleiri stöðum og er því kunnuglegur landsmönnum flestum. Það vantar ekki upp á járnin í eldinum hjá honum en þessa stundina vinnur hann að heimildarmynd um íslenska karlaliðið í knattspyrnu.
Sálfræðin hafði alltaf verið efst í huga Sölva þegar kom að námi en báðir foreldrar hans eru menntaðir sálfræðingar. Það var þó ekki klíníska sálfræðin sem heillaði hann en þrátt fyrir það útilokaði hann klíníkina aldrei. Í dag telur hann alls ekki ólíklegt að hann nái sér í réttindi og opni jafnvel sína eigin stofu – svona eftir að fjölmiðlabólan gengur yfir. Aðspurður hvort sálfræðin komi honum að gagni í starfi hans sem fjölmiðlamaður segist hann aðallega græða á henni þegar komi að viðtalstækni og samskiptum við fólk en ekki að öðru leyti.
„Þegar ég var í náminu var mér ekki kennt að vera fyrir framan fólk. Áherslan var á efnið sjálft og ekkert farið út fyrir það, þ.e. hvernig við myndum nota það í framtíðinni en það hefur kannski breyst.“
En hvernig er venjulegur dagur hjá Sölva? „Eftir að ég varð sjálfstætt starfandi er enginn einn dagur eins,“ segir hann. Sumir dagar fara í fundi, aðrir í skipulagningu og enn aðrir í viðtal við hina og þessa einstaklinga. Þetta hefur hins vegar ekki alltaf verið svona en þegar hann var í morgunfréttum Stöðvar 2 voru dagarnir allir mjög svipaðir. Þó að hefðbundnir vinnudagar séu þægilegir segist honum líka betur við rútínuna sem fylgir því að vera sjálfstætt starfandi. „Það er auðvelt að fá leiða á því sem maður gerir ef dagarnir eru allir alveg eins. Verandi sjálfstætt starfandi þá veit ég í rauninni ekki hvað ég verð að gera í næsta mánuði, sem er mjög spennandi.“
Málið
,,Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og öðruvísi,“ segir Sölvi þegar þátturinn Málið kemur til tals. Það hafði verið draumur hjá honum að búa til spjallþátt en svo breyttist þátturinn á endanum í fréttaskýringaþátt. Þegar viðfangsefni þáttarins eru á borð við vændi, barnaníð, eiturlyf og framhjáhöld er auðvelt að spyrja sig hvort að einhver málefni eða viðmælendur hafi komið Sölva sérstaklega á óvart. „Það er erfitt að velja einhver ákveðin viðtöl sem standa upp úr. Ég man alltaf eftir þættinum sem við gerðum um barnaníð en í gegnum tíðina hef ég alltaf reynt að skilja viðmælendur mína frekar en að dæma þá, einfaldlega vegna
þess að það skilar miklu betri árangri. Fólk er frekar tilbúið að tala við einhvern sem dæmir ekki. Mér fannst mjög erfitt að skilja mennina sem ég talaði við fyrir þann þátt. Það sem situr í mér er að ég skynjaði að þeir, sem ég talaði við, væru innst inni ánægðir með að hafa verið „busted“. Við gerð þáttarins um barnaníð notuðu framleiðendur tálbeitu til að koma sér í samband við mennina sem birtust síðan í þættinum. Sölvi segist halda að þegar menn eru komnir svona djúpt inn í þennan heim finnist þeim ekki í lagi að tjá sig um vandamálið við fólk í kringum sig vegna þess hve illa sé litið á barnaníð í samfélaginu og séu þess vegna fegnir því að upp sé komið um þá á þennan hátt.
Tjáningafrelsi á Íslandi
„Eftir hrun er mikill munur á fólki þegar kemur að því að taka viðtöl, fólk er almennt hræddara við að tala. En síðan er líka mikið af fólki sem vill tjá sig en þorir ekki að bera sig og segja frá óvinsælum skoðunum. Þrátt fyrir að óvinsælu skoðanirnar séu oft ljótir hlutir þá er mörgum sem finnst sú skoðun rétt. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að hafa þær upp á borði og að samfélagið viti af þeim í stað þess að enginn sé var við þær.“ Sem fjölmiðlamaður er markmiðið að fá sem besta yfirsýn yfir hluti en er ekkert heilagt þegar kemur að opinberri umfjöllun? Maður getur ímyndað sér að ýmsir aðilar, sem tengjast til dæmis undirheimunum hér á landi, séu ekki sáttir við upplýsingar sem koma fram í umfjöllun Sölva en hann segist aldrei hafa lent í miklum vandræðum vegna þessa.
„Það er ekki nema þú gerir eitthvað rangt sem þú lendir í veseni. Ef maður ræðst ekki beint á fólk þá er þetta allt í lagi en ég hef vissulega nokkrum sinnum fengið hótanir, þó aðeins tvisvar það alvarlegar að ég þurfti að blanda lögreglunni í málið.“
Það er þunn lína á milli þess hvað fjölmiðlar eigi að fjalla um og hvað þeir eigi að láta ósagt segir Sölvi. „Vont fólk eru bestu viðtölin,“ segir Sölvi en bendir á að almenningi finnist meira spennandi að heyra um óvinsælar skoðanir eða stuðandi atburði heldur en annað. Hann telur þó stundum varasamt að fjölmiðlar fjalli mikið um ákveðna hluti. „Eiga fjölmiðlar að vera að pikka upp mál eins og Breivik-málið? Auðvitað er nauðsynlegt að vita af aðstæðum en er ekki umfjöllun nákvæmlega það sem hann vildi? Mér finnst ekki vera hlutverk fjölmiðla að ýta óþarflega mikið undir skoðanir og gjörðir ýmissa atburða sem ganga tæpt á þessari línu.“
Líðandi stund
Í dag er aðalverkefni Sölva heimildarmynd um landsliðið í fótbolta. „Ég er mjög spenntur fyrir verkefninu en þetta er aðeins öðruvísi vinna heldur en sú sem ég hef verið í upp á síðkastið. Mér finnst frekar erfitt að taka að mér verkefni sem eru svona lengi í framkvæmd. Mér finnst skemmtilegra að taka upp og fá að
sjá útkomuna um leið en þetta er mjög skemmtilegt engu að síður,“ segir Sölvi með bros á vör og heldur út í kaldan veturinn. Það var áhugavert að ræða við hann og sjá hvernig sálfræðimenntað fólk getur notað sálfræðina í margs konar atvinnugreinum og verkefnum.