Freud: pervert eða brautryðjandi?

Flest ættu að kannast við mann að nafni Sigmund Freud. Hann var geðlæknir og taugafræðingur með sérstakan áhuga á draumum og undirmeðvitundinni. Hann er af mörgum talinn einn stærsti áhrifamaður sálfræðinnar með hugmyndum sínum um sálgreiningu. Margar af kenningum Freuds snéru bæði að hinu dulda, bælingum og kynhegðun. Hið dulda var honum hugleikið og fyrir honum voru það yfirleitt duldar þrár og langanir sem stýrðu gjörðum okkar. Sömuleiðis var hann mikill talsmaður notkunar kókaíns í meðferðarskyni og kvaðst hafa læknað vin sinn af morfínfíkn með því að kynna hann fyrir kókaíni.
Á 21. öldinni kemur hann fyrir sjónir sem óreiðukenndur fræðimaður og stundum virðist sem hann hafi gripið kenningar sínar úr lausu lofti í miðri kókaínvímu.

Meðal hans umdeildu og furðulegu kenninga ber helst að nefna kenningu hans um Ödipusarduld; þegar fyrsta ást stráka verður móðir þeirra. Út frá þeim löngunum myndast andúð í garð föður sem litast þá af afbrýðisemi. Þessi andúð veldur því að strákar vilji drepa föður sinn. Síðar „uppfærði“ hann kenningu sína svo hún ætti einnig við stúlkur sem væru ástfangnar af feðrum sínum. Hann taldi orsakirnar fyrir þessu vera duldar (schocker) – hræðsla stráka við reðurmissi og öfund stúlkna í garð pabba síns fyrir að vera með typpi. Þegar allt kom til alls snerist þetta mjög mikið um typpi og löngunina til þess að hafa eitt slíkt. 

Nefndi ég að túlkanir Freuds á draumum byggðust líka mjög mikið á typpum?  Ó já, honum fannst lögun hluta í draumum benda til þess að draumurinn snerist um typpi.
Sástu regnhlíf? Typpi. Tré? Typpi. Töluna þrjá? Pungur.

Það er ekki skrítið að Freud sé oft litinn hornauga, þegar hann er einna þekktastur fyrir kenningar sínar um kynlanganir barna og reðurlöngun.

Hvernig má það vera að þessi maður sé einn þekktasti sálfræðingur allra tíma? Málið er að þrátt fyrir skrítnar og umdeildar kenningar, jafnvel fyrir sinn tíma, þá var hann einnig meðal þeirra fyrstu til að vekja máls á ýmsu sálfræðilegu sem nútímasálfræðingar eru sammála um. Hugmyndir hans um hvers vegna við hegðum okkur eins og við gerum voru nýjar af nálinni og ríma við kenningar nútímasálfræðinnar. Hann sagði að hegðun ætti sér ekki rætur innan sálarinnar eða öðru sem ekki væri í náttúrunni. Hann sagði að alla hegðun mætti skýra vegna einhverra atburða, hugsana, lögmála eða öðru sem fyrirfinndist í náttúrunni. 

Freud skýrði þannig mismæli sem okkar raunverulegu langanir eða hugsanir á þeim tíma sem við mismælum okkur. Smá eins og Ross í Friends þættinum The One with Ross’s Wedding þegar hann (Höskuldarviðvörun) segist vilja ganga í hjónaband með Rachel en ekki unnustu sinni Emily. Hefði Freud setið á fremsta bekk hefði hann sagt strax að ljóst væri að Ross vildi raunverulega giftast Rachel. Reyndar þurfum við ekki Freud til þess að segja okkur það, er það ekki bara smá almenn skynsemi að álykta svo? En þarna er svo sannarlega hægt að sjá að Freud hafði eitthvað til síns máls um aldamótin 1900.

Draumaráðningar Freud voru kannski ekki alveg réttar og ekki held ég því fram að ef mig dreymi tré í nótt sé mig að dreyma táknrænt typpi. En þessar kenningar hans voru engu að síður byltingarkenndar vegna þess að á þessum tíma töldu fræðimenn að draumar væru handahófskennt rugl sem engu máli skipti. Síðan þessum steini var velt af Freud hafa sálfræðingar rannsakað drauma og svefn svo áratugum skiptir.

Við höfum ekki endilega fundið hina eina sönnu skýringu en rannsóknir á þessu sviði væru eflaust styttra komnar eða ekki til hefði Freud ekki gefið út heila bók um tákn í draumum.

Sömuleiðis verður ekki litið framhjá því að Freud talaði mikið og oft um málefni sem þóttu tabú. Umræða um kynlíf, kynhegðun og kynhneigð var ekki ofarlega á lista fræðimanna og þaggað niður í þeim sem vöktu máls á því. Vegna sinnar stöðu gat Freud talað nokkuð frjálslega um þessa hluti og hafið umræðu án þess að þaggað hafi verið niður í honum. Hann talaði til dæmis um að öll höfðu hvöt til þess að stunda kynlíf. Sú hugmynd er að vísu fjarri sannleikanum sbr. eikynhneigð en svona tal um kynlíf var tabú og eitthvað sem Freud meðal annarra opnaði á. Skoðanir hans á samkynhneigð myndu í dag þykja íhaldssamar en hans sýn á samkynhneigð var frekar framsækin á sínum tíma. Árið 1935 sendi bandarísk kona bréf á Freud að biðja hann að lækna samkynhneigðan son sinn. Freud sendi henni þetta bréf til baka:

I gather from your letter that your son is a homosexual. I am most impressed by the fact that you do not mention this term yourself in your information about him. May I question you why you avoid it? Homosexuality is assuredly no advantage, but it is nothing to be ashamed of, no vice, no degradation; it cannot be classified as an illness; we consider it to be a variation of the sexual function, produced by a certain arrest of sexual development. Many highly respectable individuals of ancient and modern times have been homosexuals, several of the greatest men among them. (Plato, Michelangelo, Leonardo da Vinci, etc). It is a great injustice to persecute homosexuality as a crime –and a cruelty, too. If you do not believe me, read the books of Havelock Ellis.

By asking me if I can help [your son], you mean, I suppose, if I can abolish homosexuality and make normal heterosexuality take its place. The answer is, in a general way we cannot promise to achieve it. In a certain number of cases we succeed in developing the blighted germs of heterosexual tendencies, which are present in every homosexual; in the majority of cases it is no more possible. It is a question of the quality and the age of the individual. The result of treatment cannot be predicted.
What analysis can do for your son runs in a different line. If he is unhappy, neurotic, torn by conflicts, inhibited in his social life, analysis may bring him harmony, peace of mind, full efficiency, whether he remains homosexual or gets changed.

Hafa skal í huga að á sama tíma voru Sovétríkin og Nasistar að senda menn í vinnubúðir fyrir það eitt að vera samkynhneigðir. Það var raunveruleiki samkynhneigðra manna nánast alls staðar í heiminum og er það því miður á sumum stöðum í dag. Freud var opinber talsmaður fyrir því að ekki ætti að líta á samkynhneigð sem glæp. Þótt fæstir myndu stimpla hann sem aðgerðasinna fyrir réttindum hinsegin fólks þá voru einhverjir fræðimenn sem notuðu hans málflutning sér til stuðnings um að afglæpavæða samkynhneigð. Þarna gat hann notað sína forréttindastöðu sem virtur fræðakarl til þess að láta gott af sér leiða.

Ljóst er að til eru mörg orð sem nota mætti til að lýsa Freud eftir því við hver segir frá. Risaeðla, skrítinn, pervert, snillingur, heimspekingur, áhrifavaldur eða kannski bara allt þetta? Það er góð ástæða fyrir því að talað sé um Freud innan sálfræðinnar. Þó er einnig vel skiljanlegt að slíkt umtal eigi sér oftast stað í sögulegu samhengi. Hér er svo ein skotheld setning í vopnabúrið fyrir næsta matarboð: Já ég er að læra sálfræði, nei ég er ekki að sálgreina þig.