Tengiliðurinn milli nemenda og kennara

Ingunn Júlia Tómasdóttir, Hagsmunafulltrúi 2018/19

Ég ákvað að bjóða mig fram í fyrra sem hagsmunafulltrúi sálfræðinema því mér fannst þetta hljóma eins og áhugavert og skemmtilegt verkefni. Hagsmunafulltrúi tekur við athugasemdum frá nemendum og kemur þeim áleiðis til sálfræðideildar ásamt því að vera fulltrúi nemenda á deildarráðsfundum einu sinni í mánuði og öðrum fundum innan deildarinnar. Einnig situr hagsmunafulltrúi ásamt formanni Animu fundi með sviðsráði og forseta heilbrigðisvísindasviðs. Hagsmunafulltrúi fær einnig þau verkefni í að aðstoða deildarstjóra að finna fulltrúa til þess að kynna sálfræðinámið á t.d. háskóladeginum o.fl.. Ef þú hefur áhuga á samskiptum og vinnu við úrlausn vandamála, ert skipulögð/skipulagður þá mæli ég hiklaust með því að þú bjóðir þig fram!

Starf hagsmunafulltrúa er krefjandi á tímum og krefst þolinmæðar en ég sé alls ekki eftir því að hafa tekið þetta verkefni að mér og hef öðlast frábæra reynslu á þessum tíma ásamt því að þróa mjög gott samband við kennara og kynntist samnemendum mínum betur.